Ljóð á vegg

Fljótsdalshérað tók upp á þeirri skemmtilegu iðju að láta prenta ljóð eftir heimaskáldin á veggi ýmissa bygginga hingað og þangað um Egilsstaðabæ og Fellabæ. Ég átti eitt uppi á vegg ofan við sundlaugina og það var þar í fimm ár, 2013-2018, og fjöldi fólks kunni það orðið utan að, sem var ánægjulegt. Það lenti líka í Poké-leik, fólk átti að leita það uppi.

Vorið


Árla morguns; - kyrrðin svo tær,
ljósbrot í snjóperlum, grös að vakna,
þröstur á grein og álftir í oddaflugi
með sunnanátt undir vængjum.
Veröldin umhverfis
að bráðna saman í nýtt upphaf.
Auðmjúkir bíða farfuglarnir
á þröskuldi tímans.

Hitt ljóðið var sett í glugga húss við innkomuna í Egilsstaði árið 2015 í tilefni af 100 ára kosningarétti íslenskra kvenna. Sú bygging, sem jafnan er kölluð Nían, hýsir m.a. Hús handanna, dásamlega hönnunarverslun. Ljóðið var þar í tvö eða þrjú ár uns nýtt tók við.

Ég var kysst í morgun
og elskuð í nótt.
Mér líður eins og hafmey
sem býr í þykku ástarvatni
með ívafi morgunsársins.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –