Fuglamjólk

Fuglamjólk
Höfundur Steinunn Ásmundsdóttir
útg. Dimma, 2023.
Í sjöundi ljóðabók sinni heldur Steinunn Ásmundsdóttir uppteknum hætti og yrkir af næmleika og skilningi um líf og tíma, tengsl við náttúruna, ójöfnuð og firringu, en fyrst og fremst um manneskjuna sjálfa í flóknum vefnaði tilverunnar.

.

Aðventa

borgin er hljóð og myrk
smáflugvél hátt á himni
dregur hljóðboga í þögnina

heyrist rödd - stöku bifreið
þjóðin í svefnrofum
setur ketilinn yfir

hikið í þessum dögum
er næstum áþreifanlegt
framgangan varkár

strjálingur fólks á Skólavörðustíg
gleður hjartað gríðarlega
eftir mannfæð hvarvetna
Djöfulgangur

KAUPTU KAUPTU KAUPTU!
NJÓTTU NJÓTTU NJÓTTU!

hvílík plága þeim aurafáu og tímalitlu
sem stöðug áminning um fátækt og lánleysi

meðan aðrir fitna eins og púki á fjósbita
hlaupandi milli gnægtaborða
stendur sá svangi löngum stundum
í ölmusuröðinni með svartnætti
og skammdegisþyngsli í vösum

víst er gæðunum misskipt
í þessu guðsvolaða landi
ríkidæmis og velmegunar
Lífshlaup

brann
af ókyrrð þrá þorsta
forvitni feigð
endasentist um veröld víða
að leita uppi tilveruna
teyga lífið

í aldurdómi finn enn
keim af þessu
- þó óljósan

bruninn hægari
stöðugri

tíminn hefur þanist út
hægt að horfa bæði aftur
og fram

hugleiða merkingu

mæta sjálfum sér
Kona hans
- í Hólavallagarði

þær liggja í röðum
grafnar í jörð
undir heitinu
kona hans
stundum án
eigin nafns

þeir skipta tugum
legsteinarnir með
þessari áletrun

konur þeirra
hafa ekkert gert
en þeir verið
kaupmenn bændur
prestar lögmenn
og sýslumenn

það stendur skrifað

þær voru aðeins
konur þessara karla

ég tek unga dóttur mína
í þetta beinasafn áranna
og við köstum kveðju á
konu hans
hvar sem við verðum
hennar varar til að
votta þessum gleymdu
manneskjum virðingu
Græðgi

grimmustu skepnur jarðar
vel til hafðir menn í jakkafötum
með græðgisglampa í augum
og hrokafulla brosvipru þess
sem fyrirlítur af hjarta
láglaunastéttir og góða fólkið

hagnaður er brauð þeirra og blóm
arðránið fegurst lista
að taka til sín allt sem er
- og enn meira

makráðir
efst í iðandi hrúgu
þar sem samfélög grotna
í hagvaxtarmoltu
og mennsk gildi
- útvötnuð
fúlir lækir
að stórfljóti auðmagns
Glataða þjóð

landið mitt harðbýla og fagra
ævinlega olnbogabarn
sem morknar innan frá

eftirbátur þjóða
í lýðræði og landstjórn
réttarfari og framsýni

heilbrigðiskerfi á heljarþröm
menntakerfi á vonarvöl

sinnum ekki okkar minnstu bræðrum
heldur mokum með hreistraðri silfurskeið
auði í fárra munna

fólk liggur í strætinu
því ekki nokkur telur það sitt
að reisa það við

enginn vill hafa kofa hinna ógæfusömu
í sinni götu
ef maður sér þau ekki eru þau ekki

meint paradís jafnréttis
þar sem jón er ekki sama og séra jón
og kyn skilur milli feigs og ófeigs

stúlkubörn veiðibráð
úldnandi feðraveldis

krónum krýnda þjóð
sem borgar allt margfalt
í gengisins íslensku rúllettu

þrautpíndir launaþrælar
sem aldrei sjá til sólar
lifa hér á rusli og brauðmolum

hollustan aðeins fyrir efnaða
draslið nóg fyrir hina

leyfðir útlendingar
með óleyfilegar prófgráður
fá að þrífa klósettin

hér í allsnægtalandinu
er flóttafólki vísað á bug
til að veslast upp og deyja

fjölskyldur fluttar í nauðung
að næturþeli úr landi

drögum dýr í vinsældadilka
gjörnýtum til blóðs og beina
en þau eru líka lífsins verur

seljum undan okkur landið
ár og almenninga
bjóðum tærleikann fram sem skítsvelg

allt frá möðkuðu mjöli úr norðurvegi
til hermangs herraþjóða
höfum við lifað fátæk í ríkidæmi

þrætubókarlist í skotgröfum þings
borist á heimskunnar banaspjótum
gildur gildari og mjór vísir visnar

morknum innan frá
ójöfnuður eyðir jafnrétti

bæn mín er
um heiðarlegt samtal
virðingu og umhyggju
útdeilingu auðsins
kærleiksríkt réttlæti
jöfnuð fyrir hvern mann

við erum öll börn þessa lands
þegnar þessarar þjóðar

land mitt - mín þjóð!
þú dafnar ekki

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –