Minningargreinar

Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans

F. 20. september 1915, d. 27. ágúst 2005

Ég stóð á járnbrautarstöðinni í Utrecht í Hollandi einn fagran sumardag árið 1982, af því að Ásmundur Matthíasson faðir minn hafði sagt mér að ég yrði að hitta Aðalheiði Hólm frænku okkar að vestan, sem búið hefði í Hollandi í mörg ár. Hún væri svo merkileg og skemmtileg manneskja. Og sem ég stóð þarna og beið, kom hjólandi til mín á svörtu Möwe-reiðhjóli kona, sem leit hreint ekki út fyrir að vera tæplega sjötug, kynnti sig sem Heiðu og bauð mér að setjast á bögglaraberann, því hún ætlaði að reiða mig heim í Selvasdreef. Með viðkomu á blómamarkaði komumst við heilar í höfn á hjólinu hennar Heiðu ásamt dúsíni af gladíólum og mér var boðið inn að hitta Holla, eiginmann frænku minnar. Móttökurnar voru höfðinglegar. Þær voru líka svo hlýjar. Þetta fólk, sem ég hafði aldrei séð fyrri, umfaðmaði mig með gæsku og kátínu, áhuga og skilningi. Og þar með hófst vináttusamband sem hefur átt ríkan þátt í að koma mér til manns.

Aðalheiður var lærimeistari minn þegar ég var yngri, og hetjan mín þegar ég eltist. Hún kenndi mér að vera forvitin um öll svið tilverunnar, að víkka sjóndeildarhring minn í gegnum bókmenntir og heimspeki og gerði mér ljóst gildi samræðunnar. Í rúm tuttugu ár áttum við sterkan vinskap í gegnum heimsóknir mínar til Hollands og heimsóknir hennar og þeirra hjóna til Íslands, í gegnum sendibréf og óteljandi millilandasímtöl. Ég var alltaf jafn hrifin af því hversu hugur Heiðu var sterkur og leitandi og dáðist að gáfum hennar og lífsþrótti. Jafnvel eftir að Parkinsonsveikin tók að herja á líkama hennar. Hún hvatti mig til einbeitni í lífinu og að mýkja tilveruna með kímni og samhygð. Heiða hafði sterka réttlætiskennd, leitaðist eftir að ræða við ungt fólk til að skynja straum samtímans og lagði fram til hins síðasta einatt í ævintýraleg ferðalög hist og her um heiminn til að kynna sér menningu og ný sjónarmið.

Faðir minn og Heiða voru þremenningar, hún frá Tálknafirði og hann Patreksfirði. Ég fann alltaf hversu sterkar rætur Heiða hafði á Íslandi og hversu innilega vænt henni þótti um landið okkar og tungumálið. Síðasta samtal mitt við hana var fyrr í sumar. Þá sagðist hún sakna andblæsins að vestan, þrunginna lita hins íslenska sumars og tungumálsins. Hún var þreytt í sinni og sagðist vilja hvílast.

Heiða mun ætíð eiga sér stað í hjarta mínu sem minn einkar kæri og sanni vinur og lífskennari. Ég hef sagt það oft og segi það enn, að ég mun leitast við að lifa af sama þrótti og hún gerði, leggja mig fram um að skynja samtíma minn í tíma og rúmi og njóta þess að eiga góða samferðarmenn.
Ég bið Holla vini mínum*, börnum þeirra Heiðu og barnabörnum blessunar í framtíðinni.

Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans (Heiða Hólm) fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð 20. september árið 1915. Hún lést í Utrecht í Hollandi 27. ágúst 2005. Foreldrar hennar voru Viktoría Bjarnadóttir frá Tálknafirði, f. 25. febrúar 1888, d. á sjötta áratug síðustu aldar og Sigurgarður Sturluson frá Vatnsdal, f. 14. maí 1867, d. 26. mars 1932. Systkini Aðalheiðar voru Guðrún, Bergþóra, Laufey, Gunnar, Bjarnveig, Bjarni og Ásgeir.
Árið 1944 giftist Aðalheiður Wugbold Spans, f. 19. nóvember 1915, fv. loftskeytamanni og upplýsingafulltrúa við Háskólasjúkrahúsið í Utrecht í Hollandi. Börn þeirra eru Viktoría, f. 4. maí 1942, Sturla, f. 25. nóvember 1947 og Pieter, f. 17. ágúst 1949. Barnsmóðir Sturlu er Josee, f. 27. maí 1949 í Hollandi. Börn þeirra eru Sten Snorri, f. 16. janúar 1979, Salka Sterre, f. 1. júlí 1980 og Jón Hendrik, f. 29. janúar 1983. Eiginkona Pieters er Elisabeth Eelkje, f. 2. júní 1948 í Hollandi. Börn þeirra eru Berber, f. 16. maí 1980, Gunnar Jasper, f. 14. október 1981 og Bjarni Wugbold, f. 2. júlí 1984. Aðalheiður ólst fyrstu árin upp á Tálknafirði en flutti til Reykjavíkur á unglingsárum. 18 ára gömul stofnaði hún ásamt öðrum konum Starfsstúlknafélagið Sókn. Hún var fyrsti formaður félagsins og árum saman fylkti hún liði með því fólki sem barðist fyrir mannsæmandi lífi íslenskrar alþýðu á kreppuárunum. Árið 1946 flutti Aðalheiður til Kempen í Hollandi með Wugbold manni sínum og Viktoríu dóttur þeirra, en lengst af bjó fjölskyldan í borginni Utrecht. Heimili Aðalheiðar og Wugbolds var alla tíð opið þeim Íslendingum sem leið áttu um Holland vegna náms eða starfa og var þeim gjarnan lagt lið við hvaðeina. Á heimili voru frjó hugsun og merkingarmiklar samræður einatt hafðar í hávegum. Aðalheiður var einn stofnenda Vinafélags Íslands og Hollands. Þorvaldur Kristinsson ritaði endurminningar hennar í bókinni Veistu ef vin þú átt, og kom hún út árið 1994. Aðalheiði var veitt Hin íslenska fálkaorða fyrir störf sín í þágu íslenskra verkakvenna fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld og aðstoð við Íslendinga í Hollandi.
Útför Aðalheiðar var gerð frá bálfararstofu Den en Rust í Bolthoven, Hollandi, 1. september 2005.

  • Wugboldt Spans f. 19. nóvember 1915, d. haust 2005.

Aðalheiður Hólm Spans
20 OCT 2018 · HULDUFÓLK FULLVELDISINS
Fjallað um Aðalheiði Hólm Spans, frá Eysteinseyri við Tálknafjörð. Sólveig Þorbergsdóttir listakona og kennari, Jakobína Hólm systurdóttir hennar, Jón Kristinsson arkitekt og Þorvaldur Kristinsson rithöfundur segja frá henni. Umsjón: Margrét Blöndal.

Ásmundur Matthíasson

F. 30. júlí 1916, d. 21. maí 1994

Eitt sinn skal hver deyja. Víst er það eðli lífsins og enginn fær það umflúið. Þó er það svo sárt að sjá á bak föður, sem hefur fylgt mér hvert fótmál lífs míns og umvafið mig ástúð og umhyggju frá fyrsta degi. Sem lítil hnáta spígsporaði ég hnarreist við hlið pabba míns á Lögreglustöðinni, hélt í hlýju höndina hans og var sannfærð um að ég ætti fallegasta og langbesta pabba í öllum heiminum. Og rúmum tuttugu árum síðar hélt ég enn í þessu hlýju hönd, í gönguferð á sólbjörtum maímorgni og við dáðumst að vorinu, Esjunni, bláa litnum á himninum og að gjörvöllu lífinu. Tilfinningin að vera óhult og vernduð í návist hans var sterk. Vakinn og sofinn gætti hann mín, leiðbeindi mér og gerði sitt besta til að ég mætti verða góð og gæfurík manneskja. Og þegar á reyndi stóð hann sem klettur við hlið mér og var reiðubúinn að berjast við hvern þann dreka sem á vegi mínum varð.

Pabbi vígði mig inn í marga dýrmæta heima. Hann vakti athygli mína á fegurðinni, tónlist, myndlist og bókmenntum, gildi heilinda og fyrirgefningar og kenndi mér að bera ástúð, íhygli og sáttahug í hjartanu. Allt eru þetta gjafir sem hafa gert mig að því sem ég er og hafa og munu framvegis auðga líf mitt óendanlega.

Pabbi var alltaf að kenna mér vísur og ljóð. Hann skrifaði heilmikið sjálfur og fyrsta vísan sem ég lærði var einmitt eftir hann:

Góða barn, ég gefa vil þér ráð,
gakkt' ekki yfir veginn fyrr en vel þú hefur gáð.
Mundu græna ljósið og merkta göngubraut,
já, mikið væri gaman að kunna þessa þraut.

Þetta notaði hann mikið í umferðafræðslu í skólum, en þar var hann forvígismaður eins og raunar á mörgum öðrum sviðum. Ég var bara ellefu ára þegar ég kom til hans með fyrst frumsamda ljóðið mitt. Hann varð himinlifandi, las ljóðið litla fyrir alla sem komu í heimsókn næstu daga og blés mér í brjóst löngun til að halda áfram. Síðan þá hef ég skrifað ýmislegt og hafði alltaf á bak við mig einlægan áhuga, markvissa gagnrýni og trú hans á að ég hefði eitthvað fram að færa á þessum vettvangi.

Elsku pabbi minn, ég man þig sem mann glaðværðar og góðmennsku. Alltaf áttir þú litlar sögur á reiðum höndum; frá Patró, þegar við vinirnir lékuð ykkur um fjöll og dali eða þræluðuð myrkranna á milli, sögur frá Núpsskóla eða um foreldra þína og Mugg, sem tilkynnti mömmu þinni að nú væru jólin komin til Tálknafjarðar, af fyrsta vörubílnum þínum og mönnum og málefnum yfirleitt. Þú varst tilbúinn að ræða allt milli himins og jarðar, alltaf heiðarlegur í skoðunum og deildir aldrei um trúarbrögð eða stjórnmál. Þú elskaðir mömmu og alla fjölskyldu þína takmarkalaust og barst hlýjan hug til nánast allra manna. Varst fastur fyrir, orð þín stóðu alltaf og menn treystu þér. Áttir jafnvel til að láta nokkur heilræði af hendi við þá sem þér þóttu eiga það skilið. Alltaf teinréttur, settir stundum í axlirnar og áttir það til að taka af þér nefið til að plata mig.

Ég kveð þig, sem ég elska svo mjög og heiti því að leitast við að vera sönn og góð manneskja. Eins og þú varst; sannur og góður maður.

Ásmundur Matthíasson, fyrrverandi aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni í Reykjavík, fæddist 30. júlí 1916 á Patreksfirði og ólst þar upp. Hann lést 21. maí 1994. Ásmundur var sonur hjónanna Steinunnar Guðmundsdóttur og Matthíasar Guðmundssonar á Patreksfirði. Hann var næst elstur tólf systkina og eru nú átta eftirlifandi. Árið 1943 hóf hann störf hjá Lögreglunni í Reykjavík og vann þar um 44. ára skeið. Hann kvæntist 1. júlí 1944 Ragnhildi Pétursdóttur frá Hjaltastað, Hjaltastaðaþinghá, S.-Múl. Þau eignuðust þrjú börn: Hauk, Guðlaugu og Steinunni.

Páll Finnbogason:
,,Þá kemur hann mér í hug, er ég heyri góðs manns getið.“ Þessi fleyga setning var sögð um merkan mann og mun mörgum í huga koma, er þeir minnast Ásmundar. Þessi fjallmyndarlegi heiðursmaður er nú að foldu hniginn. Andlát Ásmundar kom mörgum á óvart, svo vel bar hann sig fram á síðustu stundu.
Honum var tamara að spyrja um heilsu annarra en tala um sína eigin, þótt honum muni hafa verið ljóst að hverju stefndi. Um þennan mann mætti rita langt mál, en til þess er ekki rúm hér.
Á ári fjölskyldunnar þykir undirrituðum hlýða að minnast á hina óvenjulegu rækt er hann sýndi fjölskyldu sinni, foreldrum og systkinum. Hann var elsti sonur foreldra sinna. Þau bjuggu í litlu húsi á Patreksfirði. Þetta hús stendur enn og lætur ekki mikið yfir sér og má undrum sæta að allt þetta fólk; 12 börn og nokkrir vandamenn að auki, skyldu komast fyrir í þessu litla húsi. En þegar inn var komið var þetta höll, hátt til lofts og vítt til veggja. Því að þarna ríkti kærleikurinn og hjartarými húsráðenda var takmarkalaust. Til fullorðinsára komust níu börn þeirra hjóna og hafa fjölskyldutengsl þeirra verið samtvinnuð minningunni um frábæra foreldra.
Margt hefur verið rætt og ritað um aldamótakynslóðina og eru menn yfirleitt sammála um að það hafi verið merkasta kynslóð sem Ísland hefur alið.
Foreldrar Ásmundar voru af þessari kynslóð og var vinnusemi og innræti þeirra dæmigert fyrir kynslóðina sem lagði grunninn að framtíð þessa lands, framförum, frelsi og sjálfstæði; svo til með berum höndum.
Hún varð að vaka og vinna, annars var ekki kostur. Hér birtist íslensk þjóðarsál, sem á eftir að vera haldreipi það sem tryggir framtíð þessarar þjóðar. Arfur sá er þessi kynslóð lét eftir sig var dýrmætur þótt faseignamatið væri ekki hátt. Þetta voru auðævi sem mölur og ryð fá eigi grandað. Ásmundur og hin ágæta eiginkona hans, Ragnhildur Pétursdóttir, varðveittu vel þennan arf, þótt þau kæmust vel af að öðru leyti. Hún er sprottin úr sama jarðvegi, þótt aðstæður væru ekki alveg þær sömu.
Hún minnist oft æskuheimilis síns og foreldra með mikilli virðingu og hlýju og verður engu að síður tíðrætt um tengdaforeldra sína, er hún metur mjög mikils.
Hér verður að láta nægja að minnast á eitt atvik í lífi Ásmundar, sem lýsir honum betur en mörg orð fá gert.
Þau hjón höfðu að vísu ferðast um ókunn lönd, en síðustu áratugina kusu þau heldur að skoða sitt eigið land og þreyttust aldrei á að lýsa og dást að dásemdum íslenskrar náttúru. Fyrir mörgum árum voru þau í sumarfríi norður í landi og undu sér vel. Þá fékk Ásmundur skyndilega hugboð um að faðir hans væri í vanda staddur. Hann ók þegar heim á leið og hafði samband vestur á Patreksfjörð. Faðir hans lá þá fárveikur á sjúkrahúsi þar. Ásmundur leigði þegar í stað flugvél og sótti föður sinn og kom honum á sjúkrahús hér syðra og í hendur færra lækna.
Föður hans batnaði á nokkrum mánuðum og lifði og starfaði í mörg ár eftir það. Má fullyrða að Ásmundur hafi bjargað lífi og heilsu föður síns.
Þetta er sagt til að sýna hvílíkur lánsmaður Ásmundur var.
Ásmundur gekk að hverju því er hann tók sér fyrir hendur með alúð og vandvirkni, bæði í starfi og leik. Heimilisbókasafn þeirra hjóna er mikið að vöxtum og gæðum og lýsir þeim vel, en bæði voru bókhneigð og vel lesin.
Ásmundur batt sjálfur inn bækur sínar í frístundum og var handbragðið með þeim hætti að hver fagmaður hefði verið stoltur af.
Þannig var bæði orð hans og æði og hinar miklu vinsældir hans og þeirra hjóna segja meira en nokkur orð fá gert.
Samferðamenn hans sakna nú vinar í stað, en þyngstur harmur er kveðinn að ástvinum hans, eiginkonu, dóttur og kjörbörnum sem og skylduliði öllu er dáði og virti þennan mæta mann.
Hið langa og farsæla hjónaband þeirra hjóna var byggt af gagnkvæmri ást og virðingu, sem er undirstaðan undir þá stofnun. Þau voru ávallt saman en nú hafa leiðir skilið um stund. Eiginkona hans mun í fyllingu tímans hitta ástvin sinn á grænum grundum eilífðarinnar, þar sem aldregi leiðir skilja.“

Bryndís Pétursdóttir

F. 22.09.1928, d. 21.09. 2020.

„Dísa systir“ – þessi tvö orð ómuðu öll mín uppvaxtar- og fullorðinsár þar til fyrir skömmu og hljómur þeirra bar vitni um mikla elsku Ragnhildar móður minnar í garð litlu systur sinnar. Duglegu litlu systur sem hafði brotist úr viðjum og gert garðinn frægan.
Á þeirra tíma vísu þótti hæfilegt að synirnir og elsta dóttirin gengju menntaveginn, ekki voru efni til annars. Miðjudótturinni móður minni þótti áberandi vænt um að Dísa hafði fylgt hjartanu og valið sér vettvang á sviði leiklistarinnar sem mátti í þá daga segja að væri jafnvel nokkuð utan alfaraleiðar fyrir unga stúlku úr sveit.

Allt frá því að Dísa valhoppaði lítil hnáta um grundir á Vattarnesi við Fáskrúðsfjörð í stórbrotinni austfirskri náttúru og horfði til hafs á Skrúðinn, var þessi knáa manneskja að sækja á og feta nýjar slóðir. Hún umbreytti sér úr sveitabarni í siglda og þenkjandi borgardömu. Yfir henni var tíguleg ára heimskonunnar, hún var Grace Kelly litlu Reykjavíkur; sveiflaði ljósgullnum makkanum svo sígarettureykurinn þyrlaðist í allar áttir og lagaði faldinn á glæsilegum tískukjólnum, alltaf elegant og vakti athygli hvar sem hún fór. Hún vann hug og hjörtu leikhúsgesta sem leikkona sem sópaði að frá fyrstu senu og vann einnig um hríð sem flugfreyja í árdaga millilandaflugs landsmanna. Hún var fyrsta íslenska kvenfilmstjarnan og lék í alls kyns leiksýningum, kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpsleikritum fram á efri ár. Haft var eftir henni í viðtali að starfsdagur hennar gæti verið þannig að þegar hún væri búin að koma börnunum í pössun í býtið mætti hún á æfingu í leikhúsinu miðmorguns og væri að þar fram á miðjan dag. Þá tæki jafnvel við æfing á útvarpinu síðdegis, hún færi svo heim til að elda kvöldmatinn því maður hennar vildi að hún gerði það sjálf og síðan væri leiksýning langt fram á kvöldið (Heima er bezt, 3,1957). Þetta hefur verið meiriháttar álag og togstreita, ekki síst á þessum tíma. Þau Bassi heitinn, Örn Eiríksson, áttu glæsilegt heimili þar sem andríki, samræða og menning skipuðu öndvegi. Í minningunni var þar aldrei lognmolla og synir Dísu og Bassa, þeir Eiríkur, Pétur og Sigurður hafa borið andríkið áfram í sínu lífi, hver á sinn hátt.

Dísa þekkti alla sem skiptu máli, þá sem voru á stóra sviðinu og fyrst og fremst skapandi fólk með hugsjónir og eldmóð sem lagði meginlínurnar í menningarlífi og arfleifð okkar þjóðar. Hún tók drjúgan þátt í þeirri uppbyggingu og var skapandi og starfandi alla tíð.
Ég var satt að segja dauðhrædd við Dísu frænku þegar ég var barn. Mér fannst hún svo glæsileg og ósnertanleg, jafnvel af öðrum heimi. Hún færði mér framandi hluti, leðurvöru og silfurskart frá suðrænum löndum, sem heillaði mig upp úr skónum. Henni fylgdi langoftast klingjandi hlátur og léttur þytur, ilmvatnsangan, flýtir. Hún var ákveðin í tali, dvaldi ekki við það sem henni þótti ómerkilegt, lokaði málefnum með konkret yfirlýsingum og þar með búið. Ég hafði ekki roð í að tala við hana. Ekki fyrr en ég var komin til vits og ára og áttaði mig á að hún vildi viðnám, hafði visst gaman af orðaskylmingum og þá fundum við snertiflöt sem varð grunnur að áralangri hlýju og kærleika á milli okkar.

Mamma mín sagði mér margt um líf þeirra systkina fyrir austan fram til ársins 1933 og við Dísa dvöldum þar gjarnan í samræðum okkar síðustu árin og skemmtum okkur hið besta. Hún elskaði Fljótsdalshérað með sínu Gunnhildargerði í Hróarstungu og austfirsku firðina fögru, upprunastaðurinn var einstakur og bjartur í hennar huga.

Þessi fastastjarna á himni mínum er nú hnigin til viðar, síðust af systkinum sínum, daginn fyrir nítugasta og annað afmæli sitt. Heiðruð og blessuð sé minning hennar. Ég votta frændum mínum og fjölskyldum mína dýpstu samúð.

Bryndís Pétursdóttir leikkona lést 21. september 2020, tæplega 92 ára að aldri. Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára.
Bryndís Pétursdóttir leikkona lést sl. mánudag, 21. september, tæplega 92 ára að aldri.
Bryndís fæddist 22. september 1928 á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði en flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur er hún var sex ára. Foreldrar hennar voru Pétur Sigurðsson, bóndi og vitavörður, og Guðlaug Sigmundsdóttir framkvæmdastjóri.
Bryndís gekk í Verzlunarskóla Íslands en fór 16 ára í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og útskrifaðist þaðan. Hún steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu 18. nóvember 1946. Hún sté fyrst leikara á svið í vígslusýningu Þjóðleikhússins sem Guðrún í Nýársnóttinni.
Í Þjóðleikhúsinu lék Bryndís uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir ef frá eru talin nokkur leikrit hjá Leikfélagi Reykjavíkur auk þess að taka þátt í leikriti hjá Leikfélagi Akureyrar. Á yngri árum fór Bryndís á sumrum í margar leikferðir um landið.
Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið eru Rósalind í Sem yður þóknast, Helga í Gullna hliðinu (’52 og ’55), Sybil í Einkalífi, Sigríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikollinum, Ismena í Antígónu Anouhils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Doris í Brosinu dularfulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Charles í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eftir syndafallið, Vala í Lausnargjaldi, Enuice í Sporvagninum Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á Litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998.
Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Hún fór m.a. með aðalhlutverk í fyrstu íslensku talsettu kvikmyndunum Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.
Eiginmaður Bryndísar var Örn Eiríksson loftsiglingafræðingur, hann lést 1996. Synir þeirra eru Eiríkur Örn, Pétur og Sigurður. 22. september 1928 Hún lést 21. sept. 2020. Útför hennar fór fram 1. október 2020.

Einar Pétursson

F. 2. nóvember 1923, d. 2013

Einar frændi minn Pétursson var svo sannarlega perla í mannhafinu. Maður fylltist einhverri óútskýrðri vellíðan nálægt honum og heilindin og rósöm hlýjan í fasi hans, að maður tali nú ekki um kankvískt blik augnanna, fylltu vitundina og voru kjarngott veganesti út í þann daginn og meira til.

Alveg frá því ég var hnáta í heimsókn með foreldrum mínum hjá Einari og Siggu, man ég eftir frænda sem einhverjum sem maður treysti skilyrðislaust og gat kinnroðalaust verið maður sjálfur nálægt. Það er ekki svo lítið. Seint líður úr minni þegar Einar kom austur í Egilsstaði til okkar fyrir nokkrum árum og umvafði Rænku systur sína svo yndislega; þarna sátu þau gömlu systkinin hlið við hlið, héldust í hendur og ferðuðust saman um liðinn tíma og viðburði í sögu stórfjölskyldunnar. Og faðmlag hans og handtak var þétt og hlýtt þegar hann kvaddi mömmu mína og okkur heimafólkið.

Einar var vænn maður og valmenni, veik hvergi þegar kom að því að axla oft á tíðum ægiþungar byrðar tilverunnar en kunni jafnframt að njóta augnablikanna og gleðjast meðal góðra. Hann skilur eftir sig myndarlegan arf í fólkinu sínu, sem einnig eru fagrar perlur, hvert á sinn hátt.

Far í friði elskulegur frændi minn. Minning þín geymist við hjartarætur.

Einar Pétursson húsasmíðameistari og kaupmaður fæddist á Hjaltastað í Eiðaþinghá 2. nóvember 1923. Hann lést á dvalarheimilinu Grund 5. október 2012.
Foreldrar hans voru Pétur Sigurðsson frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá og Guðlaug Sigmundsdóttir frá Gunnhildargerði í Hróarstungu. Systkini Einars: Sigríður f. 18.8. 1918, d. 8.3. 1968; Sigrún, f. 13.3. 1920, d. 19.4. 1971; Inga Margrét, f. 8.5. 1921; Ragnhildur, f. 6.9. 1922, d. 24.3. 2012; Rós, f. 6.6. 1925; Bergur Eysteinn f. 8.12. 1926, d. 13.9. 1970 og Bryndís, f. 22.9. 1928.

Kona Einars var Sigríður Karlsdóttir, f. 24.11. 1928, d. 8.10. 2001. Foreldrar hennar voru Karl Haraldur Óskar Þórhallason og Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir . Börn Einars og Sigríðar: 1) Pétur, lögfræðingur, fv. flugmálastjóri, f. 4.11. 1947, var kvæntur Arndísi Björnsdóttur, f. 26.8. 1945. Þau skildu. Börn þeirra: a) Signý Yrsa, f. 5.1. 1969, maki Grétar Símonarson, börn þeirra Pétur Geir, Símon Brynjar og Birta Rún. b) Sigríður Hrund, f. 12.1. 1974, maki Baldur Ingvarsson, börn þeirra Kolbeinn Sturla, Starkaður Snorri og Styrmir Snær. c) Einar, f. 19.4. 1978, dóttir hans og Rósu Maríu Sigtryggsdóttur er Emilía Rós.

d) Arndís, f. 2.1. 1982, sambýlismaður Hálfdán Ólafur Garðarsson, börn þeirra Garðar Darri, Arndís Magna og Hrafnkell Þorri. Pétur er kvæntur Svanfríði Ingvadóttur, f. 4.12. 1955, og eru hennar börn Stefanía Tinna E. Warren, og Sindri Steinarsson. Með Önnu Wolfram á Pétur Þórunni, f. 29.10. 1967. Hennar börn eru Anna Hildur, hennar barn Þórunn, Gabríela, Atli Már, Ólöf Rún og Jóhannes Torfi. Pétur á með Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigríði Theódóru, f. 8.8. 1985, Jóhönnu Vigdísi, f. 29.1. 1996. 2) Sigríður Björg, skrifstofustjóri hjá SORPU b.s., f. 21.3. 1952, maki Skúli Jónsson, f. 26.3. 1950. Börn þeirra, Inga Rós, f. 27.2. 1976, maki Pétur Kristjánsson. Börn þeirra, Íris Björg, Anton Ingi og Margrét Rós. Jón Pétur, f. 1.7. 1982, sambýliskona hans er Auður Benediktsdóttir. 3) Þórhalli húsasmíðameistari, f. 12.8. 1961, maki Guðný Tómasdóttir, f. 8.1. 1957. Barn þeirra er Berta Guðrún, f. 8.8. 1985, sambýlismaður Hannes Rúnar Herbertsson, þeirra barn, Þórhalli Leó, fyrir átti Guðný Bryndísi Ásmundsdóttur, f. 1.3. 1974, maki Ragnar Þórðarson, þeirra börn Viktoría Von og Ásþór Sigur. Ásgeir Arnar Ásmundsson, f. 17.4. 1979, sambýliskona hans Íris Ósk Guðmundsdóttir, þeirra börn Árný Alda, Guðný Kristín og Dagný Lilja.

Einar nam húsasmíði undir handleiðslu Guðbjarts Jónssonar húsasmíðameistara. Árið 1949 hlaut hann réttindi húsasmíðameistara og starfaði sem slíkur í fjölmörg ár. Árið 1966 hóf hann verslunarrekstur ásamt eiginkonu sinni Sigríði og ráku þau verslanirnar Björk(Siggubúð), Lúnu og Heimilismarkaðinn en verslunarrekstri þeirra lauk 1982.

Einar starfaði innan bindindishreyfingarinnar (IOGT) og var virkur félagi í reglu Musterisriddara, Heklu, í Reykjavík.

Erna Sæmundsdóttir

F. 4. október 1942, d. 3. maí 1992

Erna Sæmundsdóttir er látin. Hún var sannarlega minn raunbesti og elskulegasti vinur og það skarð sem hún skilur eftir sig í mínu lífi fær enginn og ekkert fyllt. Örlög hennar voru þung, svo þung að alltaf undraðist ég hugprýði hennar og þrjósku. Sál hennar, svo björt og kærleiksrík, bjó í veikum líkama sem varð æ sjúkari dag frá degi.
Minningar margra ára líða hjá sem í skuggsjá. Allir dagarnir, já og jafnvel næturnar, þegar við sátum saman og töluðum um allt. Stundum var orða ekki þörf, þá hugsuðum við saman. Þráður vináttu okkar var sterkur.
Hún var konan sem átti ævinlega hjartarúm og tíma fyrir alla, glaða og hrygga, menn og málleysingja. Og með hugrekki og óbilandi lífsþorsta seiglaðist hún áfram þrátt fyrir skelfileg veikindi, það var fátítt að hún léti í ljós þá kvöl og þann ótta sem hún vissulega átti við að etja.
Við sem þekktum Ernu vel geymum með okkur brosið hennar bjarta, þetta fallega andlit og skær augun, minningu um konu sem hvarf okkur alltof fljótt en mun lifa í hugum okkar sem einstæður og sterkur persónuleiki.
Þessi fáu kveðjuorð eru í raun föl og hljómlaus. Innra með mér finn ég djúpa ástúð og virðingu í hennar garð, sem tæpast verður tjáð með orðum. Ljóðlínur Steins Steinars úr Tímanum og vatninu (17) segja þó hug minn að einhverju leyti.

Á sofinn hvarm þinn
fellur hvít birta
harms míns.
Um hið veglausa haf
læt ég hug minn fljúga
til hvarms þíns.
Svo að hamingja þín
beri hvíta birtu
harms míns.

Ég votta aðstandendum Ernu einlæga samúð mína. Minning hennar mun lifa með okkur.

Erna Sæmundsdóttir var fædd í Reykjavík árið 1942, og uppalin á Sjafnargötu 2, yngst fjögurra barna þeirra Sæmundar Ólafssonar stýrimanns og konu hans Vigdísar Þórðardóttur, stofnenda Kexverksmiðjunnar Frón.

Geirmundur Þorsteinsson

F. 23. apríl 1932, d. 17. október 2011

Geirmundur stendur við garða í fjárhúsi sínu á Sandbrekku yst í Hjaltastaðarþinghá að vori, samanrekinn og stuttur til hnésins, með kerksnisglampa í kvikum augum og bláa kollhúfu. Hann treður í pípuna og horfir yfir fjárhópinn. Samofinn umhverfi sínu eftir áratuga íhygli, eitt með hjartslætti hinnar íslensku sveitar þar sem skiptast á skin og skúrir, sigrar og ósigrar, kliður og kyrrð.

(…)

Keikur á hestbaki klifrandi brött einstigin um hamrana upp í undirlendi Dyrfjalla að eltast við útigangsfé, jafn sauðþrátt og sá er, sem etur við það kappi af harðfylgi til að hýsa ódámana fyrir veturinn. Samt ekki laust við að bóndi sé nokkuð hreykinn af því baldna sauðfé, frjálsum öndum sem láta ekki beisla sig í gangvirki samfélagsins heldur kjósa að lifa í jaðrinum, hvað sem tautar og raular.

(…)

Hrútar eltir uppi í skurði og þeim skellt í skottið á túnbílnum. Káta, tíkin sem brosir til þeirra sem eiga slíkt skilið og er húsbóndans kærasti vinur, hleypur á undan heim og skælir sig hofmóðug við mannskapinn í hlaðinu. Geirmundur læst ekki sjá þegar börnin læða til hennar kexi, enda eru þau elsk að honum svo eftir er tekið. Má vera að hann hafi ekki mikinn áhuga á mannfólki almennt, en hann leggur sig eftir ungviðinu og hvað það hugsar og gerir. Og svo auðvitað pólitíkinni. Allt vænt sem vel er grænt. En þó ekki án röklegrar gagnrýni af bestu sort svo langskólagengnir hafa þar ekki roð við.

(…)

Langir vetrar og gnauðar af fjöllum og hafi; ekkert sjónvarpstækjanna virkar að ráði, enda stopulir geislar svona langt út í ystu sveitir þrátt fyrir staðfastar greiðslur afnotagjalda og því eina ráðið að prjóna kynstrin öll af hnausþykkum lopavettlingum til að hlýja góðu fólki um fingur. Nú eða glugga í Sveitir og jarðir í Múlaþingi.

(…)

Uppáhelling og svörtu kaffinu rennt í þykkt glerglas í eldhúsinu á Sandbrekku, tóbak eða brunnin eldspýta í öðru munnvikinu, – kímni í hinu. Sagnaþulurinn gerist fjarrænn á svip, leggur hendur saman líkt og í bæn og greinir frá tófusporum handan við grafreitinn, máríerlum í skemmunni, hvítri stóruglu með vængjasúg vestan við bæinn eða fálka að hrekkja rjúpukarra suður undan fjárhúsunum. Gestirnir hlusta í andakt uns þeir reika út úr reykmettuðu eldhúsinu saddir og sælir af kaffi og kaupfélagsbakkelsi, tilbúnir að fanga með einhverjum hætti undur þessa umhverfis.

(…)

Bóndi stendur við ána og horfir út eftir, til hafs þar sem sjórinn mætir stórfljótum, aldurhniginn og næstum samlitur móanum ef ekki væri fyrir pípuglóðina, köflóttu skyrtuna og bláu kollhúfuna. Kannski er hann að gá til veðurs í Dyrfjöllum handanheima og skyggnast eftir lagðprúðum fjárstofni til að binda trúss sitt við þeim megin.

Far í friði og þökk fyrir að treysta okkur fyrir sýn þinni á fíngerð blæbrigði náttúru og lands.

Geirmundur Þorsteinsson fæddist á Sandbrekku í Hjaltastaðarþinghá 23.4. 1932. Geirmundur lést eftir stutta sjúkdómslegu á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 17. október 2011.
Foreldrar hans voru Ingibjörg Geirmundsdóttir, f. 26.10. 1899, d. 15.2. 1976 og Þorsteinn Sigfússon, f. 29.9. 1898, d. 25.2. 1986. Systkini Geirmundar: Guðný, f. 25.4. 1926, d. 26.11. 1990; Sigfús, f. 20.6. 1927, d. 26.9. 2001; Jóhanna Sigurbjörg, f. 3.5. 1929; Ragnheiður, f. 23.5. 1931; Hreinn, f. 19.5. 1935, d. 22.3. 1959; Valur, f. 19.5. 1935, d. 20.8. 1967; Hjördís, f. 13.2. 1938; Þorsteinn Þráinn, f. 23.7. 1941.
Foreldrar Geirmundar voru bústólpar í sinni sveit og Þorsteinn lengi hreppstjóri, auk þess að gegna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Geirmundur tók við búi foreldra sinna og var dugandi bóndi á Sandbrekku til margra áratuga, með vænan fjárstofn, nautpening og hesta. Hann brá búi fyrir réttu ári vegna heilsubrests og flutti þá í sambýli aldraðra á Egilsstöðum. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Guðlaug Ásmundsdóttir

F. 15. janúar 1959, d. 19. október 2008

Tregt er nú tungu að hræra þegar mín kæra systir Guðlaug er öll. Lífshlaup hennar var erfitt og kringumstæðurnar oft einkar harðneskjulegar. Margvísleg geðröskun olli því að tilvera hennar fór snemma úr skorðum og eitt leiddi af öðru uns komið var á ystu nöf erfiðra veikinda.
Dætur hennar þrjár voru lífsljósin hennar og á stundum eina haldreipið þegar vonina þraut. Hún var stolt af þeim alla tíð og móðurástin svall henni í brjósti gegnum þykkt og þunnt.
Nú er hún systir mín farin í betri stað og ég bið almættið að blessa för hennar til ljóss og hvíldar. Ég sé hana fyrir mér heilbrigða, fallega og glaða, með spékoppana sína ómótstæðilegu og fiman fót, rétt eins og þegar hún var stelpuskott í ranni foreldra okkar, sem elskuðu hana, en skildu ekki veikindi hennar fremur en svo margir aðrir. Megi hún hvíla í Guðs friði.

Guðlaug Sigmundsdóttir

F. 19. apríl 1895 – d. 9. nóvember 1988

Látin er hún amma mín, Guðlaug Sigmundsdóttir. Margar ólíkar tilfinningar bærast í sál minni við fráfall hennar og svo er eflaust um fleiri. Ég á margar ljúfar minningar um ömmu, bæði úr bernsku og einnig frá þeim tíma er brotakennd unglings- og fullorðinsár tóku við. Ekki ætla ég að tíunda þær minningar hér og læt öðrum eftir að rekja lífssögu ömmu.
Þó langar mig að geta þess sem ég tók hvað best eftir í hennar fari; hún átti til að bera þann innri styrk sem ekki öllum er gefinn. Svo sterk var hún og virtist aldrei láta að sér hvarfla að bugast, hvað sem brimrót lífsins færði henni af erfiðleikum og sorg.
Skömmu áður en hún lést heimsótti ég hana þar sem hún hvíldi á hvítum beð. Er ég hafði setið nokkra stund hjá henni greip hún þéttingsfast um hönd mína og mælti þau orð sem ég á aldrei eftir að gleyma: ,,Steinunn, vertu sterk fyrir mig, fyrir þig og okkur báðar.“ Mér þótti sem hún vildi láta allan sinn styrk streyma til mín. Ef til vill hef ég aldrei fyrr en nú gert mér grein fyrir hversu dýrmæt þessi kona var mér, þolgæði hennar, seigla og áhrifamáttur. Orð hennar munu fylgja mér allt mitt líf og vonandi einnig sá styrkur sem hún vildi miðla til mín.
Guð blessi elsku ömmu mína. Líkaminn var hennar hús en eftir þessi vistaskipti er hún okkur hulin en þó nálæg. Blessuð sé minning hennar um alla tíð.

Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir:
,,Eitt af því sem gefur lífinu gildi eru góðir samferðamenn. Við getum seint fullþakkað almættinu þá einsog skyldi, ekki síst ef þeir eru í fjölskyldunni eða í hópi náinna vina eða samstarfsmanna.
Í dag kveðjum við eina slíka ágætis samferðakonu, Guðlaugu Sigmundsdóttur, sem andaðist á Borgarspítalanum 26. þ.m. eftir stutta en erfiða sjúkdómslegu. Að lokinni langri vegferð þessarar öldnu heiðurskonu getum við sem eftir lifum yljað okkur við margar dýrmætar minningar sem hún skilun eftir sig í hugum okkar, þó tilveran sé öllu tómlegri eftir fráfall hennar.
Guðlaug var fædd 19. apríl 1895, ein af tíu börnum hjónanna Guðrúnar Sigfúsdóttur, f. 5. sept., d. 8. ágúst 1925 og Sigmundar Jónsonar, f. 4. ágúst 1852, d. 18. október 1925, sem bjuggu í Gunnhildargerði í Hróarstungu 1882-1919. Guðlaug var yngst af sex systrum, en þrír bræður voru næstir á eftir henni í aldursröð, en einn eldri bróðir hennar dó í frumbernsku. Þessi stóri mannvænlegi barnahópur ólst upp í foreldrahúsum og urðu þau öll nýtir þjóðfélagsþegnar. Guðlaug er næstsíðasta systkinið sem kveður þennan heim. Eftir lifir Sigfús, yngsti bróðirinn. Hann kveður nú ástfólgna systur eftir langa og samtvinnaða vegferð.
Foreldrar Guðlaugar voru vel metin sæmdarhjón. Að þeim stóðu sterkir austfirskir stofnar. Sigmundi voru falin ýmis trúnaðarstörf sveitar sinnar, því að hann þótti bæði „ráðagóður og ráðasnar“ eins og segir í vísu sem um hann var kveðin. Hann var atorkumaður, kjarkmikill og harðduglegur líkt og faðir hans, Jón Vigfússon sterki, sem bjó í Gunnhildargerði og sögur eru af í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Guðrún var fríðleikskona, vel verki farin, greind, glaðsinna og góðsöm. Hún var af Njarðvíkurætt sem einnig er getið um í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Gunnhildargerðisheimilið var mannmargt, oft milli 15-20 manns í heimili. Auk sinna eigin barna ólu hjónin upp 4 fósturbörn að allmiklu leyti. Þó ekki væri auður í búi á bernskuheimili Guðlaugar þá var það annálað fyrir gestrisni og greiðasemi og gjafmildi Guðrúnar var mörgum fátæklingum kunn. Systkinin voru alin upp við vinnusemi, en aðrir þættir uppeldisins gleymdust ekki. Þeim var innrætt trúrækni og aðrar góðar dyggðir. Á þessum árum var kennsluskylda ekki lögboðin, en Gunnhildargerðishjón vildu mennta börn sín eftir föngum, búa þau undir lífið og auka þroska þeirra og víðsýni. Þau réðu sér heimiliskennara sem þau báru allan kostnað af sjálf og munu börn nágrannanna oft hafa notið góðs af.
Úr þessum frjóa jarðvegi íslenskrar sveitamenningar eins og hann gerðist bestur var Guðlaug komin. Hún bar uppeldinu fagurt vitni alla ævi. Hún hlaut í vöggugjöf marga bestu kosti foreldranna og urðu þeir henni notadrjúgir á lífsleiðinni.
Þegar Guðlaug var 19 ára hleypti hún heimdraganum og fór til Reykjavíkur í nám við hússtjórnarskóla Hólmfríðar Árnadóttur. Stuttu eftir heimkomuna eða 28. október 1917 steig hún sitt gæfu- og örlaga spor er hún giftist Pétri Sigurðssyni, f. 8. jan. 1888 frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá. Hann var búfræðingur frá Hvanneyri og hafði einnig stundað nám í tvö ár við danskan lýðháskóla. Fyrstu búskaparárin bjuggu Guðlaug og Pétur á nokkrum stöðum á Héraði, en fluttu síðar búferlum að Vattarnesi í Fáskrúðsfirði og bjuggu þar góðu búi. Framanaf starfaði Pétur hjá Búnaðarsambandi Austurlands og fékkst eitthvað við barnakennslu á vetrum. Á herðum Guðlaugar hvíldi því meira uppeldi barnanna þeirra átta og annasöm og erfið bústörf bændafólks þessara tíma. En það var ekki að skapi Guðlaugar að vorkenna sér eða víla fyrir sér hlutina, svo í gegnum erfiða tíma komst hún án þess að æðrast enda var frænka mín einhver sú allra duglegasta kona sem ég hefi þekkt.
Börn þeirra hjóna eru í aldursröð: Sigríður hjúkrunarfræðingur, f. 18.8.1918, d. 8.3.1968, maður hennar var Björn Guðfinnsson prófessor, f. 21.6.1905, d. 27.11.1950; Sigrún húsfrú, f. 13.3.1920, d. 19.4.1971, hennar maður var Sigurður Þórðarson endurskoðandi, f. 19.8.1912, d. 12.12.1978; Inga Margrét húsfrú, gift Benedikt Elíassyni Langholt sjómanni, f. 20.3.1920; Ragnhildur húsfrú, f. 6.9.1922, gift Ásmundi Matthíassyni lögregluvarðstjóra, f. 30.7.1916; Einar byggingameistari; f. 2.11.1923, kvæntur Sigríði Karlsdóttur verslunarmanni, f. 24.11.1928; Rós húsfrú, f. 6.6.1925, gift Magnúsi Jóhannessyni rennismið f. 28.11.1922; Eysteinn flugvélstjóri, f. 8.12.1926, d. 13.9.1970, kvæntur Margréti Þorvaldsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 23.9.1928. Bryndís leikkona, f. 22.9.1928, gift Erni Eiríkssyni loftsiglingafræðingi, f. 28.1.1928. Öll hafa börn þeirra hjóna reynst nýtir og góðir menn og er ættboginn út af Guðlaugu og Pétri orðinn stór.
Árið 1933 brugðu þau búi og fluttu til Reykjavíkur, trúlega vegna heilsubrests sem Pétur hafði kennt sér. Segja má að heimili þeirra Guðlaugar og Péturs í Reykjavík hafi verið reist um þjóðbraut þvera. Frændur og vinir að austan sem leið áttu tilReykjavíkur voru aufúsugestir og dvöldu jafnvel hjá þeim um lengri eða skemmri tíma og nutu allskyns fyrirgreiðslu hjá fjölskyldunni einsog ekkert væri sjálfsagðara. Ekki söfnuðu þau jarðneskum auði heldur þeim sem mölur og ryð fá ei grandað.
Guðlaug var á undan sinni samtíð, þar sem hún, sveitakona austan af landi, stofnaði eigið fyrirtæki, prjónastofu, fyrst á heimili sínu, en flutti hana síðar á Tjarnargötu 3. Hún rak prjónastofuna í mörg ár eða meðan starfsgeta hennar leyfði. Ég hygg að margir eldri Reykvíkingar minnist ánægjulegra viðskipta við hana. En ófáar voru prjónaflíkurnar sem hún gaf. Það má segja að hægri hönd hennar hafi sjaldan vitað hvað sú vinstri gerði. Guðlaug fór ekki varhluta af erfiðleikum í lífinu. Í febrúar 1948 brann heimili fjölskyldunnar á Bergstaðastræti 70 ásamt öllum eignum. Samheldni og dugnaður fjölskyldunnar kom þá vel í ljós, því að sama árið rétt fyrir jól flytja þau í eigið hús, Úthlíð 13, sem þau hófu byggingu á eftir brunann. Guðlaug missti mann sinn 24.2.1955 eftir erfiða baráttu við ólæknandi sjúkdóm. Börn hennar þrjú dóu á miðjum aldri með stuttu millibili. En Guðlaug var listakona á fleiri sviðum en í prjónaskap. Hún kunni listina að lifa og taka öllu sem að höndum bar, gleðistundum jafnt sem sorgarstundum í lífinu, með jafnaðargeði og reyndi ávallt að gera gott úr aðstæðum líðandi stundar. Hún sagði eitt sinn við mig þegar hún átti við erfiðleika að stríða að það eina sem hún bæði guð sér til handa væri að beiskja og hatur næði aldrei að festa rætur í sálu sinni. Þessi lífsreynda kona var sannmenntuð í skóla lífsins og stóðst með sóma þau próf sem lögð voru fyrir hana. Guðlaug var bæði skilnings- og kærleiksrík og sóttu því bæði aldnir sem ungir eftir félagsskap hennar, jafnvel eftir að hún var orðin háöldruð. Um kynslóðabil var vart að ræða í samskiptum hennar við yngra fólk. Má segja að hún hafi óbeint verið ættmóðir margra fleiri af yngri kynslóðinni en þeirra sem voru út af henni í beinan legg. Guðlaug var fríð kona og það sópaði að henni hvar sem hún fór. Hún var fróð og las mikið af allskonar bókmenntum, en sneiddi hjá því lesefni sem ofbeldi og aðrar verri hvatir einkenndu. Hún hélt minni sínu vel og oft var leitað til hennar til að fá vitneskju um liðna tíð og birt við hana viðtöl um gamla tímann. Guðlaug var ákaflega ættrækin kona, auk þess að fylgjast vel með öllum sínum afkomendum þá hygg ég að hún hafi fylgst með eða vitað deili á allflestum afkomendum foreldra sinna, sem munu vera hátt á þriðja hundrað. Hún var hag allra þessara ættingja sinna mjög fyrir brjósti og tók þátt í gleði þeirra og sorgum.
Síðustu ár ævi sinnar dvaldist hún á Þjónustumiðstöð aldraðra við Dalbraut. Þar var oft gestkvæmt og þó frænka mín væri farin að heilsu fóru gestir ríkari af hennar fundi, því hún var gefandi í mörgum skilningi.
Guðlaug dó sátt við lífið og tilveruna og kveið ekki umskiptum, enda átti hún góða heimvon. Ég þakka henni af alhug fyrir samleiðina og bið henni blessunar guðs á eilífðarvegu. Öllum aðstandendum votta ég innilega samúð.“

Haukur Ásmundsson

F. 9. september 1949, d. 4. nóvember 2008

Haukur minn. Fallegi góði bróðirinn minn sem nú er dáinn. Hann var alltaf „stóri bróðir“ minn, þótt ég ætti bara einn bróður, og ég dáði hann meira en aðra. Svo fallegur og hnarreistur. Ég bar óttablandna virðingu fyrir honum þegar ég var barn, því hann var mikill töffari og hafði meðfæddan myndugleik. Svo varð ég feimin við hann á unglingsárunum, því þá var hann orðinn lögreglumaður eins og pabbi okkar og hafði ekki ýkja mikla þolinmæði gagnvart böldnum unglingnum mér.
Hann var svo ljónheppinn að finna sætustu og bestu skvísuna í Reykjavík og kvænast henni á Jónsmessunni 1972. Þar var hann gæfumaður, því Ásta hefur reynst honum klettur í tilverunni. Hún og börnin þeirra, Markús og Ragnhildur, og þeirra makar og börn voru lífssólir hans.

Ég fór ekki að kynnast bróður mínum fyrr en ég varð sjálf fullorðin manneskja. Hann var ekki maður sem bar tilfinningar sínar eða hugsanir á torg og það tók drjúgan tíma fyrir okkur að læra hvort á annað.
Smám saman fór ég að skilja bakgrunn hans og drifkraft. Hann var ögn týndur hvað foreldra okkar varðaði; í verunni sonur Ásu, systur Ásmundar pabba okkar, svo hann vissi ekki almennilega hverjum hann tilheyrði. Ég held að það hafi markað líf hans að verulegu leyti.

Þrátt fyrir að vera lögreglumaður alla sína ævi er ég viss um að bróðir minn var alltaf bóndi inn við beinið. Hann elskaði landið sitt, undi sér lengi vel hvergi betur en í sveitinni sinni, Djúpadal, innan um skepnur og gott fólk og var náttúraður fyrir að lesa landslag á augabragði. Hann hélt hesta í mörg ár uns hann lenti í erfiðu slysi á hestbaki. Hann var alltaf að stússa í íþróttum, síðan tók golfið við og hann var kominn í mestu vandræði með að koma öllum verðlaununum fyrir í hillunum heima hjá sér. Hann tók þetta allt með trompi.

Svo greindist hann með krabbamein í ristli og var nær dauða en lífi svo mánuðum skipti. Maðurinn sem var vanur að hafa alla þræði í hendi sér, með mannaforráð og forsvar, var allt í einu veikur og máttlítill í lífi og starfi. Þótt allt stefndi í að sjúkdómurinn legði Hauk að velli innan fárra ára lagði hann sína ýtrustu krafta og þrjósku í baráttuna og hafði um skeið betur. En svo fékk hann alvarlegt hjartaáfall í golfferð á Spáni seint á síðasta ári, var bjargað á elleftu stundu og mátti svo sitja uppi með að vera ekki aðeins með alvarlegt krabbamein, heldur líka banvænan hjartasjúkdóm.

Elsku hjartans stóri sterki bróðirinn minn. Síðustu árin tók hann út gríðarlegan þroska, þurfti að endurmeta öll sín gildi og horfast í augu við sjálfan sig og það að eigin líkami var að verða hans versti óvinur. Hann fór þó í gegnum þetta allt með aðdáunarverðri reisn og reyndi með öllum þeim mætti sem hann bjó yfir að sigrast á aðstæðum.
Ég mun alltaf dá stóra bróður minn og elska og bera fyrir honum takmarkalausa virðingu. Í líf okkar er höggvið skarð sem ekki verður fyllt.

Elsku Ásta mín, Markús, Ragnhildur og ykkar fólk allt, megi almættið vaka yfir ykkur og styrkja í þessari hyldjúpu sorg.

Haukur Ásmundsson fæddist í Reykjavík 9. september 1949. Hann lést á heimili sínu 4. nóvember 2008. Foreldrar hans voru Áslaug Matthíasdóttir frá Patreksfirði, f. 14.9. 1924, d. 16.12. 1997, og Svanur Jónsson frá Höfnum, f. 28.8. 1923, d. 3.8. 2008. Kjörforeldrar Hauks voru Ásmundur Matthíasson frá Patreksfirði, f. 30.7. 1916, d. 21.5. 1994, og Ragnhildur Pétursdóttir, f. 6.9. 1922, í Hjaltastaðarþinghá.
Bræður Hauks og sammæðra eru Pétur Ragnar, f. 2.4. 1962, og Ægir Steinn, f. 25.7. 1964, Sveinþórssynir. Systir Hauks og samfeðra er Hjördís Bára, f. 28.2. 1948. Kjörsystur Hauks eru Guðlaug Ásmundsdóttir, f. 15.1. 1959, d. 19.10. 2008, og Steinunn Ásmundsdóttir, f. 1.3. 1966. Steinunn er gift Þorsteini Inga Steinþórssyni og eru dætur þeirra Freyja og Ragnheiður.
Haukur kvæntist 24. júní 1972 Ástu Huldu Markúsdóttur, f. 19.2. 1949, í Reykjavík. Foreldrar Ástu eru Sigurína F. Friðriksdóttir, f. 22.12. 1922 í Vestmannaeyjum, og Markús Hörður Guðjónsson, f. 29.8. 1923 í Reykjavík, d. 18.3. 1980. Börn þeirra eru Markús Hörður Hauksson, f. 29.11. 1974, og Ragnhildur Hauksdóttir, f. 9.7. 1976. Sonur Hauks og Kristínar S. Brandsdóttur er Brandur Daníel, f. 10.2. 1990. Eiginkona Markúsar er Bríet Ósk Guðrúnardóttir, f. 13.5. 1980, og eiga þau dótturina Sölku Sól, f. 18.5. 2008 og Úlfdísi Ástu, f. 17.9. 2013. Áður átti Bríet Ósk Sigrúnu Hönnu, f. 24.9. 1999. Ragnhildur er gift Óla Rúnari Eyjólfssyni, f. 21.2. 1977, og eru börn þeirra Jasmín Ásta, f. 28.5. 2001, og Eyjólfur Snær, f. 7.10. 2006.
Haukur hóf störf hjá Lögreglunni í Reykjavík eftir próf úr Lögregluskólanum árið 1969, eftir að hafa unnið hjá Ellingsen og verið til sjós. Einnig starfaði hann við virkjunarframkvæmdir í Búrfelli. Hann vann hjá Lögreglustjóraembættinu til dauðadags. Hann ók einnig langferðabifreiðum hjá Vestfjarðaleið á sumrum í um áratug. Haukur fór ungur í sveit í Djúpadal í Djúpafirði, A-Barðastrandarsýslu, hann elskaði sveitina sína og var þar öll sumur eða þangað til hann var orðinn 17 ára, en eftir það fór hann í áratugi í smalamennsku á haustin.
Haukur sinnti margvíslegum trúnaðarstörfum í félagsmálum. Hann starfaði fyrir Kiwanis-hreyfinguna í 10 ár og var kosinn besti forseti Þórssvæðis 1996-1997. Hann gekk í Oddfellow-regluna árið 1997, í stúkuna nr. 20 Baldur og hefur sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum. Haukur var alla tíð mikill íþrótta- og keppnismaður. Hann lék handbolta með keppnisliði lögreglunnar fram undir fertugt og var mikill hesta- og golfmaður. Hann var félagi í Golfklúbbnum Odda og einnig í Golfklúbbi lögreglunnar í Reykjavík.

Hólmfríður Gísladóttir

F. 13.01.1959 – d. 22.11.2017.

Hvernig getur staðið á því að ég var svona viss um að ég myndi alltaf hafa Hólmfríði Gísladóttur í lífi mínu? Að þessi vinkona mín yrði alla tíð einhvers konar föst stærð í tilverunni? Kannski af því að ég var bara til í 12 ár áður en ég kynntist henni og hin árin 39 hefur hún verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu. Órjúfanlegur og mjög stór hluti af því. Alltaf mjög nálæg, jafnvel þegar hún var fjarri. Alltaf tilbúin til að leggja allt frá sér til að rétta hjálparhönd eða hlusta, skæla eða hlæja með mér. Og nú er hún ekki lengur hér, ekki lengur í lífum okkar og það er óvænt og gríðarlegt áfall.

Hólmfríður var þess háttar manneskja sem skilur eftir sig spor í okkur hinum. Stór karakter, greind og athugul, þoldi illa hálfkák, var alltaf hreinlynd í garð fólks og hataðist við allt undirferli. Hún var einn minn magnaðasti vinur og er þó af umtalsverðu þar að taka. Óhrædd við að taka mig upp á eyrunum og segja mér til syndanna hvenær sem henni þótti þörf á að rétta hjá mér kúrsinn öll árin 39, en líka sú manneskja sem deildi af algerlega fölskvalausri einlægni með mér sorgum og gleði. Það var sérlega gott að hlæja með henni því hún gat verið alveg meinfyndin þegar sá gállinn var á henni.

Það er langur vegur að baki. Ég trítlaði rétt komin af unglingsaldri á eftir henni gegnum Þjóðleikhúskjallarann og Óðal ásamt Tobbu, sem var að Hólmfríði undanskilinni með fallegustu augu í heimi, aðeins eldri inn og út af Laugavegi 22 þar sem stundum urðu Ballantínsk upphlaup en var oftar gaman, þegar fram liðu stundir um myndlistar- og tónleikasali, um vegi sambands við Önnu og svo sorgarinnar þegar hún horfði á eftir kærum vinum sínum Tobbu og Kjartani, Róró, Sísí, Hrefnu og fleiri góðum frænkum, föður sínum og nú síðast móður, því mikla sómafólki. Ég fylgdist með henni berjast fyrir lífi sínu sem samkynhneigðri, bæði í fjölskyldu sinni og á vinnustað og alltaf vann hún persónulega sigra á grundvelli mannkosta sinna, hreinskiptni og seiglu. Við ferðuðumst nokkrum sinnum saman um landið og hún var fróð um bæði sögu og náttúru og hafði af henni unun. Við töluðum um bókmenntir, ljóðin og sögurnar sem við þráðum sjálfar að skrifa. Hún sagði mér af foreldrum sínum og bræðrum, mágkonum, frændum og frænkum, vinum, vinnufélögum og stundum var allt þetta fólk eins og viðstatt þó við værum einar á tali í þokunni af grænum Salem. Yfirleitt var Hólmfríður hugrökk, stundum beygð og hissa á þvergirðingshætti samborgara sinna en alveg eins og hún sýndi því fólki virðingu sem hún taldi slíkt eiga skilið, þá krafðist hún líka heiðarleika og sanngirni sjálfri sér til handa og eyddi ekki púðri í þá sem ekki komust undir þann hatt. Hún var lítið fyrir kjaftæði.

Svo kom Kristín Erla Boland okkar til sögunnar og þá var lífsförunauturinn fundinn. Hóffí lét af einlífi sínu og sneri sér heil og óskipt að þeirri vegferð sem átti eftir að skipta hana mestu máli í lífinu. Þó Kristínu hefði áður brugðið fyrir á síðum lífsbókarinnar, sáust þær einn góðan veðurdag á nýjan hátt og rugluðu í kjölfarið reitum og eignuðust svo dugnaðardrenginn sinn fallega og góða, Eldar Hrafn, sem er guðsonur þeirrar er þetta ritar. Hóffí og Kristín voru sérlega flott par, ákveðnar og samhentar, duglegar að vinna með það sem á bjátaði í lífsins ólgusjó, ötulir og elskuríkir foreldrar og vandaðar manneskjur, sem löðuðu að sér gott alvörufólk sem hafði eitthvað til málanna að leggja. Meira að segja hundarnir þeirra Bjartur, Máni og nú síðast Lexus, urðu persónulegir vinir manns og yndælastir allra hunda á jarðarríki.
39 ára samferð og þessi kjarnmikla manneskja og trausti vinur er nú á bak og burt. En alveg eins og menn og málefni nútíðar og fortíðar urðu Hólmfríði lifandi umhugsunar- og frásagnarefni, verður minning hennar kjarnmikil og lifandi og sögur af henni sjálfri munu verða sagðar og bera vitni um hversu djúp spor hún skilur eftir sig í lífum okkar sem syrgjum hana nú. Á einhvern hátt sem við skiljum sem þekktum hana, mun enginn nokkru sinni komast með tærnar þar sem hún hafði hælana.
Elsku Kristín og Eldar, Hrafnkell, Ástþór, vandamenn allir og vinir; megi allar góðar vættir styrkja ykkur og styðja.

Inga Margrét Pétursdóttir

F. 08. 05. 1921, d. 29. 07. 2014

,,Jæja, nú ætlar Inga systir að koma upp og vera svolítið!“ segir mamma mín Ragnhildur með blik í auga og óhamda gleði í röddinni, um leið og hún leggur tólið á gamla gráa snúrusímann inni á gangi. Rís á fætur og byrjar vafningalaust að skipuleggja móttökurnar, matseðilinn, skemmtidagskrána og okkur pabba út og suður í alls konar verkefni… Og allt gengur þetta eftir, en heiðríkastir eru morgnarnir sem þær systur sitja í eldhúsinu á Háaleitisbrautinni og tala út í eitt, hlæja hjartanlega alveg frá tám og upp í hvirfil, brynna ef til vill músum yfir því sem var erfitt og vont, en mest og best ferðast þær á harðaspretti gegnum minningabankann, allt frá öndverðu og framúr.

Svo drífur fólkið að; Dísu og Rós og Einar, Möggu og Þóreyju og alla afleggjara, frændur og frænkur, náskylt og fjarskylt. Hellt upp á meira kaffi, hlaupið í búrið eða frystinn að ná í meira bakkelsi til að traktera mannskapinn með. Húsið bólgnar út af hamingju og hlátrasköllum og faðmlögin eru þétt og tjá væntumþykjuna og djúpan söknuðinn eftir þeirri sem býr handan við hafið; í Ameríku.
Seinna er farið í bíltúr, kannski til Þingvalla, eða bara í Hafnarfjörðinn: ,,Nei sjáðu þarna er komið nýtt hverfi, en heyrðu þetta var ekki þarna þegar ég kom síðast, mikið andsvíti er þetta ljótt,“ eða ,,ja þetta er nú fallegt, sjáum til.“

Sum okkar hafa gegnum tíðina farið til Seattle að heimsækja Ingu frænku, nokkrir oftar en aðrir og eru þá umsetnir forvitnum ættingjum þegar heim er komið, sem þurfa að fá fréttir. Því þó að hún hafi verið fjarverandi í marga áratugi er hún alltaf nákomin, alltaf með, hennar er ævinlega saknað. Stórfjölskyldan nötrar blátt áfram af ánægju þá sjaldan hún kemur ,,upp.“
En nú kemur Inga frænka ekki framar ,,upp“ nema til Guðs síns og hún gaf fyrirmæli um að hún skyldi jarðsett í Ameríku. Hún hvílir í minningu okkar sem elskuðum hana og dáðum þó legstaður hennar sé fjarri.

Hún var þessi rammíslenska kjarnorkukona, hnarreist, klár, orðheppin og fyndin með afbrigðum, þótti vænt um fólk alveg inn að beini og reyndist því sem klettur. Það var mikið í hana varið og hún var sannarlega eitt af magnaðri eintökum Gunnhildargerðisættar og er þó þar af töluverðu að taka.

Vertu kært kvödd og af djúpri virðingu, elskulega móðursystir mín sem ég hitti sjaldan en í hvert skipti mikið og vel. Nú er ein leiðarstjarnan á ættarhvelfingu okkar bliknuð, en við búum að fallegu og góðu fjölskyldunni þinni sem býr vestra. Samúðarkveðjur sendi ég þeim öllum.

Inga Margrét Pétursdóttir fæddist að Litla-Steinsvaði í Hróarstungu 8. maí 1921. Hún lést í Seattle í Bandaríkjunum 29. júlí 2014.
Foreldrar Ingu voru hjónin Guðlaug Sigmundsdóttir, f. 19. apríl 1895, d. 26. október 1988 og Pétur Sigurðsson, f. 8. janúar 1888, d. 24. febrúar 1955. Systkini hennar voru Sigríður, f. 18. ágúst 1918, d. 8. mars 1968, Sigrún, f. 13. mars 1920, d. 19. apríl 1971, Ragnhildur, f. 6. september 1922, d. 24. mars 2012, Einar, f. 2. nóvember 1923, d. 5. október 2012, Rós, f. 6. júní 1925, Bergur Eysteinn, f. 8. desember 1926, d. 13. september 1970 og Bryndís, f. 22. september 1928.
Inga giftist 19. september 1960 Benedikt Ágústi Elíassyni, f. 20. mars 1920, d. 17. desember 1998. Sonur þeirra er Elías, f. 31. mars 1948, hann kvæntist 30. desember 1967 Esther Reykdalsdóttur, f. 25. mars 1948, d. 31. október 1991. Þeirra börn eru Benedikt Ágúst, f. 31. maí 1968, Inga Fanný, f. 17. febrúar 1970 og Elías Reykdal f. 4. mars 1972. Kona Elíasar er Ana Lilia Langholt.
Inga ólst upp í foreldrahúsum, en fór síðar í fóstur að Sleðbrjóti í Jökulsárhlíð til móðursystur sinnar, Bjargar, og Stefáns Sigurðssonar. Þar var einnig um tíma bróðir Ingu, Eysteinn. Inga hugsaði ætíð hlýtt til dvalar sinnar að Sleðbrjóti og fylgdist vel með fréttum af fólkinu þaðan og úr Hlíðinni.
Inga flutti síðar til Reykjavíkur en þangað hafði fjölskyldan flutt. Inga lauk námi í kjólasaumi og varð kjólameistari. Hún flutti síðan á Akranes og bjuggu þau Benedikt þar uns þau fluttu til Seattle árið 1960. Í Seattle vann Inga fyrst við sauma og viðgerðir á fatnaði. Síðar fór hún að vinna sem þerna á Hilton-hótelinu í miðborg Seattle og var þar yfirþerna í mörg ár. Inga lét af störfum á hótelinu árið 1990 og fór að annast tengdadóttur sína og barnabörn í veikindum Estherar.
Heimili Ingu stóð öllum opið sem þangað leituðu og fjölmargir Íslendingar dvöldust þar um lengri eða skemmri tíma. Eins voru barnabörn hennar þar tíðir gestir með sín börn.
Útför Ingu fór fram í Seattle þann 7. ágúst 2014 en minningarathöfn í Kópavogskirkju 14. ágúst 2014.

Ninna Kristbjörg Gestsdóttir

F. 19. október 1932, d. 1. janúar 2005

Rökkur og reykjarslæða, týrir á lampa í horninu og heggurinn úti fyrir glugganum sefur í vetrinum. Sterkur uppáhellingur í gömlum rósabolla og tíminn bærir varla á sér inni í þessari bókfylltu stofu, þar sem öll lífsins gæði eru saman komin órafjarri ys og þys hversdagsins. Kristbjörg, vinkona mín og kennari um lífsins vegu til margra ára, á sínum stað í stólnum við gluggann og segir mér sögur. Sögur um menn og málefni, ýmist vafðar inn í skop og hlátrasköll eða dauðans alvöru. Aldrei leggur hún illt til nokkurs manns, er þó glöggskyggn á það sem menn eiga, gott og bágt. Út um allar þorpagrundir fljúga sögurnar eins og vorfuglar; fóstran hennar hlýja og orðheppna í Múla sem ekkert aumt mátti sjá og viðskipti föðurins hjartahreina og vitra við sveitungana í Aðaldal og blessaða málleysingjana. Karlar og kerlur hér og hvar, á þriðju hæð í blokk eða í hnipri við lontulæki, ýmist í ógöngum og forarvilpum eða þá í hæstu hæðum og himnasölum.

Þegjum saman um stund. Tökum svo til við bókmenntirnar og Kristbjörg hefur yfir ljóð eftir ljóð sinni kyrru og þrungnu rödd. Ferðast milli Snorra Hjartarsonar, Jóhannesar úr Kötlum, Guðmundar Böðvarssonar og Þorsteins Valdimarssonar áreynslulaust og þannig að hittir mann í hjartastað og hvurt orð verður dagljóst. Önnur syrpa tekin um stjórnmál dagsins og pólitískt argaþras og þaðan liggur leiðin ævinlega beint inn í hvað skipti verulegu máli í þessu lífi og í hvað manneskjunni beri að verja tíma sínum til að ná nokkrum þroska og yfirsýn. Ýmist virðist allt á fallanda fæti um veröld víða eða við erum bara nokkuð bjartsýnar fyrir hönd þjóðanna. Í kjölfarið sigla vísast jafnréttismálin fyrr og nú og borinn er nokkur kvíðbogi fyrir framgangi þeirra líkt og kjörum verkalýðsins og öreiganna í sjálfu gósenlandinu. Rauðsokkurnar líta ævinlega við í þeirri umræðu og bæjarpólitík og verkalýðsbarátta fyrri áratuga á Akureyri stingur líka inn nefi. Og þar fram eftir götunum.

Sagnaþulurinn besti, endalaust vildi ég á hlýða. Hún kenndi mér mennsku með dæmisögum, þekkingu sinni og þroska, kenndi mér að aldrei skyldi láta börn, lítilmagna og málleysingja fara óbætt hjá garði og fylgdist með mér og mínu gegnum sorgir og gleði. Bakhjarl minn alltaf og framvörður oft, skarð er fyrir skildi í tilverunni, en þessi góða og mikla manneskja gaf mér vináttu sína og einlæga umhyggju að gjöf og það verður mér ævinlegt veganesti.

Snorri sagði í ljóði sínu Ferð:

En handan við fjöllin og handan við áttirnar og nóttina rís turn ljóssins þar sem tíminn sefur. Inn í frið hans og draum er förinni heitið.“ Veri hún vinkona mín kært kvödd á eilífðarinnar vegi.

Ég votta fjölskyldu Kristbjargar einlæga samúð.

Ninna Kristbjörg Gestsdóttir fæddist í Múla í Aðaldal, 19. október 1932. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum að morgni nýársdags 2005. Kristbjörg var dóttir hjónanna Guðnýjar Árnadóttur, f. 6.3.1904, d. 6.11.1933 og Gests Kristjánssonar, f. 10.11.1906, d. 9.8.1990. Alsystir Kristbjargar var Þóra Friðrika sem er látin og hálfsystkin, börn Gests og Heiðveigar Sörensdóttur, seinni konu hans, f. 6.5.1914, d. 3.3.2002, eru Jón Helgi og Guðný. Uppeldisbróðir Kristbjargar er Stefán Sveinbjörnsson, sonur Friðriku.
Kristbjörg giftist síðasta vetrardag árið 1958 Helga Hallgrímssyni, f. 11.6.1935, syni hjónanna Laufeyjar Ólafsdóttur, f. 31.5.1912, d. 11.8.2003 og Hallgríms Helgasonar, f. 29.8.1909, d. 28.12.1993.
Dóttir Kristbjargar og Þorgríms Jónssonar er Björk, f. 29.5. 1953. Börn Bjarkar eru Árni, Kristjana, Helgi Rúnar og Jón Heiðar. Barn Kristjönu er Signý Eir. Börn Kristbjargar og Helga eru: a) Hallgrímur, f. 12.8.1958. b) Gestur, f. 14.5.1960. Fósturbörn hans eru Árný Þóra og Allan Haywood. c) Heiðveig Agnes, f. 23.10.1970. Börn hennar eru Kristbjörg Mekkín og Friðmar Gísli. Árni og Kristjana voru alin að hluta upp af Kristbjörgu og Helga.
Kristbjörg ólst upp í Múla til tvítugs, gekk í Laugaskóla og var ráðskona á Fljótsdalshéraði 1956-57. Hún flutti með Helga eiginmanni sínum til Þýskalands 1958, þar sem hann var við nám í náttúrufræðum. Haustið 1959 fluttu þau til Akureyrar og bjuggu þar til 1966 er þau settust að á Víkurbakka á Árskógsströnd. Til Akureyrar fluttu þau aftur 1975 og bjuggu þar uns þau settust að á Egilsstöðum árið 1986.
Kristbjörg var húsmóðir og matráðskona og starfaði auk þess tímabundið að kennslu og umönnun sjúkra og fatlaðra. Hún var alla tíð mjög virk í félagsmálum og stjórnmálastarfi. Starfaði í Menningar- og friðarsamtökum kvenna, með sósíalistum og Alþýðubandalaginu á Akureyri og Egilsstöðum, Samtökum herstöðvaandstæðinga, Samtökum um jafnrétti milli landshluta, vann að framboði Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands, að verkalýðs- og jafnréttismálum og Kvennaframboðinu. Alla tíð var hún skjól fyrir róttæklinga, fræðimenn, hugsuði og reykingamenn. Kristbjörg las mikið og var vel heima í bókmenntum, ljóðlist ekki síst, og var hagmælt sjálf. Kvæði Guðmundar Böðvarssonar voru í mestu uppáhaldi hjá henni.

Ragnhildur Pétursdóttir

F. 6. september 1922, d. 24. mars 2012

Um yndisblítt sumar í Þjórsárdal árið 1943 hittust foreldrar mínir í fyrsta sinn. Ásmundur í hópi starfsbræðra í sumarferð lögreglunnar og Ragnhildur með vinkonu sinni. Þessi fallegu ungmenni dönsuðu saman í tvö skipti og svo skildu leiðir. En pabbi gat ekki gleymt yngismeynni Ragnhildi og orti: “Aldrei mun úr minni líða / mynd af stúlku, með lokka síða, / undurfagra og augun blá. / Allt var fasið unaðslegt að sjá. Eins og æskan yndislegust / þessi engill birtist mér, / björt og frjáls og kvenna fegurst, / með fjallailm í hári sér.“
Mamma bjó þá á Bergstaðarstræti 70 með foreldrum sínum. Brátt skaut ungum og prúðmannlegum lögregluþjóni upp í götunni, Guðlaugu ömmu minni til sárrar armæðu því hún vildi ekki sjá pilta í júníformum sniglast í kringum sínar dætur. En eigi má sköpum renna og næsta töfrastund mömmu og pabba varð í Bernhöfsbakarí þarna í grenndinni. Fyrir jól voru þau trúlofuð og gift 1. júlí árið eftir. Þau gengu svo götuna saman ætíð síðan, uns pabbi dó 1994 eftir langvinn veikindi.

Líf þeirra saman var fallegt og umhyggjan mikil. Þau voru heimsborgarar í hjarta sínu og elskuðu fagrar listir af öllu tagi, fylgdust grannt með heiminum umhverfis og ræktu fólkið sitt nær og fjær vel og innilega. Þau sigldu þó síður en svo lygnan sjó og drjúgum hluta þeirrar ókyrrðar ollu m.a. börnin þeirra, hvert á sinn máta. En þeir reikningar eru auðvitað löngu jafnaðir og þegar upp er staðið áttu þau bæði innihaldsríkt líf, gáfu mikið af sér til annarra og skilja eftir sig arfleifð í góðu fólki og minningum.

Við mamma vorum mikið saman eftir að pabbi lést fyrir 18 árum og hún var langdvölum hjá okkur Þorsteini fyrir austan eftir að ég flutti til Egilsstaða 1996. Svo fór að hún flutti til okkar snemma árs 2003 og bjó með okkur vel á þriðja ár. Við nutum öll góðs af því og ekki síst ömmubörnin hennar tvö, Ásmundur Máni og Ragnheiður, sem hún þreyttist ekki á að syngja og leika við. Þegar þarna var komið sögu eirði heilabilunin engu og svo fór að hún innskrifaðist á alzheimersdeild Sjúkrahússins á Seyðisfirði, þar sem hún bjó í sjö ár, til dauðadags. Þar hafði hún bjarta og rúmgóða stofu með sína stásshluti og naut svo takmarkalausrar gæsku og umhyggju starfsfólksins alls að mér verður einfaldlega tregt um tungu þegar ég leita nægjanlega sterkra orða til að lýsa því. Við þekktum orðið hverja gangstéttarhellu á Seyðisfirði á linnulitlum gönguferðum okkar um þann fallega bæ og einatt stóðum við og horfðum til hafs og þögðum saman, eða fengum okkur kaffi og tertubita á Öldunni og nutum mannlífsins. Þau ár voru indæl, en svo hrakaði heilsunni og þá nutum við bara lífsins eftir bestu getu innandyra í staðinn.

Hún mamma mín útskrifaðist úr þessari jarðvist södd lífdaga. Hennar drjúga dagsverki var lokið og hún kvaddi virðulega eins og hennar var alltaf háttur. Hún var bjargvættur minn og birta, kennari minn og kærasti vinur. Þó ég unni henni vel hvíldarinnar sakna ég hennar sárt og mun alltaf gera. Vertu kært kvödd mín ástkæra og fallega móðir.

Ragnhildur Pétursdóttir fæddist 6. september 1922 á Hjaltastað í Hjaltastaðarþinghá, Fljótsdalshéraði. Hún lést á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 24 mars 2012.
Foreldrar Ragnhildar voru Guðlaug Sigmundsdóttir, f. 19.4. 1895 í Gunnhildargerði, Hróarstungu, N.-Múl., d. 26.10. 1988 og Pétur Sigurðsson, f. 8.1. 1888 að Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, S.-Múl., d. 24.2. 1955. Systkini Ragnhildar eru Sigríður, f. 18.8. 1918, d. 8.3. 1968, Sigrún, f. 13.3. 1920, d. 19.4. 1971, Inga Margrét, f. 8.5. 1921, Einar, f. 2.11. 1923, Rós, f. 6.6. 1925, Bergur Eysteinn, f. 8.12. 1926, d. 13.9. 1970 og Bryndís, f. 22.9. 1928.
Ragnhildur giftist 1.7. 1944 Ásmundi Matthíassyni frá Patreksfirði, f. 30.7. 1916 á Vatneyri, d. 21.5. 1994 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðbjörg Steinunn Guðmundsdóttir frá Patreksfirði og Matthías Pétur Guðmundsson frá Tungu í Tálknafirði. Börn Ragnhildar og Ásmundar voru Haukur, f. 9.9. 1949, d. 4.11. 2008, Guðlaug, f. 15.1. 1959, d. 19.10. 2008 og Steinunn, f. 1.3. 1966. Haukur var kvæntur Ástu Huldu Markúsdóttur, f. 19.2. 1949 í Reykjavík. Börn þeirra eru Markús Hörður, f. 29.11. 1974 og Ragnhildur, f. 9.7. 1976. Sambýliskona Markúsar er Bríet Ósk Guðrúnardóttir, f. 13.5. 1980 og eiga þau dótturina Sölku Sól, f. 18.5. 2008. Bríet Ósk á fyrir dótturina Sigrúnu Hönnu, f. 24.9. 1999. Þau búa á Spáni. Ragnhildur er gift Óla Rúnari Eyjólfssyni, f. 21.2. 1977, og eiga þau börnin Jasmín Ástu, f. 28.5. 2001 og Eyjólf Snæ, f. 7.10. 2006. Þau búa í Danmörku. Haukur átti einnig soninn Brand Daníel, f. 10.2. 1990, búsettur í Kópavogi og er móðir hans Kristín S. Brandsdóttir. Börn Guðlaugar eru Kolbrún Dögg Sigmundsdóttir, f. 28.10. 1986, búsett í Reykjanesbæ, Eva Dögg Héðinsdóttir, f. 2.10. 1989, búsett í Borgarnesi og Ástrós Sveina Birgisdóttir, f. 18.11. 1992, búsett í Reykjavík. Kolbrún Dögg á drengina Gabríel Þór, f. 22.6. 2003, Sigmund Þór, f. 30.8. 2005 og Baltasar Óðin, f. 16.9. 2007, alla Sigurmundssyni. Eftirlifandi eiginmaður Guðlaugar er Loftur Sigdórsson. Steinunn var (1999-2019) gift Þorsteini Inga Steinþórssyni á Egilsstöðum, f. 7.12. 1968. Börn þeirra eru Ásmundur Máni, f. 15.8. 2000 og Ragnheiður, f. 25.7. 2002.
Ragnhildur flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni árið 1933 og giftist Ásmundi Matthíassyni, lögregluþjóni og síðar aðalvarðstjóra í Reykjavík, árið 1944. Þau bjuggu lengst af á Háaleitisbraut 71. Ragnhildur var að mestu heimavinnandi, en um níu ára skeið var hún einnig verslunarstjóri. Þau hjónin áttu fagurt og traust heimili þar sem alltaf var gestkvæmt, ferðuðust mikið innanlands og fyrr á árunum einnig erlendis. Þau stunduðu menningarviðburði og ræktu fólk sitt af umhyggju og virðingu. Ragnhildur var í áratugi félagi í Oddfellowreglunni og gegndi þar trúnaðarstörfum, líkt og maður hennar. Hún brá búi og flutti til dóttur sinnar og tengdasonar á Egilsstöðum árið 2003. Árið 2005 vistaðist hún til frambúðar á alzheimersdeild Sjúkrahússins á Seyðisfirði, þar sem hún naut sérstaklega góðrar umönnunar og hlýju til dauðadags.
Útför Ragnhildar var gerð frá Kópavogskirkju 4. apríl 2012.


Rós Pétursdóttir

F. 06.06.1925 – d. 30.05.2017

Aldnir útverðir veraldar minnar falla einn af öðrum. Þeir hafa verið merkisberar stórfjölskyldunnar og mér leiðarhnoða um lífsvegi. Rós Pétursdóttir móðursystir mín, sem andaðist 30. maí sl., var einn þessara útvarða og er nú skarð fyrir skildi.
Mér þótti Rós vera myndugur og stór persónuleiki, en um leið gædd þeim hæfileika að skelfa ekki eða hrella á nokkurn hátt, heldur bauð hún þvert á móti inngöngu í sitt víðfeðma andrými þar sem hreinskiptni og velvild ríktu, auk fulls jarðsambands. Þá var ákaflega gott og heilsubætandi að hlæja með henni og húmorinn gat hvort tveggja verið laufléttur eða sótsvartur og beittur. Maður var eins og nýhreinsaður og lukkulegur eftir að hlæja með henni.

Ræði ég við börnin mín um æðruleysi hef ég tekið Rós sem gott dæmi þar um. Hún var ein af örfáum manneskjum sem ég heyrði aldrei harma hlutinn sinn og má það teljast merki um mikinn innri styrk, því hún átti sitt andstreymi og síst minna en annarra.

Það var gott að þekkja og þykja vænt um Rós frænku og fá hennar hjartanlegu móttökur og einlægan áhuga á högum manns og hugsunum. Hún var eins og fólk á að vera.

Snorri Hjartarson sagði í ljóði sínu Ferð: „En handan við fjöllin og handan við áttirnar og nóttina rís turn ljóssins þar sem tíminn sefur. Inn í frið hans og draum er förinni heitið.“ Veri hún frænka mín kært kvödd á eilífðarinnar vegi.
Ég votta fjölskyldunni einlæga samúð.

Sigurður Ólafsson

F. á Eyrarbakka 20. október 1920, d. 3. mars 2010

Þegar ég var lítil stúlka í ranni foreldra minna, man ég eftir Sigurði Ólafssyni og Málfríði Matthíasdóttur, föðursystur minni, sem gestum sem tekið var með kostum og kynjum á heimilinu. Þau voru lengstum of sjaldséðir gestir enda búsett í Vestmannaeyjum, en við í Reykjavík. Þau fluttu síðar búferlum yfir á fastalandið og þá varð samgangur auðveldari. Málfríður lést árið 2003 og Sigurður flutti sig yfir á Hrafnistu þar sem hann bjó allt til enda.

Ég man glöggt að ég hreifst af Sigurði, það stóð af honum golan hvert sem hann fór, hláturinn, kerksnisblik í augum, ekkert vol og víl, svolítið eins og sjórinn sem hann fór aldrei langt frá. Þegar ég var um tvítugt heimsótti ég Sigurð og Málfríði til Eyja og var í nokkra daga. Það var ein allsherjarhátíð. Málfríður stjanaði við mig og sagði mér merkilegar sögur úr fortíð fjölskyldu okkar með sínum lágstemmda og hógværa hætti.

Sigurður rauk með mig um allar trissur og lánaði mér aukinheldur volvóinn sinn í ökuferðir, nokkuð sem mér þótti alveg sérstakur höfðingsskapur. Ég stóð löngum í fjöru og horfði á þungt brimið velta inn. Ég held að Sigurður hafi verið dálítið ánægður með hversu skotin ég var í sjónum, þó honum þætti ég áreiðanlega óttalegur aukvisi þar utan.

Ég á eina uppáhaldsminningu í pússi mínu, en hún er frá ættarmóti föðurfólks míns á Patreksfirði fyrir rúmum áratug. Eftir langt og strangt föstudagskvöld ættarinnar í gleði og glaumi vöknuðum við Sigurður tvö upp úr sínu hvoru tjaldinu við sólarupprás, helltum upp á kaffi í morgunkyrrðinni með lóunum og spóunum og sprokuðum hitt og annað. Náðum svo í pott og prik og gengum á öll tjöld þegar okkur þótti nóg um svefninn á fólkinu og vöktum upp og sníktum kaffibolla hjá útvöldum. Þetta var ákaflega góð morgunstund og eftirminnileg. Ég man að ég hló alveg oní maga því mér þótti Siggi svo skemmtilegur og hressandi. Eins og sjórinn.

Ég votta Rut, Bjarna og aðstandendum öðrum samúð mína og sendi þeim kærar kveðjur.

Sigurína Friðrikka Friðriksdóttir

F. 22. desember 1922, d. 22.08.2010

Fíngerð kona með bros sem lýsti ekki einasta af andlitinu heldur fasinu öllu, hlátur, glaðlyndi, kærleikur og jákvæð sýn á lífið og samferðamennina. Þannig minnist ég Ínu, sem ég komst raunar seint og um síðir að raun um að hét Sigurína Friðrikka Friðriksdóttir og var ættuð úr Vestmannaeyjum. En svoleiðis skiptir engu máli þegar maður er fimm ára og að farast úr monti yfir því að Haukur bróðir manns hefur fundið sér fallegustu og bestu konu í heimi, hana Ástu, og ætlar að kvænast henni. Ína og Markús Hörður Guðjónsson, foreldrar Ástu, voru afbragðsfólk bæði tvö eins og allt þeirra kyn og umvöfðu mig og foreldra okkar Hauks kærleika og yndislega hressandi glettni. Ekki er örgrannt um að Hauk bróður mínum, blessuð sé minning hans, hafi litið á þau sem foreldra sína og velgjörðarmenn ekki síður en okkar eigin foreldra og er þó á engan hallað.

Ég minnist þess að heimili þeirra Ínu og Markúsar í Heiðargerðinu í Reykjavík var eins og ævintýrahöll, þar sem alltaf var ys og þys, kaffibollar og trakteringar á öllum tímum og í kjallaranum undraveröld marglitra páfagauka sem járnsmiðurinn Markús hafði fundið sig í að koma á legg og selja. Seinna fluttu þau í Fellsmúlann, Markús féll frá langt fyrir aldur fram, sem ég veit að var bróður mínum þung sorg, og eftirleiðis lágu leiðir okkar Ínu mest saman á heimili Ástu og Hauks í Furugerðinu, þar sem mín elskulegu frændsystkin Markús og Ragnhildur slitu barnsskónum í skjóli foreldra sinna.

Ína gaf mér, bókstaflega talað, forvitni um ljóð, sem endist mér enn. Á fermingardaginn færði hún mér áritað ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar og þar með komst ég á bragðið. Við Ásta sátum einmitt saman heima hjá mér á Egilsstöðum tveimur dögum áður en Ína lést og handlékum þessa bók af mestu ástúð og hrifningu.

Það var auðvelt að láta sér þykja vænt um Ínu. Hún var svo gefandi í samskiptum. Kannski af því að hún þekkti líka skuggana og þurfti að kljást við erfiðleika- og veikindakafla í lífi sínu. En það lýsir seiglunni í þessari yndislegu manneskju að hún komst alltaf á fætur aftur og var þá potturinn og pannan í allskyns ferðalögum og mannfögnuði. Ég fékk hana lánaða eina kvöldstund úr húsmæðraorlofsferð í Jökulsárhlíð í fyrrasumar. Þar sem hún sat í stofu minni á Egilsstöðum og vafði að sér börnin mín meðan hún sagði okkur gamansögur úr ferðinni og tók kollsteypur af hlátri, hugsaði ég að svona vildi ég reskjast, full af gleði og ánægju með lífið og tilveruna. Mér þótti ég alveg sérstaklega heiðruð að fá hana í bæinn þessa stund. En hún sagði mér þá að þetta væri nú að verða gott hjá sér.

Svo er sagan öll og tímabært að halda til upprunans, eilífðarinnar. Þangað sem Markús bíður með sængina uppreidda fyrir sína elskuðu. ,,Og geiglausum huga ég held til móts við haustið, sem allra bíður,“ skrifaði Tómas í Fljótinu helga.
Ég þakka Ínu gefandi samfylgd um hartnær fjörtíu ára skeið og votta Ástu, Guðrúnu, Bryndísi, Árna og fjölskyldunni allri samúð mína.

Sigurína Friðrikka Friðriksdóttir fæddist 22. desember 1922. Hún lést 22. ágúst 2010.
Foreldrar hennar voru Sigurína Katrín Brynjólfsdóttir f. 7.5. 1884, d. 26.12. 1922 og Friðrik Jónsson útgerðarmaður f. 7.12. 1868, d. 29.10. 1940, frá Látrum í Vestmannaeyjum.
Ína ólst upp í Görðum í Vestmannaeyjum. Uppeldisforeldrar hennar voru Kristín Ögmundsdóttir f. 1885, d. 1975 og Árni Jónsson formaður f. 1871, d. 1956. Systkini Ínu: Brynjólfur Kristinn stórkaupmaður f. 1911, d. 1984, Guðjón f. 1912, d. 1932, Ármann útgerðarmaður f. 1914, d. 1989, Klara f. 1916, d. 2008, Ólafía f. 1916, d. 1993, Ingibjörg f. 1919, d. 1920.
Uppeldissystkini Ínu voru Sigurjóna Ólafsdóttir f. 1916, d. 1981 og Haukur Johnsen f. 1914, d. 1957.
Sigurína og Markús Hörður Guðjónsson, f. 29.8. 1923, d. 18.3. 1980, plötu- og ketilsmiður, verkstjóri í Landsmiðjunni giftu sig 27.7. 1944. Afkomendur þeirra eru: 1) Árni Friðrik f. 1944, börn: a. Birgit Helena f. 1964, maki Sonne Mikkelsen, börn Flóvin, Elísabet, Páll; b. Katrín Rut f. 1971, maki Jón Gunnar Jóhannsson, börn Sindri Hrafn, Ísak Már, Adam Árni, c. Jóna Valborg f. 1973, maki Vilhjálmur Bergs, börn: Garpur Orri, Viktor Nói, Vera Vigdís; d. Markús Hörður f. 1980, maki Karen Guðmundsdóttir, barn Hrafnhildur; e. Kirstín Dóra f. 1985, maki Helgi Þór Guðmundsson. 2) Ásta Hulda f. 1949, maki Haukur Ásmundsson f. 1949, d. 2008, börn: a. Markús Hörður, maki Bríet Ósk Guðrúnardóttir, börn Salka Sól og Úlfdís Ásta, fósturdóttir Markúsar er Sigrún Hanna; b. Ragnhildur f. 1976, maki Óli Rúnar Eyjólfsson, börn Jasmín Ásta, Eyjólfur Snær. 3) Guðrún Kristín f. 1950, maki Þór Fannar börn: a) Ína Edda, maki Guðjón Guðmundsson, börn Arna, Þór, Helga María; b. Marín, maki Halldór Karl Högnason, barn Högni; c. Valur Fannar, maki Þóra Hlín Þórisdóttir. 4) Birgir f. 1956, d. 1964. 5. Bryndís f. 1956, maki Sigurður Konráðsson, börn a. Birgir Konráð, barn hans er: Konráð Darri; b. Sigríður Björk, c. Bryndís Erla, maki Frosti Guðjónsson.
Ína gekk í Barna- og gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum. Hún vann við að breiða út saltfisk hjá Gunnari Ólafssyni og co. Síðar vann hún á skrifstofunni á Tanganum og í vefnaðarvöruverslun hjá þeim. Árið 1941 fór hún frá Vestmannaeyjum til Ísafjarðar á Húsmæðraskólann Ósk, þetta þótti góð undirstöðumenntun fyrir konur á þessum tíma. Hún fór síðan aftur til Eyja og fór að vinna hjá Einari ríka (Sigurðssyni) á skrifstofu. Hún vann eitt sumar í Sælingsdal á barnaheimili. Árið 1942 vann hún hjá Jóni Sigmundssyni í skartgripaverslun. Ína vann við ræstingar í Vogaskóla og síðar sem klíníkdama hjá nokkrum tannlæknum. Hún vann í 11 ár í Orkustofnun í mötuneytinu, til ársins 1991. Hún starfaði sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og vann meðal annars í verslun á Grensásdeildinni og dreifði bókum til sjúklinga á Landakoti. Ína starfaði með kvenfélagi Grensássóknar frá 1965. Hún var alltaf mjög virk í starfinu. Hún var m.a. ritari félagsins í mörg ár. Hún var einnig í Kvenfélaginu Heimaey, sem eru brottfluttir Vestmannaeyingar. Hún ferðaðist mikið bæði með Rauða krossinum, Orkustofnun og Heimaeyjarkonunum.

Ægir Steinn Sveinþórsson

F. 25.07.1964, d. 17. apríl 2017

Sumt fólk spannar alla ævi manns og svo var um Ægi Stein frænda minn í mínu lífi.
Við systkinabörnin ólumst upp á sama sporbaug, þó ekki í sama húsi heldur deildum við bróður, sem tengdi fjölskyldur okkar sterkum og stundum erfiðum böndum. Við hrærðumst í umhverfi þar sem fólkið var magnað vestfirskum kröftum greindar, dugnaðar og æðruleysis, þó dyntir tilverunnar lékju það iðulega heldur grátt og gat þá hrikt í stoðum.

Þegar ég hugsa um þennan frænda minn, sem ég hafði alla tíð svo miklar mætur á, man ég alltaf fyrst eftir brosinu hans. Hann hafði þetta skínandi og svolítið hrekkjalómslega bros sem náði til augnanna og lýsti upp heilu vistarverurnar, samt alltaf dálítil spurning í því og varkárni líka, eins og hann treysti heiminum ekki fyllilega.
Við vorum bæði fremur baldnir unglingar og hann tók sjö mílna stígvélin fljótlega til kostanna og sigldi um heimsins höf, meðan ég þvældist um útlensk þurrlendi. Útþrá, ókyrrð og visst óþol fyrir kringumstæðunum heima fyrir gerðu okkur bæði að einhverslags útlögum um skeið, þangað til við fundum hvort um sig fjölina okkar sem fullorðnar manneskjur. Þá hafði leiðir skilið fyrir löngu og ég fylgdist með úr fjarlægð hvernig Ægir frændi fann ástina sína, sem öllum bar saman um að væri dýrindismanneskja og þau eignuðust svo tvær efnilegar dætur sem virðast ætla bera mikla mannkosti foreldra sinna áfram út í veröldina.

Engin orð ná yfir hryggð okkar. Góður drengur er fallinn í valinn og minning hans verður skær.
Megi allar góðar vættir vaka yfir og styrkja ykkur sem eftir standið.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –