Smásögur

Á réttri hillu

Guðmundur Krukkan hafði fundist á legsteini og var af ókunnum uppruna og alls ekki hérlendur. Hann átti eigið hús en ég var engu að síður beðin fyrir hann svo hann flutti til mín í meðalstóra glerkrukku með smágötóttu járnloki. Þar gaf ég honum nafn, bjó beð af mosa og færði honum salatblöð sem hann nagaði sig gegnum. Einstöku sinnum fór hann í lengri ferðalög, sem hófust í lófa mínum. Þá var hann fyrst grafkyrr í góða stund, svo komu hornin hægt og varlega fram og svo líkaminn allur. Hann rann af stað eftir heitri húðinni alla leið upp á olnboga og skildi eftir sig silfurslóð. Við undum okkur vel um hríð en seint um haustið seig hann fyrir ætternisstapa og lauk lífi sínu í eigin húsi án þess að kveðja. Hann hefur verið mér minnisstæður, þessi litli ókunni snigill sem snerti húð mína og hjarta.

Um tíma var Guðmundur Krukkan á hillunni í sínu glerhúsi og við hlið hans í miklu stærri krukku hunangsflugudrotting sem hafði vaknað fyrst af öllum í miðju páskahreti og verið færð Náttúrufræðistofnun og ég tók að mér að annast hana fram í hlýindi. Ég gaf henni sykurmola og blómknúppa að sjúga og rósablöð að sofa á. Svo voru þarna tveir bláir búrfuglar á sömu hillu og risakötturinn Guðbrandur úr Svarfaðardal sem ég gætti um tíma fyrir langförula vinkonu mændi á þá langeygur. Já, við vorum þarna öll saman á réttri hillu þetta sumar.

Hákarl

Ég stíg út úr bílnum á hlaðinu við kirkjuna um nónbil. Teygi úr mér eftir langa ökuferðina og horfi út yfir Borgarfjörð eystri lygnan og svalspakan líkt og Bakkagerðisþorpið sem kúrir hér við ysta haf. Það er töfrandi í sumarblíðunni á sinn snaggaralega hátt en á til að vera nöturlegt þegar vetrarveður og sjógangur eru búin að lemja á því þannig að gluggahlerar og varnargarðar mega sín lítils.

Meðan ég virði fyrir mér hina alíslensku timburkirkju sem er heiðarleikinn uppmálaður í látleysi sínu rennir annar bíll í hlaðið en leggur þeim megin á stæðinu sem íbúðarhús standa. Út úr bílnum svippar sér maður við aldur, þrekinn og veðraður en einhvern veginn léttur á sér eins og sumargolan. Hann brosir til mín þvert yfir malarstæðið og kemur í humátt að mér svo ég geng til móts við hann, kann ekki við að látast ekki sjá hann þó ég hafi erindum að gegna við kirkjuna. Hún verður að bíða ögn.

Maðurinn kynnir sig með nafni og þéttu handarbandi og við tökum upp rabb um daginn og veginn. Hann kveðst búa í húsinu því arna á bak við sig og hafi verið að koma frá að kaupa sér hákarl. Fiskar í þeim orðum plastdall upp úr vasa brúna ullarjakkans sem hann klæðist, losar fimlega með gildum, vinnulúnum fingrunum upp plastlokið og otar öskjunni að mér. Býður mér að gjöra svo vel að fá mér, þetta sé hreint öndvegis hákarl, já sá besti í landinu og afbragðsvel verkaður og kæstur. Því miður sé þó dálítil nál í bitunum svo hákarlinn sé kannski ekki eins bragðsterkur og best verði á kosið. Þetta er augljóslega maður sem hefur tímann fyrir sér og vill félagsskap ef þess er nokkur kostur.

Nú er ég í vandræðum. Vegna þess að bíllinn er þrælmerktur dagblaðinu sem ég vinn fyrir sem blaðamaður og ég á mikið undir að eiga góð samskipti við heimafólk get ég ekki verið þekkt fyrir að hafna þessu kostaboði. Að segja eins og er að ég beinlínis hati hákarl og muni sjálfsagt detta niður dauð ef ég reyni að smakka á þessum skíthvítu, fingurþykku bitum sem mara ókræsilegir í boxinu. Ég get ekki annað en þegið bitann, heiður minn og blaðsins er í húfi. Brosi þess vegna mínu blíðasta og segi að auðvitað jafnist ekkert á við almennilegan hákarl nema ef vera skyldi brennivínið sem helst þurfi með honum og næli mér með framboðnum tannstöngli í bita. Legg hann á tunguna og bý mig undir að æla yfir manninn. Lyktin er af ammóníaki og áferðin í munninum eins og hvelja, sleip og seig. Mér bjargar að bitinn er freðinn og ég get kyngt honum sæmilega heilum án þess að hann skilji eftir sig mikinn viðbjóð í munni mínum.
Eins og á hinu árlega þorrablóti líður mér óttalega kjánalega yfir að geta ekki borðað hákarl svo sómi sé að, ekki síst vegna þess að forfeðurnir lifðu með hákarlsáti af alls kyns harðindi. Hákarlsáts formæðra mun þó að engu getið í sögu landsins og ég feta í fótspor þeirra hvað þetta varðar.

Borgfirðingurinn, sem sannarlega er enginn lognhattur, otar aftur að mér öskjunni en nú er ég búin að standa mína plikt og virða hans kúltúr. Ég afþakka pent og spyr um gæftir til að beina athygli mannsins eitthvað annað. Hann gefur svo sem ekkert út á þær, veiðin hafi verið dræm og smábátasjómenn lepji dauðann úr skel. Hann býður mér enn bita, ég færist undan og ber við annríki, nú verði ég að drífa mig. Ég slepp þó ekki því nú þarf að sýna mér refinn undir húsveggnum, lokaðan inni í vírnetsbúri svo fólk geti skoðað hann í návígi. Honum verður kannski sleppt í haust, nú eða lógað, það fer eftir duttlungum fangavarðarins. Þangað til bíður rebbi örlaga sinna þarna í búrinu og börn góna á og pota í hann með löngum grasstráum sumarlangt.
Þegar ég hef upplýst hverrar ættar ég sé og hvað ég ætli að sýsla í þorpinu kveðjumst við og ég geng til kirkju, fjöðrum fengin að hafa komist með óskaddað mannorð frá hákarlsmálinu.

Kirkjan er yndisleg, gamaldags og í henni er kalt og góður ilmur af timbri, fólki og bænum. Ég fikra mig upp brattan fjalastigann á kirkjuloftið og set mig þar niður á trébekk. Dreg djúpt andann og tek inn helgi og kyrrð sem aðeins þerriflugur suðandi á gluggunum sólarmegin rjúfa. Altaristaflan, erindi mitt í þetta guðshús, blasir við mér á veggnum ofan við altarið; altaristaflan sem hinn valinkunni og ástsæli listmálari Jóhannes Kjarval málaði árið 1914 að beiðni kvenfélagsins á staðnum. Slíkt var auðsótt mál þar sem hann var uppalinn á Borgarfirði og ævinlega kallaður Jói í Geitavík af heimafólki.
Kjarval kaus að gera fjallræðu Jesú Krists, einhverja frægustu ræðu heimsins, að yrkisefni og staðsetja hana í heimasveit sinni. Málaði Krist standandi efst á klettaborginni Álfaborg þar sem sjálf álfadrottning Íslands ku búa, Dyrfjöllin glæstu í baksýn eins og opna gátt yfir í eilífðarríkið og íbúa Borgarfjarðar og nærsveita sveipaða bláum og rauðum kyrtlum við fóskör meistarans að hlýða á boðskapinn í morgunsólinni.

Ég hef lengi ætlað mér að grandskoða og skrifa um þetta merkilega málverk sem hefur verið umtalað frá upphafi. Meðal annars gekk lengi sú flökkusaga að kirkjan hefði litið töfluna illu auga þar sem ekki þótti boðlegt að borgfirskur almúgi þekktist á myndverki af þessu tagi, hvað þá að Kristur sjálfur stæði í venjulegri íslenskri sveit og þar ofan í kaupið í salarkynnum heiðinnar álfadrottningar. Þá var ekki sama Jón og Séra Jón og er ekki enn á okkar dögum. Verður sjálfsagt aldrei.

Nú stend ég upp, fikra mig niður stigann og geng inn eftir að altaristöflunni til að skoða hana nákvæmlega. Hún er einkennilega falleg og afskaplega heiðrík eins og kirkjan sem geymir hana. Aldrei fór svo að austfirskt sveitafólk gæti ekki verið í beinu sambandi við ljós heimsins hvað sem ergelsi hinna innvígðu kirkjunnar manna leið. Hvað er þó meira viðeigandi en að gera heimafólkið að sjálfum efnivið og jafnvel rekavið kærleikans?
Biblían segir að í fjallræðunni hafi Kristur kennt að ,,Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ og fleiri spekingar, uppreisnar- og andans menn hafa fyrr og síðar boðað sömu kenningu með misjöfnum árangri. Kristnin vill þó ævinlega eigna sér heiðurinn af henni eins og öllum fjandanum öðrum þó hliðstæður finnist meira og minna í öllum trúarbrögðum og allt endi í sama guði.

Ég sest á fremsta bekkinn til hægri við predikunarstólinn og hugleiði gleðilegan og að mér finnst alveg eðlilegan jöfnuð Krists og Borgfirðinga. Sem íslensk, hvít, gagnkynhneigð manneskja frá ríku landi á norðurhveli jarðar á 21. öldinni hef ég ekki fundið mikinn ójöfnuð á eigin skinni, nema þann sem felst í að vera kona í karlægri tilveru og á því hef ég rótgróna óbeit. Þó á ég atvik í minni mínu sem kenndi mér í einni svipan að líta alla menn jafna.
Þetta átti sér stað við Signubakka í París þegar ég var á sautjánda árinu og hafði lent á tali við glæsilegan ungan mann frá Malavi sem stundaði nám í kvikmyndagerð við háskóla í borginni. Við ákváðum að setjast inn um miðaftansleytið og fá okkur kaffi. Ungi maðurinn gaf nærstöddum þjóni merki, kurteis í bragði og vildi panta. Þjónninn, hvítur karl á miðjum aldri á svörtum kjóljakka, lést ekki sjá okkur. Eftir mikið en árangurslaust pat og bendingar gaf ég loks merki til þjónsins og það var eins og við manninn mælt, hann kom að borðinu og tók niður pöntunina frá mér. Þóttist þó ekki skilja hvað sessunautur minn pantaði uns ég endurtók það og fór við svo búið. Afgreiddi svo veitingarnar á borðið til okkar heldur snúðugt. Eftir kaffidrykkjuna og ánægjulegt spjall vildi ungi maðurinn gera upp og fór að afgreiðsluborðinu. Enginn vildi taka peningana hans og lyktaði heimsókninni á þetta veitingahús við Signu þannig að ég borgaði reikninginn og var auðsótt mál.
Þarna var ágætum manni sýnd purkunarlaus andúð og vanvirðing, væntanlega einungis vegna þess að hann var svartur en ekki hvítur. Þetta varð mér geysileg lexía og ég hef oft velt vöngum yfir þessu síðan.

Um tíma hélt ég að árangur væri að nást í auknu siðviti og að þjóðir heims myndu fagna fjölbreytileika mannlífsflórunnar fremur en að hræðast hann. Ég held að þvert á móti fari eðlilegum mannréttindum um víða veröld hrakandi, ekki síst vegna ótta og sérhagsmunagæslu. Eins og í altaristöflumálum þeirra Borgfirðinga og staðsetningu Jesú á Álfaborginni er á þjóðavísu ekki sama hver er þegar kemur að litarhætti, kyni, uppruna, þjóðfélagsstöðu, kynhneigð, heilbrigði, atvinnu, trú, stjórnmálaskoðun og þar fram eftir götunum. Ójöfnuður nær nýjum hæðum og of fáir taka mark á hinum mögnuðu orðum fjallræðunnar um jöfnuð og náungakærleika.

Þá dettur mér í hug þarna í Bakkagerðiskirkjunni önnur altaristafla sem líka olli úlfúð en það var mynd Ófeigs Jónssonar bónda á Heiðarbæ í Þingvallasveit af síðustu kvöldmáltíð Jesú áður en hann var hengdur upp á krosstré fyrir að hafa skoðanir. Hana smíðaði bóndinn og málaði með heimagerðum litum á fjórða áratug nítjándu aldar og gaf kirkju sinni. Sem er ekki endilega í frásögur færandi nema af því að hann setti hangikjötslæri á borð fyrir hinn heilaga og lærisveinana og hefur þótt góðmeti. Einhverjum sveitungum Ófeigs þótti síðar af og frá að hægt væri að bera slíka fæðu fyrir sjálfan Krist, seldu töfluna ferðalangi á tíkall og fengu sér aðra danska og meira viðeigandi fyrir kristindóminn. Altaristafla Ófeigs, sem er undurfalleg í einfaldleika sínum, komst svo aftur fyrir eitthvað kraftaverk í Þingvallakirkju og hangir þar við hlið hinnar dönsku en skör lægra og til hliðar við altarið.
Kjarval hefði kannski þótt við hæfi að setja hákarl á kvöldverðarbakkann í stað hangikjöts og raðað Þingvellingum til borðs með Jesú, hver veit. Eins og mannssonurinn sagði og raunar sonur minn einnig þá er enginn betri en annar, en ekki verri heldur og þetta vissu bæði Kjarval og Ófeigur þó almennt skorti töluvert upp á þann skilning meðal mannkyns.

Þegar ég geng fram marrandi kirkjugólfið og er byrjuð að setja sögu altaristöflunnar saman í grein í höfðinu opnast fremri hurðin. Asískur ferðamaður stingur gljásvörtum kollinum inn fyrir og skimar varfærnislega um þessi vé mannjöfnuðar og náungakærleika. Við kinkum kolli og brosum þegar við mætumst í fordyrinu.

Ærslafulli páfagaukurinn

Fyrsta birta sagan 🙂

Pippin

– kötturinn sem hvarf

Lóuþræll

Ég hef elt lóur alla mína ævi. Einu sinni elti ég fallega unga lóu í Hrísey í margar klukkustundir. Talaði við hana á fuglamáli, reyndi að líkja eftir hljóðum hennar, hoppaði milli þúfna eins og hún. Við fórum vítt og breitt um eyna þennan dag og hún lét sig hafa það að ég elti hana. Hefur sjálfsagt þótt ég furðufugl sem vert væri að gaumgæfa. Eða óvenjuleg afþreying í straumi tímans. Ég var margs vísari um lóur eftir þennan dag.

Ég sat fyrir löngu síðan við hlið konu í kennslustund og leiddist fjarskalega mikið. Tók til við að horfa út um glugga og einblíndi út í innrammað vorið, sem var þá í einni hendingu brotið upp af fjórum lóum sem sáu matarvon í grasflákanum utan gluggans. Hnippti í lagskonu mína og benti henni á blessaða vorboðana að háma í sig væna maðka. ,,Jah, líta lóur virkilega svona út,“ sagði hún dræmt og lýsti því yfir að hún hefði hvorki fyrr né síðar haft áhuga á lóum eða öðrum fyglum af nokkurri tegund. Þetta varð mér töluvert áfall, því að ég hélt sannast sagna að ekki væri hægt að vera Íslendingur, hvorki ungur né gamall, án þess að vita gjörla hvernig lóur líta út. Svona er maður vitlaus. Upp úr þessu fór mig að gruna að ég hefði einhverja sérkennilega og jafnvel vafasama lóuáráttu.

Svo var ég eitt sinn að ganga upp á Egilsstaðakollinn snemmvors í blíðu veðri eftir langvarandi hret. Þegar örfáir metrar voru eftir upp á blákollinn heyrði ég þyt, eða öllu heldur djúpan súg og í sama mund flugu svo sem eins og hundrað lóur í þéttum sverm yfir höfuð mitt og einhentu sér niður á túnbleðil við blágrænt Lagarfljótið. Vindurinn undan vængjum þeirra feyktist í andlit mitt og ég fann af þeim nýstárlega lykt sem einkenndist af mold og heitu, blautu fiðri. Á þessu andartaki gekk mitt vor í garð og ég var djúpt snortin.

Það var um nótt í Þingvallasveit að ég sá lítinn fugl hnipra sig saman á miðjum veginum. Hann stóð þarna stjarfur á miðlínunni, upplýstur af flóðljósum bifreiðar minnar og þóttist vera dauður eins og fugla er oft háttur við slíkar aðstæður. Ég sté út og nálgaðist hann varfærnislega. Þetta reyndist þá vera lóuungi, svo agnarlítill að hann hvarf næstum í greip mína þegar ég tók hann ofurvarlega upp. Hann skeit í lófann á mér og hjarta hans barðist svo ótt að ég hélt það myndi springa af áreynslu. Nú hefði ég átt að setja ungakrílið út fyrir veg og leggja að honum dálítinn mosa til hlýinda uns hann jafnaði sig. En nei, ég ákvað samstundist að gerast hinn mikli bjargvættur málleysingja og tók ungann með mér heim. Lagði hann i litla körfu með mosa og grasi og setti hjá honum vatnsskál og brauðmola. Vaktaði krílið svo það sem eftir lifði nætur og hafði þungar áhyggjur, því hann virtist trauðla ætla að jafna sig. Hann dó í dagrenningu og ég hneigist til að halda að ég hafi drepið hann úr umhyggjusemi.

Ein af mínum mestu hamingjustundum var þegar ég fann fyrsta lóuhreiðrið. Ungarnir voru nýskriðnir úr eggjum og voru óttalega pasturslitlir. Vantaði samt ekki ákefðina í ætið. Lífsviljinn fer ekki eftir stærð. Það var sérkennilegt og fagurt að horfa á fiður og fjaðrir í einni allsherjar ringulreið, fíngerðir litirnir farnir að láta á sér kræla og ungarnir allir úfnir og væskilslegir. Og áttu eftir að axla þá hrikaþungu ábyrgð að verða glæstir vorboðar heillar þjóðar, klæðast fagurfiðraðri kápu sinni og komast í hádegisfréttirnar að ári. Greyin litlu. Það er ekki lítil ábyrgð að fæðast til svo göfugs hlutverks. Skyldi þetta vera einhverslags vorboðaduld sem fær mig til að leggja lag mitt við lóur?

Enn skima ég um eftir lóum og legg eyru við hljóð þeirra. Enn tekur hjarta mitt aukaslag af geðshræringu og fögnuði þegar fyrstu lóurnar koma til landsins að vori. Enn fyllist ég óskilgreindri hamingju og værð þegar ég geng móana og heyri lóusöng vefjast í þá íslensku, einstöku sumarsinfóníu sem ekkert, nei ekki neitt á þessari jörð okkar, fær jafnast á við.

Lóur

Heiðlóur hópa sig um haust
í hraunhella að hvíla þar um langan vetur.
Með lauf í nefi leita þær sér griða
og sofa þungt er kaldir vindar næða.

Raskaðu ekki ró þeirra á hraunsvæflum,
þá rofnar líf og dafnar ekki framar.
Við vetrarlok bærast vængir glóðfiðraðir
og vorboðar bera okkur ljúfa tíð.

Birt í ritinu Á sprekamó, tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum. Útg. 2005.

Draumar

Draumur 1992
Ég stend ein á heiðinni. Hauströkkrið vefur sig um frostkaldan svörðinn, hann ilmar af horfnum sumardögum og aðvífandi vetri.
Ein. Bíð eftir einhverju.
Skyggnist um, sé aðeins tungl, stjörnur háloftanna og dauft frostglit á lyngbreiðu. Dreg djúpt andann, róleg.
Heyri fjarlægan hófadyn.
Hófadynurinn berst úr öllum áttum, færist smám saman nær og nær.
Í mánaljósinu sé ég útlínur manns og hests og þegar ég lít víðar greini ég fimm hesta, fimm menn. Þeir koma nær. Staðnæmast nokkra metra frá mér og slá um mig hring. Hestarnir ferðlúnir, sveittir og krafsa óþolnir í jörðina. Úr vitum þeirra standa gufustrókar.
Ég sé ekki andlit álútra mannanna á baki hestum sínum en þeir eru íklæddir þykkum skinnklæðum, líkt og þeir séu komnir langt að úr veðrahrjóstri.
Kyrrð. Ég doka.
Að nokkrum tíma liðnum líta mennirnir loks upp og ég greini andlitin. Sný mér hægt í hring og kenni þá með nöfnum, upphátt: Grímur Thomsen, Jónas Hallgrímsson, Páll Ólafsson, Matthías Jochumsson og Benedikt Gröndal. Fimm skáld.
Hví vitjið þið mín?
Skáldin horfa á mig drjúga stund án orða eða gjörða, heimurinn stendur kyrr og augnablikið hverfist í kynngi þagnarinnar.
Jónas kinkar kolli til samferðarmanna sinna, þeir snúa hægt frá mér og ríða burt út í heiðina, hver í sína átt.

Draumur 1993
Ég sef vært þegar þú sest á rúmstokkinn, ýtir blíðlega við mér og biður mig að vakna því þú sért í vandræðum og þurfir hjálp. Ég opna augun og verð steinhissa þegar ég sé hver þú ert. Rís upp við dogg og nudda stýrurnar úr augunum. Ósköp ertu annars veiklulegur og þreyttur. Og ég sem hélt að þú værir löngu dáinn! En jæja, og hvað get ég nú gert? Þú segist hafa týnt ljóði. Jahá, ljóði já. Og hvar heldurðu að þú hafir týnt því? Þú veist það ekki, en heldur að það sé í bók einhvers staðar. Ég klæði mig, bið þig að doka við og held af stað í leit að ljóðinu þínu.
Ég heimsæki fjölmarga vini mína og fæ að fara í bókaskápana hjá þeim, fletti þar öllum bókum sem ég finn eftir þig, en ljóðið virðist ekki vera í neinni þeirra. Fer sömu erinda í bókasöfn, án árangurs, leita hófanna hjá mönnum sem ég veit að dá ljóðin þín og lúra á öllum þínum bókum og finn alls ekki þetta einasta ljóð sem þú hefur týnt.
Ég kem til baka, þreytt og vonsvikin og úrræðalaus með öllu. Fleygi mér á stól og segi þér að þrátt fyrir mikla leit hafi mér ekki tekist að finna ljóðið.
Og þó, bíddu nú hægur segi ég, leyfðu mér rétt sem snöggvast að kíkja í minn eigin bókaskáp. Ég á þar nokkrar bækur eftir þig. Fer fram, horfi í hillurnar og dreg út bók. Fletti síðunum – og þarna er það, ljóðið, og ég fer alls hugar fegin með bókina inn og rétti þér.
Þú brosir fjarrænt, tekur um axlir mínar og segir mér að þú hafir vitað þetta allan tímann. Undarlegt, segi ég, hvers vegna baðstu mig þá að leita ljóðsins? Vegna þess, svarar þú, að nú áttu að hætta að sækja vatnið yfir lækinn. Og þú ferð.
Eftir stend ég á miðju gólfi og hugleiði það sem hann vildi kenna mér, þessi óvænti gestur minn, Steinn Steinarr.

Draumur haust 1994
Ég svíf í gráma og sé aðeins eins og þykka þoku. Veit ekki á hverju ég á von. Þá birtist mér vera, í mannslíki, en þó á einhvern hátt öll slétt og einkennalaus, í mismunandi gráum tónum og andlit er mjög óskýrt og án nokkurra sérstakra einkenna. Klædd í beinsniðinn kyrtil. Frá verunni stafar ekki ógn en ég finn að hún á við mig erindi. Án orða hugsar hún á einhvern hátt til mín skilaboð um að ég þurfi að leyfa föður mínum að fara. Ef ég næri sorg mína eftir honum svo ákaflega sem raun ber vitni haldi ég honum föstum og hann komist ekki þá ferð sem hann nauðsynlega þurfi að fara. Veran biður mig einfaldlega um að sleppa og ég hugsa svar til hennar á þá leið að ég skilji hvað hún meinar og muni leitast við að verða við bón hennar.

Draumur 1995
Ég liðast um grængolandi sjóinn og mæti hæglátum sæhestum og gáskafullum smáhvelum.
Syfjulegar lúður synda við sandbotninn og þær hafa ljótt augnaráð.
Ég veit ekki af hverju ég er í þessari rökkvuðu, seigfljótandi veröld. Síðast þegar ég vissi var ég miðaldra náttúrufræðingur með báða fætur fasta á jörðinni. Núna er ég miðaldra óljós fisktegund með sterklegan bakugga og sveigjanlegan sporð og veit ekki hvort mér ber að halda mig við botninn eða leita yfirborðsins. Það er reyndar ekki ný spurning ef grannt er skoðað.
Ég óttast að hitta hér hákarla, þeir skelfa mig óstjórnlega. Kannski er upp runnið mitt skapadægur og ég verð að kljást við alla hákarlana sem ég hef flúið kerfisbundið allt mitt líf. Ég rata ekki um þessa veröld og get því hvorki flúið né farið eitt eða neitt. Ég er bara hér á hægu sundi og æfi mig í að nota tálknin mín skrítnu til að fá nóg loft í sundmagann. Það er kalt hérna. Var ég búinn að segja ykkur að ég er með hreistur? Meira að segja skellótt. Og mér gengur nú orðið ágætlega að halda jafnvægi; áðan synti ég mest á hvolfi og það var óþægilegt. Enda er ég lítið fyrir að sjá í tvær áttir í einu og kann ómögulega að vinna úr svo miklum upplýsingum.
Ég heyri ýmis nýstárleg hljóð hérna, en þau koma öll langt að og eru vond fyrir eyrun. Ég er dálítið hræddur, eins og alltaf í nýju umhverfi. Tel víst að ég verði fyrir aðkasti.
Ah, þarna er skíma framundan. Best ég reyni að sporðakastast þangað og vita hvort þetta er ekki gat yfir í mína eiginlegu veröld. Þetta er að verða dálítið þreytandi.
Nú- skíman kemur í áttina til mín. Hm? Það er einhver uggur í mér, vind mér samt í áttina. Æ, nú er ég farinn að sogast hratt í áttina að þessu. Og núna, núna sé ég, ég sé hvað þetta er! Æ drottinn minn dýri, hvað verður nú um mig. Ég horfist í augu við þetta stóra, ógnvekjandi, hræðilega… Hvað viltu mér? Ekki stara svona á mig! – auga…
Ég sogast inn í Hafsaugað.

Draumur 2005
Lítil verslun í dagsbirtu. Mannlaus. Allt troðið af matvöru í rekkum. Ég er ungur, stór og stæltur maður. Tígrisdýr í veiðihug kemur allt í einu inn. Haglabyssa í hendi minni. Dýrið eltir mig. Ég skýt á það, legg til þess með hnífi, það nær að særa mig. Brjálæðislegur eltingaleikur, ótti, örvænting. Þó baráttuvilji. Dýrið er mjög grimmt og þolið.
Tekst að hlaða upp fyrirstöðu úr drasli, króa dýrið af inni í búðinni. Við horfumst í augu, vitum að það getur stokkið yfir. Tígrisdýrið er löðrandi í blóði og það hefur minnkað aðeins. Feldurinn er rauðbrúnn og gljáandi af blóðinu og augu þess eru blóðhlaupin.
Ég er að örmagnast. Flý í ofboði út á götu. Er í miðborg Amsterdam, við Leidsestraat, húsin eru kunnugleg, löng og mjó. Það er kvöld, fólk á ferli. Hleyp brjálæðislega til hægri eftir götunni, sé veitingastað opinn og fólk inni. Ryðst þangað inn og sé stiga úr brúnum bambus, mjóan og háan, hleyp upp. Annar stigi, hleyp upp, annar, annar, annar… Kem upp á þak. Þar er brúðkaupsveisla að byrja og margt fólk. Eldri hjón að skoða stóra kassa, lága, með allskyns fiskfangi og fljótandi slori og ég kem með byssuna og hnífinn og veina að morðótt tígrisdýr sé á leiðinni og það verði að fá að éta þetta – það róist þá kannski.
Mér líður hræðilega. Er særður, viti mínu fjær af ótta, en líka á einhvern máta gagntekinn hryggð.
Veit að dýrið er að koma, heyri það á veinum fólks innan úr húsinu. Og það kemur, brjálað, sturlað, sýnir vígtennurnar, en er orðið miklu minna, vantar á útlimi, eyrun skotin af því, feldurinn löðrandi, augun hulin blóði. Það hendist til mín. Snarstoppar, hnusar í átt að fiskinum. Leggst niður. Kyrrt og hreyfingarlaust. Ég nálgast dýrið. Tek það upp og byrja að vagga því í fanginu, örvinglaður. Hryggur. Ólýsanlega hryggur yfir því sem ég hef gert því. Það er svo lítið, sært, en nú leitar það ásjár minnar og vill vera í faðmi mínum og kumrar, helsært. Ótti minn er horfinn en ég er í ofboðslegu uppnámi. Draumurinn endar.

Draumur mars 2010
Ég og maðurinn minn stöndum saman og risastór farþegaflugvél stingst á nefið skammt frá okkur. Ég upplifi dauða minn; slysið, og svo ,,ekkert.“

Draumur 1. október 2010
Niður af mér ganga dökkrósrauð ,,hrogn“ – samfastir klasar eggja sem hvert um sig er um hálfur cm í þvermál. Ekki sérstakur aðdragandi en tilfinningin var jafnvægi en væg undrun. Líklega tákn um lok míns frjóa skeiðs.

Draumur 20. október 2010
Ég heimsæki Helga Hallgrímsson vin minn því að ég veit að hann ætlar í göngu upp á jökla og vil einhverra hluta vegna vita nákvæmlega hvert hann hyggst ganga og hvenær koma til baka. Upplegg göngunnar er rannsókn hans vegna virkjunaráforma.
Sé þessu næst Helga, ásamt manninum mínum, fara fram af árbakka út á þunn ísskæni í jökulá og stikla þau háskalega yfir á hinn bakkann. Þeir komast báðir yfir heilir á húfi en samt var þetta mjög glæfralegt. Umhverfið er Jökuldalurinn, mun mikilúðlegri en hann í raun er, með ógnarfossum, og þeir eru brennisteinsgulir í draumnum. Helgi Hall var á ilskóm, sem mér þótti óheppilegt við þessar kringumstæður.
Mig hefur oft dreymt þennan stað og stundum klifið upp þennan foss í klakaböndum. Það er alltaf mjög ógnvekjandi.

Draumur 19. desember 2010
Nálægt Ásbyrgi að sumarlagi verður flóð og fólk lendir í miklum vandræðum. Ég er ungur maður einn á ferð á svæðinu og frétti af ungri stúlku, táningi, sem flóðið hafði hrifið með sér og er nú illa til reika á sandeyri langt úti í Jökulsá á Fjöllum. Miklir áraurar og leir eru áður en komið er að sjálfri ánni. Ég hleyp og hleyp og hleyp, staðráðinn í að bjarga henni. Hef gríðarmikla þörf fyrir að bjarga þessu barni, en vakna áður en það tekst.

Draumur annan páskadag 25. apríl 2011
Ofboðslega há íbúðarblokk, 40 hæðir? Skafheiður himinn og skörp sól.
Við fjölskyldan búum á 4. hæð. Hita- og loftræstikerfi er knúið kjarnorku. Það bilar og við þurfum í hasti að fara í lyftunni á ógnarhraða upp á efstu hæð til að forða okkur.
Loftið er úr tæru gleri. Við stöndum þarna inni í tómum híbýlum. Þá verður ofboðslegur jarðskjálfti og háhýsið beinlínis ruggar fram og aftur, þannig að við veltumst fram og til baka, þurfum að hlaupa upp á móti veltunum. Þetta stendur í nokkrar mínútur, við náum að standa gegnum þetta, en upplifunin er gríðarlega raunveruleg og sjokkerandi.
Eftir nokkra stund lít ég út og horfi þá beint ofan á aðra lægri íbúðarblokk með glerþaki. Tveir menn í yngri kantinum, óþekktir, spila badminton inni í þakíbúð þarna, en missa fluguna sína út um opinn glugga. Þar lýkur draumnum.

Draumur 10. júní 2011
Er með nokkrum manneskjum úr vinnunni að fara spontant með spánýrri og fínni lyftu upp á 30. hæð í húsi til að njóta útsýnisins. Á 8. hæð fer lyftan að slást til og við verðum hrædd og tökum fast í lóðrétta krómrimla í lyftunni. Svo lagast uppferðin en verður á hinn bóginn mjög hröð. Skyndilega, ca á 25. hæð, fer lyftan svo að hrapa, mjög hratt, skelfileg lofttæmistilfinning, ótti, maginn í hnút, hnúarnir hvítir. Ég er sannfærð um að kremjast, deyja. Beygi mig í hnjánum til að taka á móti skelfilegu högginu. Eitthvað hægir fallið rétt neðst, svo að þó höggið sé mikið, sleppum við/ég lifandi og óbrotin, en lemstruð og í áfalli.
Vont að upplifa fallið, mjög raunverulegt og ótti djúpstæður. Líka mikil undrun yfir af lifa af.

Draumur 2011
Síminn hringir. Ég svara og í símanum er ungur maður sem ég þekki ekki. ,,Þú verður að koma á torgið. Núna.“ Hann virðist taugaóstyrkur, hræddur og leggur strax á eftir að hafa flutt mér þessi skilaboð.
Ég lít á vinkonu mína, sem er hjá mér í kaffi og segi henni að ég verði víst að fara, án þess að ég viti hvers vegna, en ég er nógu forvitin til að kanna málið. Hún ákveður að koma með og við tökum bílinn minn og ökum af stað.
Torgið hefur breyst. Þar sem ég staðnæmist á því miðju, sé ég hvíta, háa veggi, sem virðast vera gluggalausar bakhliðar húsa. Veggirnir mynda óslitinn hring að torginu. Hvað varð um götuna sem ég kom eftir? Það er ekkert á þessu stóra torgi, aðeins sólbakaður leirinn, máður af fótsporum. Yfir hvelfist ljósblár himinn og birtan er undarlega sterk.
Með ærandi hávaða, sem skellur af offorsi á hvíta veggina, kemur gamall herjeppi æðandi inn á torgið. Ungur maður er aftan við stýrið, hann baðar út handleggjunum og hrópar eitthvað í angist. Mér sýnist hann vera grátandi. Herjeppinn fer stjórnlaust á einn af hvítu veggjunum. Sprungur myndast í vegginn, þær skríða um hann eins og köngurlóarvefur. Allt dettur í dúnalogn.
Ég gæti að manninum en hann er dáinn. Þögnin er óskapleg. En þegar ég fer að jafna mig heyri ég ofurlítið, mjúkt hljóð. Það kemur frá jeppanum. Ég opna hann að aftan og sé furðulega sjón. Hundruð sexhyrndra kristalla hafa verið hengdir í þræði sem mynda vírnet í þakinu og þar sem þeir stjúkast mjúklega hver við annan myndast ólýsanlega fagur tónakliður. Ég strýk fingrunum laust yfir kristallana, hugfangin af fegurð þeirra. Finn fyrir undarlegri orku, sem leiðir frá steinunum yfir í líkama minn.
Ég heyri rödd. Held að það sé vinkona mín, en hún er þá horfin. Röddin, hún kemur út veggnum – í veggnum koma fram útlínur konu og líka á næsta vegg – og þeim næsta …
Í fjórum veggjum eru fjórar konur, útlínur þeirra óljósar og hvikular. Þær kalla til mín að koma og ég færi mig nær. Fegurð þeirra er mikil og klæði þeirra síður haddurinn og gagnsætt lín. Þær segja mér nöfn sín og af þeim veit ég að þær munu gyðjur vera.
Gyðjur þessar ráða fyrir örlögum mínum og biðja mig að hlíta þeim skilyrðislaust. Tvisvar enn muni þær birtast mér, en það verði seinna á ævinni. Við svo búið hverfa þær í veggina.
Jeppinn er horfinn, en eftir er gríðarstórt gat á veggnum. Ég gægist út um það og sé langa, hvíta sandströnd og marblátt hafið, svo langt sem augað eygir. Ég fer í gegn og geng á ströndinni, niður undir sjávarmál.
Hafið opnast fyrir fótum mér og myndar göng, þurr og slétt, eftir sjávarbotninum. Ég geng niður á við og horfi á hljóðlaust, litríkt og iðandi lífið í sjónum, líkt og í gegnum glerveggi á hvora hönd. Og allt í einu heyri ég þungan nið radda, lít um öxl og sé að á eftir mér í göngunum koma þúsundir manna, karlmenn, konur og börn, íklædd hvítum klæðum og öll bera þau einhvers konar verkfæri.
Ég bíð enn eftir að gyðjurnar segi mér meira.

Draumur 1. júlí 2012
Mig dreymir móður mína, sem lést 24. mars þetta sama ár og var jarðsett 4. apríl. Ég er að undirbúa að kerið hennar verði sett í jörð 24. júlí.
Ég var í vinnunni, en fór þaðan í óskilgreindan kirkjugarð. Þar lá mamma mín á einhverslags börum, eða í grunnri, ljósri kistu, loklausri. Ég settist þarna við og fór að skæla, en þá vaknaði hún eins og af léttum svefni og leit út fyrir að vera á milli sextugs og sjötugs, þ.e. áður en hún veiktist. Mér brá en var þó fljót að jafna mig. Mamma brosti til mín, strauk hendur mínar og andlit og spurði mig hvernig mér og öllum liði. Maðurinn minn var kominn þarna líka en stóð álengdar.
Ég upplifði svo mikinn fögnuð, létti og ástúð vegna þess að mamma var heil og henni leið vel og var létt í skapi. Hún hafði losnað undan sorgum sínum og veikindum.
Ég lagði höfuð mitt í fang hennar, hún var svöl viðkomu en ekki köld. Í ljósrauðbláum kjól og með sitt brúna, liðaða hár. Svo fannst mér eins og stundin væri nú á enda, en við kvöddumst ekki heldur brostum bara hvor til annarrar, eins og við yrðum áfram í sambandi. Ég fór svo aftur í vinnuna og maðurinn minn fór líka á burt.
Ég var í svo miklu uppnámi eftir þetta, svo mikið glöð, en þegar ég ætlaði að segja fólki það í vinnunni var því fálega tekið og ég upplifði sterkt að það væri ekki ,,pláss“ fyrir svona tíðindi inni í líðandi stund.
Þegar ég velti þessum draumi fyrir mér finnst mér að nú myndi mamma vera komin heilu og höldnu ,,yfir“, hvar og hvað svo sem það nú er, í betri stað með fólkinu sínu og pabba. Hún hafi vitjað mín til að láta mig vita að allt væri gott og að ég myndi jarða ösku kroppsins hennar gamla, en ekki hana sjálfa, anda hennar og sál.

Draumur 24. mars 2013
Við sonur minn höfðum verið að skoða saman gamlan torfbæ sem þó var með trégólfi og var vandaður bær. Þá kemur ógurlegur jarðskjálfti sem stendur lengi. Við erum hvort í sínu rýminu sem þó eru samliggjandi, kannski 4 metrar milli okkar. Við sjáumst ekki, en getum kallast á. Höggin og sveiflurnar rosaleg. Bærinn stendur þetta af sér, sem má undrum sæta. Við komumst heil út eftir skjálftann.
Þessi draumur kemur nákvæmlega einu ári eftir að mamma mín gaf upp öndina.

Draumur 20. júlí 2015
Ég er með manninum mínum í hótelherbergi á jarðhæð, aðrar kringumstæður eru óljósar, nema að aflangir gluggar eru á þrjá vegu og hátt á veggjunum. Herbergið er aflangt, rökkvað og rólegt, föt og skór hér og hvar og opnar ferðatöskur. Ég er í augnablikinu ein í herberginu. Allt í einu virðist síga aðeins vatn inn meðfram gluggunum og ég teygi mig á tá til að horfa út. Sé þá þungan, brúnleitan vatnsflaum síga eða renna allt umhverfis bygginguna og vatnið gjálfrar við neðra borð gluggans, eða við neðsta póstinn. Undarleg sjón sem vakti mér nokkurn kvíða, ekki mikinn þó og alls ekki ótta. En ég velti fyrir mér hvernig þetta myndi fara og hvort við kæmumst heil frá þessu. Straumur vatnsins þungur og ansi ógnvekjandi, en samt á einhvern undarlegan hátt friðsamlegur.
Eftir svolitla stund hjaðnaði vatnið og göturnar voru orðnar þurrar skömmu síðar.

Draumur 2016
Mig dreymir að ég hafi þvílíkan niðurgang að allt í kringum mig verður útatað í saur. Mjög vond tilfinning að hafa slíka krampa sem færast einhvern veginn í aukana eftir því sem þeir standa lengur yfir.

Draumur 2016
Mig dreymir að ég missi þrjár tennur og það er á einhvern hátt óhugnanlegt og niðurlægjandi.

Draumur 2017
Mig dreymir að ég og maðurinn minn fáum samtímis hjartaáfall og deyjum. Ég finn hvernig hjartað mitt hægir á sér, flöktir, missir úr slög, hættir að slá og ég dey. Mjög truflandi og raunveruleg upplifun.

Draumur 2019
Mig dreymir 6. september, á afmælisdegi móður minnar heitinnar, að hafi hengt dauða hrefnu (já, hval í fullri stærð) upp í fataskápinn hjá mér. Fljótlega verður hún heldur óskemmtilega lyktandi og frá henni fara að berast lífverur sem ég vil ekki fá í skápinn svo ég fjarlægi hrefnuna. Draumurinn er ekki lengri.

Draumur 21. september 2020
Nóttin sem Dísa frænka mín, Bryndís Pétursdóttir móðursystir mín, lést.
Mig dreymir að ég fari út úr strætó einni stoppistöð of seint. Mikill snjór er úti. Þegar vagninn er farinn lendi ég inn á einhvern troðning og þá eru allt í einu tvær risastórar snjómokstursvélar skammt frá og á leið í átt til mín með rosalega skóflukjaftana í snjókófinu. Ég er skelfingu lostin, sekk í snjóinn upp að hnjám, berst um og reyni að komast burt. Allt í einu man ég eftir troðnum stíg við strætóstoppistöðina og næ að krafla mig þangað. Þá endar draumurinn.

Draumur 7. október 2020
Mig dreymir aftur snjó. Búin að vera í ókunnugu húsi með fyrrverandi eiginmanni mínum, tengdamóður, mágkonu og mági og vil nú fara. Bið þau að hjálpa mér að finna ferð en þau eru alveg skeytingarlaus og eins og þau sjái mig ekki, svo ég fer út í óveðrið, snjóskaflana og blinduna og klofa og veð skaflana í mið læri. Ég týni brátt báðum skónum, mér verður ískalt, ströggla og berst um og er að missa vonina um að komast nokkurn tímann á áfangastað, þegar ég allt í einu kemst heim í mitt hús, eða á minn áfangastað.

Draumur 27. október 2021
Ég er í tvílyftu traustu timbureinbýlishúsi úti í sveit, nálægt fjöllum og jöklum, en líka er stutt niður á brattan sjávarbakka. Ég er með mömmu og pabba og Gullu systur minni og Héðni manni hennar. Veit ekki hversu gömul ég er, líklega um tvítugt. Það hafa verið fréttir af eldgosum hér og þar í landinu. Ég er eitthvað að gá til veðurs og sé þá rauðan bjarma í fjöllunum fyrir ofan, sem breytist svo í bersýnilegan einn rauðan strók í fjallinu fyrir ofan okkur. Við komum saman við stóru gluggana uppi, sem snúa að fjallinu og jöklunum og horfum á nývaknað eldgosið, dáumst að því en höfum áhyggjur af áhrifum þess á okkur. Ég læt yfirvöld vita af eldgosinu. Svo verð ég vitni að ægilegum drunum, allt nötrar og svo sjáum við hvernig heill veggur af vatni og ís og drullu ryðst fram og skellur á húsinu okkar, færir það aðeins af grunninum og smyrst utan á allar rúður án þess þó að brjóta þær. Gluggar efri hæðarinnar eru á kafi í íshröngli og bláum og skítgráum ís. Svo er þetta liðið hjá, drunurnar þagnaðar og við erum skelfingu lostin. Pabbi opnar dyr á loftinu út í hroðann og gengur út á þakið til að kanna skemmdir. Ég upplifi hamslausan ótta og öskra aftur og aftur á hann að koma inn og loka því það muni koma annað flóð. Hann kemur ekki inn fyrr en eftir dálitla stund og þá er ég orðin svo ofsahrædd að ég hrópa á hann: Ég hata þig, ég hata, þig, ég hata þig!, algerlega viti mínu fjær af skelfingu og þá kemur annað flóð sem rífur húsið af grunninum og fer með það niður að bakkanum við sjóinn. Þakið rifnar af og fer fram af bakkanum og ég vakna upp í skelfingu en mest í uppnámi yfir að hafa sagt þetta við pabba minn, elsku góða pabba minn.

Draumur 18. febrúar 2023
Mig dreymdi að ég væri að leita mér að vistarveru því ég þyrfti að leita þess sem hafði týnst. Á móti mér tóku Þorbjörg Jónsdóttir heitin og Erla systir hennar. Þorbjörgu þekkti ég vel og umgekkst þegar ég var ung, vinátta hennar var mér dýrmæt. Þorbjörg var mjög skýr fyrir mér, um fimmtugt, geislandi, hún brosti og hló, faðmaði mig að sér. Hún var klædd ljósleitum grænum og gylltum fatnaði. Erla var óljósari, stóð aðeins aftar, en ég gerði mér ljóst að þetta væri hún og að hún væri vörður bókanna.
Þetta voru fagnaðarfundir. Þær stóðu í dyrum vistarveru sinnar og buðu mér að dvelja þar eins lengi og ég þyrfti meðan ég leitaði þess sem ég þyrfti að finna, en sjálfar væru þær að fara lengra. Þær sögðust vera að fara heim. Vistarveran var einn salur, hvorki stór né lítill, en mjög bjartur og þrengdi hvergi að. Raunar sáust ekki veggir né loft, heldur aðeins hvít fínofin tjöld sem bylgjuðust létt, eins og af þýðum blæ sem væri langt að kominn. Gólfið var einnig ljóst og lífrænt. Það var eins og þessi vistarvera ljómaði af mjúku ljósi og allt virkaði mjög létt og fíngert þar inni. Ég sjálf var farangurslaus, komin um langa vegu og með þá knýjandi vissu að ég þyrfti að leita þess sem hafði týnst. Mér fannst það vera orð. Orðið. Þær Þorbjörg og Erla kvöddu mig með virktum og óskuðu mér heilla, nú þyrftu þær að fara lengra, eftir stutta en góða endurkomu eða heimsókn á þennan stað. Eins og þær hefðu verið í stuttri skemmtiferð í vistarverunni sem áður er lýst. Ég spurði hvert ég ætti að skila lyklinum að vistarverunni.
Þorbjörg sagði að ég mætti skila lyklinum, þegar ég hefði fundið það sem ég leitaði að, til hennar, en þær væru sem sagt að fara heim og þangað þyrfti ég að koma með lykilinn þegar þar að kæmi. Við vorum ekki að tala um venjulegan húslykil heldur einhvers lags þekkingarlykil sem tengdist vistarverunni björtu og gat opnað eitthvað mikilvægt. Þegar þær voru farnar byrjaði draumurinn að leysast í sundur. Þá fékk ég hins vegar afar skýra mynd í hugann (var enn að dreyma) og mér þótti sem við mér blasti svarið við því sem ég hafði spurt, lausnin við því sem hafði týnst og ég leitað: Ég sá fyrir mér blómkáls-eða brokkolihöfuð, eina lífræna heild, sem kvarnaðist svo niður í örsmá korn, líka hin nakta grind sem áður hélt höfðinu saman, stoðin, tré lífsins, allt kvarnaðist niður í öreindir. Þetta, þessi mynd, var að segja mér að svona hefði upphafið verið, hið mikla upphaf, ein agnarsmá heild hafði sprungið út í veröldina; í allt sem er, niður í smæstu eindir, orku og efni. Gert stórt og smátt. Skapað heima og geima.
Og þetta væri það sem hefði týnst; skilningur á upphafi alls: lífsneistans, andans, vitundarinnar, ljóssins. Draumurinn endaði þar sem ég, í miklu uppnámi yfir þessum nýja skilningi, sem ég skildi þó takmarkað í raun og veru, hélt af stað með hvítan lykil til að skila í réttan stað.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –