Manneskjusaga

Saga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.

Hversu margt getur farið úrskeiðis í lífi einnar manneskju? Björg fréttir á unga aldri að hún sé ættleidd. Með þroskaröskun í farteskinu upplifir hún sig sífellt á skjön við samfélagið og finnst hún hvergi tilheyra. Hún heldur út í lífið í leit að viðurkenningu en mætir hverju áfallinu á fætur öðru. Sagan gerist á tímum þegar samfélagið hafði lítinn sem engan skilning eða þolinmæði í garð þeirra sem ekki féllu inn í rammann.

Manneskjusaga er skáldævisaga, byggð á raunverulegum atburðum.

Útgefandi: Bókaútgáfan Björt – Bókabeitan, október 2018.

Bókin fæst í helstu bókaverslunum og hjá útgefanda.
Einnig sem rafbók.
Sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafni í upplestri Völu Þórsdóttur leikkonu.
Á Storytel í upplestri Margrétar Örnólfsdóttur rithöfundar og tónlistarkonu.

Manneskjusaga var tilnefnd til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna, Storytel Awards 2021.

Ein af 10 áhugaverðustu bókum ársins 2018 að mati vefsins skald.is

Manneskjusaga er skáldævisaga. Hún segir frá ungri, ættleiddri stúlku (1959-2008) sem finnst hún hvergi passa inn og fer að leita uppruna síns. Kynni hennar af blóðföður og ömmu verða þó ekki til að líðan hennar batni. Manneskjusaga er saga af þöggun og skilningsleysi og enn frekar vangetu samfélagsins til þess að koma skaðaðri manneskju til hjálpar. Sagan er afar átakanleg og nær inn að kviku; hún er afar raunsönn, sannfærandi og falleg í öllum ljótleika sínum.

skald.is, 2018

Manneskjusaga er afskaplega vel skrifuð bók, beygir hvergi hjá en fylgir stúlkunni og fjölskyldu hennar eftir allt til hins ömurlega endis.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands, Tímarit Máls og menningar, 2020. Um Manneskjusögu. Sögur af börnum.

A Girl’s Tale – English sample translation by Larissa Kyzer

Ritdómar og umfjallanir

Morgunblaðsviðtal (05.11.2018)

MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. NÓVEMBER 2018
Vala Hafstað

Allar bjargir bannaðar

Steinunn Ásmundsdóttir segir að efniviður Manneskjusögu hafi valið sig

Þetta er saga sem hvíldi á mér og þurfti að vera sögð,“ segir Steinunn Ásmundsdóttir um nýútkomna bók sína, Manneskjusögu, sem er jafnframt fyrsta skáldsaga hennar, en áður hafa komið út eftir hana fimm ljóðabækur. „Þessi efniviður valdi
mig, en ekki ég hann. Ég gat ekki haldið áfram að skrifa fyrr en ég var búin að koma sögunni frá mér. Hún er byggð á sönnum atburðum sem ég sviðset og því er þetta í rauninni skáldævisaga.“
Manneskjusaga er ævisaga Bjargar, sem ættleidd er af hjónum í Reykjavík. Frá barnæsku glímir hún við félagsfælni og einelti og finnst hún stöðugt utanveltu í þjóðfélaginu – bæði í skólanum og í fjölskyldunni. Um fermingu krefst hún þess að fá að hitta blóðföður sinn, en eftir að hafa dvalið hjá honum um tíma úti á landi á hún sér ekki viðreisnar von. Við taka ár geðröskunar, fátæktar og vonlausrar baráttu við kerfið. Bókin lýsir ekki aðeins þjáningum Bjargar heldur einnig fjölskyldu hennar, í þjóðfélagi sem veitir engin úrræði.
„Björgu er aldrei gefið tækifæri í samfélaginu. Hún glímir við einhverja röskun sem enginn kann að mæta eða vinna með á þessum tíma, mögulega einhverfu,“ segir Steinunn. „Sem barn hefði hún þurft að fá hjálp til að fóta sig, og ekki síður sem ung kona sem búið var að brjóta niður. Ljótasti karlinn í sögunni er tíðarandi þessa tíma.“
Steinunn viðurkennir að ákveðin kaldhæðni sé í vali hennar á nafni aðalpersónunnar, Bjargar. Hún er manneskja sem allar bjargir eru bannaðar.

– Björg fæddist 1959. Hugsar þjóðfélagið okkar betur um slíka einstaklinga í dag?

„Í dag fæst bæði sjúkdómsgreining við ýmsum röskunum og meðferð. Nú er fórnarlömbum kynferðisofbeldis heldur ekki útskúfað og þau fá andlegan stuðning. Það er líka hægt að ræða þessa hluti núna sem enginn minntist á í þá daga. Þöggunin var alger. Margt hefur breyst til hins betra en auðvitað er þjóðfélagið í dag langt í frá fullkomið í þessu sambandi.“
Steinunn er sannfærð um að bókin eigi erindi við marga: „Ég er viss um að Manneskjusaga ratar til sinna. Þetta er saga sem
margir geta speglað sig í sem hafa þekkt einhvern eins og Björgu.“
Steinunn fæddist í Reykjavík 1966. Um þrítugt settist hún að á Egilsstöðum, þar sem hún stofnaði fjölskyldu og vann sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins í tæpan áratug. Hún ritstýrði síðan héraðsfréttablaðinu Austurglugganum um skeið, en lagði fjölmiðlastörf á hilluna fyrir nokkrum árum til þess að einbeita sér að ritstörfum. Og andagiftin lætur ekki á sér
standa. Í fyrra gaf hún sjálf út ljóðabókina Hina blíðu angist, sl. vor kom út eftir hana ljóðabókin Áratök tímans, bók 70 ljóða, og nú Manneskjusaga.

– Það er stórt stökk að fara frá því að yrkja ljóð og yfir í að skrifa skáldsögu.

„Sem blaðamaður er ég alvön að skrifa texta, en það sem hræddi mig mest við skáldsöguna var að skrifa trúverðug samtöl. En þegar upp var staðið reyndist mér það létt. Ég fer yfirleitt burt til að skrifa, fæ lánuð mannlaus hús í sveitinni, hef ekki samband við neinn og einbeiti mér algerlega að skrifunum. Ég aftengi mig öllu og sökkvi mér niður í skrifin. Það sem ég þurfti að passa upp á fyrst og fremst var að textinn hefði innra samhengi og flæddi vel. Ég skrifaði bókina í nokkrum áföngum og textinn streymdi til mín.“

– Hvað varð til þess að þú ákvaðstað einbeita þér að ritstörfum?

„Ég þurfti að hægja á mér, hætta að hlaupa uppi fréttir í heilum landsfjórðungi, frá hálendi til strandar, bæði til að bjarga anda mínum og finna út hvort ég gæti ennþá sett mig í samband við rithöfundinn innra með mér. Einu sinni var ég ungt Reykjavíkurskáld, en það er ekki hægt að vera ungskáld endalaust og því gekk ég á hólm við sjálfa mig til að fá úr því skorið hvort ég ætti enn eitthvað inni í skáldskapnum og svo reyndist vera. Þegar ljóðabókin Áratök tímans kom út í maí voru liðin 22 ár frá því seinasta ljóðabókin mín kom út. Ég gaf reyndar sjálf út lítið ljóðakver í fyrra, sem eru minningar frá dvöl minni í Mexíkó. Það er mikil ánægja í því fólgin að finna að mér hefur
tekist að koma þessari tengingu við skáldgyðjuna á aftur.“

– Stefnirðu að því að skrifa fleiri skáldsögur?

„Ég er strax komin með frumdrög að næstu skáldsögu og ég held áfram að yrkja ljóð. Satt að segja verður mér allt að ljóði. Ég viðra stundum ljóðin á vefsíðunni minni, Yrkir.is, áður en ég gef þau út. Í vetur ætla ég svo að skrifa aðra sögu. Hún valdi mig, en ekki ég hana, rétt eins og var með Manneskjusögu. Ég ætla að skrifa það sem eftir er ævinnar. Það gerir mig hamingjusama.“


Austurfréttarviðtal (24.10.2018)

Saga um geysilega þöggun

„Nú halda mér engin bönd eftir langt hlé í eigin sköpun og útkomu tveggja bóka í ár,“ segir rithöfundurinn Steinunn Ásmundsdóttir, sem var að senda frá sér sína sjöttu bók, skáldævisöguna Manneskjusögu. Fyrra útgáfuhóf bókarinnar verður í Eymundsson í Smáralind í dag klukkan 17:00.

Manneskjusaga er önnur bók Steinunnar á árinu, en í vor gaf Félag ljóðaunnenda á Austurlandi út bók sjötíu ljóða hennar undir bókarheitinu Áratök tímans. Útgefandi Manneskjusögu er Bókaútgáfan Björt sem er hluti af forlagi Bókabeitunnar ehf.

„Manneskjusaga fjallar um lífshlaup konu sem var nokkurra mánaða gömul ættleidd til hjóna í Reykjavík og lenti síðan á fimmtíu ára langri ævi sinni í margvíslegum ósköpum. Sagan gerist á árabilinu 1959-2008 og speglar tíðaranda þessara ára upp að einhverju marki. Frásögnin er um margt afar hráslagaleg þótt einnig séu í henni ljósir punktar, heitir reitir og ljóðræna.

Bókin er byggð á raunverulegum atburðum og þeir sviðsettir í hugarheimi höfundar, enda er þetta skáldævisaga. Kveikjan er í rauninni hvernig manneskja getur verið svo átakanlega á skjön við tíðarandann og allt samfélag sitt að það kýs að gleyma henni og láta eins og hún hafi aldrei verið til,“ segir Steinunn.

„Ljóti kallinn“ er tíðarandinn
Efni bókarinnar snertir Steinunni persónulega. „Vissulega var sú kona sem er innblástur minn að þessum bókarskrifum tengd mér fjölskylduböndum. Samhliða því að mér þótti óumflýjanlegt að skrifa sögu hennar og með mínu nefi ef svo má segja, var það mér sár reynsla að skrifa um þetta efni, því hún átti svo erfiðan lífsferil. Ég held þó að saga hennar sé um leið saga margra fleiri og að ýmsir muni geta speglað atburði úr eigin lífi eða fjölskyldusögu í frásögninni. Þetta er fyrst og fremst saga um geysilega þöggun, skilningsleysi, vangetu til að lifa því sem tíðarandinn taldi vera normalt líf en ekki síður vangetu samfélags þess tíma til að hjálpa skaðaðri manneskju. Ég hef gjarnan sagt að „ljóti kallinn“ í sögunni sé kannski fyrst og fremst tíðarandinn sem þá var við lýði.“

Bækurnar rata til sinna
Þó svo að Steinunn sé enginn nýgræðingur í þeim efnum að handleika nýprentaða bók eftir sjálfa sig segir hún þó alltaf fylgja því ákveðnar tilfinningar. „Alltaf er ég jafn feimin og eftirvæntingarfull við hverja bók sem fullgerist, skítnervus við móttökurnar en um leið stolt af því sem ég hef kosið að senda út í kosmosið með þessum hætti og í hjól tímans. Satt að segja held ég að bæði ljóðabækur og bók af því tagi sem Mannskjusaga er rati til sinna, svo ég hef ekki sérstakar áhyggjur af brautargengi þeirra.“

Margt fram undan hjá Steinunni
Aðspurð hvort Steinunn sé með eitthvað nýtt á prjónunum segir hún; „ Hugverkavefurinn minn, http://www.Orðlist.is, birtir jafnt og þétt ný ljóð eftir mig. Ég er búin að leggja frumdrög að nýrri skáldsögu þó að ég sé ekki byrjuð að skrifa hana sem slíka. Um miðbik vetrarins ætla ég þó að byrja á að skrifa barnabók, sem eins og Manneskjusaga gerði líka hefur ákveðið mig sem höfund sinn en ekki öfugt.“
Síðara útgáfuhóf Manneskjusögu verður í Bókakaffi í Fellabæ í byrjun nóvember.

Höfundur: Kristborg Bóel Steindórsdóttir • Skrifað: 24. október 2018.


Ritdómur – Austurglugginn (22.11.2018)


Ritdómur – Morgunblaðið (29.11.2018)


Ritdómur – Lestrarklefinn (30.11.2018)


Ritdómur – DV (06.12.2018)


Ritfregn – Vikan (06.12.2018)


Ritdómur – Glettingur (10.12.2018)


Austurgluggaviðtal (20.12.2018)


Vikan, ,,Ofbeldi litaði allt líf þeirra“ (02.2019) pdf


Starafugl – umfjöllun (03.04.2019) pdf

Ummæli lesenda

,,Það er eitt að hafa skrifað góða bók og annað að hún hitti í mark hjá lesendum. Það er frábært þegar þetta tvennt fer saman.“ /US

,,… Var að leggja frá mér Manneskjusögu. Komst með herkjum í gegnum lok bókarinnar því línurnar voru varla sýnilegar fyrir tárum. (Steinunni) hefur tekist að skrásetja alltof erfiða sögu á einstaklega varfærinn hátt en samt með hreinskilnina að vopni. Virðingin fyrir sögupersónunum skín skært í gegnum alla bókina. Hún er frábærlega skrifuð!“ /BL

,,Ég lagði ekki bókina frá mér fyrr en ég hafði lokið við hana og þá með tárin í augunum. Því miður er það þannig ennþá að of margir einstaklingar falla hvergi inn í kerfið og ekkert virðist grípa þá og fjölskyldur þeirra. Takk Steinunn fyrir að hafa skrifað fyrir okkur þessa grípandi og áhrifamiklu sögu.“ /HSH

„Hversu oft getur maður sagt að manni finnist bókin góð en samt verið dauðfegin þegar hún endar?
Líkt og Halldór Laxness, hefur Steinunn náð að fanga sorg mannkynsins og gera úr henni sorglegan en þroskandi lestur.“ /Dísa.

„Langar að mæla eindregið með þessari bók, Manneskjusögu, eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Hún er í senn átakanleg og auðlesin. Með trega getur maður auðveldlega sett sig í spor langflestra sögupersóna (alls ekki allra þó – sem betur fer) og fundið til samkenndar og skilnings með ólíku fólkinu. Sagan er raunsönn og mér er það hulin ráðgáta og á sama tíma spurn hvort engin sé hjálparhöndin í slíkri raun eða öllu heldur raunum. Þrátt fyrir þungt viðfangsefnið tekst Steinunni einstaklega vel að gera söguna aðgengilega, skref fyrir skref, bæði með léttleikandi texta og mátulegum lýsingum hverju sinni – ávallt er skilið eftir rými fyrir túlkun sem lesandinn þarf jafnvel að breyta eftir því sem líður á söguna. Lesið gjarnan þessa bók og Steinunn, skrifaðu endilega fleiri.“ /MG

,,Var að lesa bókina (…). Vel skrifuð, hún snerti mig mikið. Því miður eru örlög margra ennþá svona í dag.“ /BK

,,Áhrifarík og frábærlega skrifuð!“ /SÓ

,,Mjög góð bók og þörf lesning.“ /SÞ

,,Hrikaleg saga af ólýsanlegum erfiðleikum. Aldarfarslýsing, en ekki síður lýsing á óhamingju, vanmætti, vanþekkingu, einelti, vonleysi og svo ótal spurningum um hvort barnaverndaryfirvöld fóru réttu leiðina, brutu niður í stað þess að styðja við.“ /ÍDG

,,Af þeim nýútkomnu bókum sem ég hef náð að lesa er Manneskjusaga (…) sú fyrsta sem snertir við mér. Virkilega góð og áhrifamikil lesning. Mæli eindregið með henni. Sagan er sögð á þann hátt að lesandinn finnur til samkenndar með fleirum en einni persónu.“ /LE

,,Finnst Manneskjusaga góð og vel skrifuð þó efnið sé dapurlegt. Áhrifamikil saga.“ /OR

,,Mér finnst þetta mjög áhrifamikil saga, sérlega vel og fallega skrifuð um erfitt og sorglegt efni – mæli með henni.“ /EG

,,Bókin er mjög góð. Ætti að vera til á hverju heimili og minnir okkur á að á bak við allar manneskjur er saga.“ /DSS

,,Manneskjusaga segir átakanlega sögu byggða á raunverulegum atburðum sem standa höfundinum nærri. Manneskjusaga er um það að passa hvergi inn í, um einelti, geðröskun og kynferðisofbeldi – og um þöggun, úrræðaleysi og skilningsleysi. Bókin er verulega vel skrifuð, af næmni, innsæi og hlýju – í bland við nístandi sársauka. Hún vekur til umhugsunar og ég mæli heilshugar með henni.“ /MS

,,Steinunn Ásmundsdóttir var að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu. Hún er mörgum kunn fyrir ljóðabækur sínar og fetar nú inn á nýja slóð. Ég mæli heilshugar með Manneskjusögu – algjör skyldulesning. Þetta er skáldævisaga, byggð á ævi konu sem samfélagið brást og vildi helst gleyma. Kona sem í dag fengi væntanlega nokkrar ,,greiningar“ en þekking þess tíma bauð ekki upp á mikla aðstoð, hvorki fyrir fjölskyldu hennar né hana sjálfa. Þöggun þess tíma kom einnig í veg fyrir að hún fengi viðeigandi aðstoð. Steinunni tekst að segja frá erfiðum og sárum hlutum konunnar og fjöldskyldu hennar af mikilli næmni og virðingu. Bókin rígheldur manni frá fyrstu blaðsíðu, þeir sem ég hef talað við segjast ekki hafa getað lagt hana frá sér. Hér er fjallað um erfiða og sára hluti, af mikilli næmni og virðingu fyrir hlutaðeigandi. Við getum öll lært mikið af lífi þessarar konu sem að mínu mati fékk aldrei séns.“ /RAÚ

,,Las bókina í einum rykk. Ein besta bók sem ég hef lesið. Hún hlífir ekki samviskunni en (er) á sama tíma svo nærgætin. Bókin er skrifuð af óvanalegri næmni, dýpt, hlýju og síðast en ekki síst skilningi, þ.e. skilningi á því að við verðum að reyna að skilja hvað fólki gengur til. Hvers vegna það er eins og það er. Og þar með auðvitað hvers vegna við erum eins og við erum. Skilningi á því að öll erum við manneskjur sem þörfnumst virðingar, skilnings og væntumþykju sama hvað.“ ÁB

,,Mögnuð lesning, Manneskjusaga … takk fyrir.“ /GLÓ

,,Eftir lestur bókarinnar er efst í huga þakklæti til höfundar fyrir vel skrifaða sögu (…) og góða framsetningu án þess að setja erfiða lífsreynslu í einhvern skrautbúning.“ /JS

,,Átakanlegur lestur um hvernig lífið getur farið hrjúfum höndum um fólk. Óvæginn tíðarandi, þöggun og skeytingarleysi sem vonandi er minna núna en þá. Lesum hana, lærum og gleymum ekki okkar minnstu systrum og bræðrum.“ /KVH

,,Afar vel skrifuð bók … Skrifuð af greinilegri væntumþykju og skilningi á viðfangsefninu. Ég hvarf inn í söguheiminn.“ /ABÞ

,,Hamingjuóskir með þetta flotta verk.“ /FIJ

,,Mig verkjar enn í hjartað eftir að hafa lesið þessa bók.“ /GE

,,Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur, var að klára hana í gærkveldi og dreymdi hana í alla nótt. Ólýsanlega dapurleg örlög konu sem fékk ekki þá hjálp sem hún þurfti strax sem barn, og ekki síður þegar hún var unglingur, þá fyrst brást kerfið alvarlega, samfélagið allt. Mér hlýnar um hjartarætur að saga hennar hafi loksins verið skráð og gefin út. Hún á það svo sannarlega skilið. Og þetta gerðist ekki fyrir svo löngu síðan. Sem betur fer hefur margt breyst á tiltölulega skömmum tíma.“ /ARFJ

,,Ekki kom annað til greina en að lesa til enda. Áhrifarík saga saga sem ég varð snortin af. Fallega skrifuð og af mikilli elsku. … Hún vekur upp margar tilfinningar um manneskjur.“ /RM

,, … vel skrifuð, ljóðræn og falleg, … skrifuð af mikilli nærgætni og hlýju og maður skynjar mikla samkennd með (söguhetjunni) og viðleitninni til þess að viðurkenna hana eins og hún var.“ /AI

,,Klárlega bók sem enginn bókaormur ætti að láta fram hjá sér fara, hún er mjög átakanleg og skilur mikið eftir sig. Til hamingju Steinunn, virkilega vel skrifuð bók.“ /SÁE

,,Afskaplega vel skrifuð saga sem greip mig frá upphafi og lagði ég bókina ekki frá mér fyrr en ég var búin að lesa hana.“ IÞ

,,Þessi bók … hún fylgir manni áfram … ég er enn með kökk eftir að ég las hana.“ /ABB

,,Ein af nýju bókunum sem mér hafa borist er Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Ég gat ekki lagt hana frá mér fyrr en ég hafði lokið henni og mig skortir orð til að lýsa áhrifunum sem hún hafði á mig …“ /SÞ

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –