Dísyrði

Þessi ljóðabók er sprottin úr harkalegu þroskaskeiði ungdómsáranna, ástarsorg og svo endurreisn, sem reis meðal annars á bylgju næsta ofsafenginnar náttúruástar. Yndismanneskjan Inga Lísa Middleton á heiðurinn af myndverki á kápu en þar er mynd af uppstoppaðri súlu sem við fengum lánaða á Náttúrugripasafninu hér um árið.

Bókin er fáanleg hjá höfundi.

Dísyrði:

Kápumynd Ingu Lísu Middleton
Vefur ILM

Ódáðahraun

ensk þýðing

Ódáðahraun
forever and final
cruel through the ages
dreadful
yet you shelter the spores of life
the tiny seedling rests there
like the outlaw of old
when he hid in the hollows.

Ódáðahraun
so immovable
your time is not our time
came from the caldron
of fire
to the doggedness
of that which is.

Generations come and go
try to push you around
but one by one
umremarkably
they disappear
in lava
that once ran
in fire
and then set
in eternity.

Ódáðahraun is a huge lava field in the north-east
part of Iceland. It is named after evil deeds.

Morgunblaðið 1. desember 1992
Skáld og tónlistarmenn

Ljósvíkingar lesa og spila


LJÓSVÍKINGAR er heiti á hópi skálda og tónlistarmanna sem tekið hafa sig saman og standa fyrir upplestrar- og tónlistarkvöldum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi nú í desembermánuði. Fyrsta uppákoman verður í kvöld 1. desember á Sólón Íslandus í Húsi málarans við Bankastræti og hefst kl. 20.30. Þeir sem að hópnum standa eru rithöfundarnir Einar Kárason, Vigdís Grímsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Kristín Ómarsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Steinunn Ásmundsdóttir, Sveinn Óskar Sigurðsson og Ari Gísli Bragason. Tónlistarmennirnir eru Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Snorri Sigfús Birgisson og Sigurður Örn Snorrason klarinettuleikarar, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Páll Eyjólfsson gítarleikari. Á Selfossi og í Hveragerði munu þeir Kjartan Óskarsson og Óskar Ingvarsson bætast í hópinn og leika með. Dagskráin í desember er síðan skipulögð á eftirfarandi hátt; Listahús Reykjavíkur þann 18. des., Selfosskirkja 19., Laufafell Hellu 19., Hveragerðiskirkja 20., Dómkirkjan í Reykjavík 21. Hressó 29., og Sólon Íslandus 30. desember. Dagskráin hefst á öllum stöðum kl. 20.30. Hluti hópsins sem nefnir sig Ljósvíkinga og ætlar að lesa upp og flytja tónlist víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og á Suðurlandi í desember.

Morgunblaðið 18. desember 1992
Nýjar bækur – Tvær ljóðabækur
Út eru komnar ljóðabækurnar Dísyrði eftir Steinunni Ásmundsdóttur og Tjaldborg tímans eftir Svein Óskar Sigurðsson.
Í kynningu útgefanda segir m.a. um bók Steinunnar:

„Bókin skiptist í þrjá kafla: Rætur í nýju landi, Dísyrði og Öræfaljóð og gefa lesendum hlutdeild í þroska ungra skáldkonu sem í lokakaflanum slær nýjan tón í íslenskum náttúrukveðskap. Í fyrri bók sinni gaf Steinunn fyrirheit sem ung skáldkona en með Dísyrðum haslar hún sér völl sem eitt vandaðasta ljóðskáld af yngri kynslóðinni.“ Útgefandi er Goðorð. Kápu bókarinnar gerði Inga Lísa Middleton. Bókin er 47 bls. prentuð í Ísafoldarprentsmiðju hf. og kostar 1.480 krónur.

Í fyrri bók sinni gaf Steinunn fyrirheit sem ung skáldkona en með Dísyrðum haslar hún sér völl sem eitt vandaðasta ljóðskáld af yngri kynslóðinni.

Morgunblaðið 13. janúar 1993

Tár, angur og unaður

Bókmenntir Kristján Kristjánsson Dísyrði Steinunn Ásmundsdóttir 45 bls., Goðorð, 1992.

Árið 1989 kom út fyrsta ljóðabók Steinunnar, „Einleikur á regnboga“, en flest ljóðin í þeirri bók eru myrk og þunglyndisleg og full af sársauka sem birtist kannski helst til nærri yfirborði þeirra, líkt og reynsla höfundarins hafi ekki náð að renna saman við formið. Innan um voru þó ljóð sem sýndu ákveðinn þroska og nokkur tök á tungumálinu.
Nú, þremur árum síðar, sendir Steinunn frá sér aðra ljóðabók, „Dísyrði“, þrjátíu ljóð sem hún skiptir niður í þrjá hluta. Ljóð hvers hluta mynda ákveðna heild, þau standa sjálfstætt en hverfast um afmarkað efni líkt og um kvæðabálka sé að ræða. Uppsetningin styður slíka tengingu, hver hluti ber ákveðið heiti meðan ljóðin eru nafnlaus og númeruð með rómverskum tölum.
Fyrsti og annar hluti eru nátengdir, þeir lýsa umskiptum sem verða í lífi ljóðmælandans og má rekja í þeim ákveðna sögu. Fyrsti hlutinn heitir „Rætur í nýju landi“ og dregur nafn sitt af lokalínu síðasta ljóðsins. Steinunn yrkir í þessum hluta á keimlíkum nótum og í fyrstu bókinni, ljóðin miðla myrkri lífssýn, ótta og kvöl, jafnvel vonleysi og uppgjöf (t.d. ljóð II og IX). En svo gerist eitthvað í síðasta ljóðinu, sem er „bjartasta“ ljóðið í þessum hluta: „Ég veit ekki almennilega hvað gerðist/ . . .ég lifnaði allt í einu við // mér uxu hvítir vængir // í stað sorglegra hljóða / kom úr barka mínum hinn fegursti söngur // hjartað barðist ekki lengur af ótta / það sló í takt við lífið. // Ég festi rætur í nýju landi.“ (bls. 20.)
Annar hlutinn heitir „Dísyrði“ og er freistandi að líta svo á að þetta „nýja land“ sé sjálf ástin með stórum staf. Lesandanum birtist ástfangin kona. Í upphafsljóði hlutans stendur: „Enn er hún ekki ein / en nú er það ástin sem henni fylgir / og verndar hana gegn óttanum.“ Og annað ljóðið hefst á þennan veg:
Ég var kysst í morgun
og elskuð í nótt.
Ástin gefur fyrirheit og virðist heit og sterk: „á millum sálna okkar / er strengur / svo styrkur / að orða er ekki þörf“ (bls. 26). Þessi strengur brestur þó furðu fljótt, elskhuginn hverfur á brott og ástin reynist alls ekki það haldreipi sem vonast var eftir. Ljóð X (bls. 32):
Allt er að falli komið
ég sé mig í skuggsjá
konuna í rústunum
með kramið hjarta í lófanum.


Og óttinn fyllir líf ljóðmælandans að nýju. Það er ekki djúpt á tilfinningarnar í þessum ljóðum, formið er einfalt og gamalkunnugt; hér er allt sagt nokkuð beinum orðum. Myndmálið er yfirleitt fábrotið og bygging ljóðanna stundum ómarkviss. Röddin í ljóðunum er vissulega einlæg en þó ekki alveg laus við tilgerð því oft er notast við tungumálið nánast gagnrýnislaust eins og sjá má í dæminu hér að ofan.
Þriðji hlutinn er svolítið sér á parti, sjö ljóð undir heitinu „Öræfaljóð“, sem fjalla um tengsl ljóðmælanda við landið. Náttúruvernd og smæð mannsins andspænis fyrirbærum náttúrunnar ber hér m.a. á góma og ort er um Herðubreið og Ódáðahraun. Lýst er löngun til að eiga í landinu „athvarf og skjól“ en þó er landið fjarlægt, líkt og aðskilnaður manns og náttúru verði ekki yfirstiginn. „Ódáðahraun / svo óhagganlegt / tími þinn annar en okkar /(. . .) Kynslóðir koma og fara / vilja ráðskast með þig / en týnast hver af annarri / án sérstaks hróðurs í hraun“ segir í síðasta ljóði bókarinnar.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –