Áratök tímans

Áratök tímans, bók 70 ljóða Steinunnar Ásmundsdóttur frá árunum 2016-2018, kom út 5. maí 2018 hjá hinu einkar virðulega Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi sem er ein öflugasta ljóðabókaútgáfa landsins og hefur starfað í á þriðja áratug.

Eins og titill bókarinnar ber með sér rær höfundur á mið tímans og hugleiðir hvað hefur sterkust tök á honum í sínu lífi. (Sjá sýnisljóð neðst á síðu).

Kaflarnir eru þrír, Heimaland, Útland og Innland. Sá fyrsti lýsir atvikum uppvaxtar- og umbrotaára í Reykjavík, þá taka við ferðalög á ókunnar slóðir og síðasti kaflinn fjallar um heimkomuna og að festa rætur í daglegum veruleika við bakka hins mikla Lagarfljóts.

Ljóðin eru mörg mjög nærgöngul og lýsa upplifun og reynslu sem sest hefur að í Steinunni og mótað persónu hennar.

Áratök tímans fást hjá útgefanda, höfundi og í völdum bókaverslunum.

Umfjöllun

Anton Helgi Jónsson skáld segir ljóðabókina Áratök tímans eftir Steinunni Ásmundsdóttur hafa komið sér ,,gífurlega mikið á óvart“ og nefnir miðkafla bókarinnar, Útland, sem hefur að geyma ljóðminningar frá öðrum löndum. ,,… Hún er hér og þar á ferð um heiminn, hún er í Mexíkó, á Grænlandi, Þýskalandi og svona og horfir á fólk. Hún er greinilega gestur af því að hún getur sagt hvað sem er og hún dregur upp svakalega sterkar og skýrar mannlífsmyndir þarna,“ segir Anton Helgi.

Útvarpsþátturinn Orð um bækur á RÚV, 27. janúar 2019, umfjöllun um áhrifamestu ljóðabækur ársins 2018.

Upplestur úr Áratökum tímans (sjónvarpsupptaka)

Ritdómur í Glettingi, 1. tbl. 2019, Þórður Helgason

,,Áratök tímans er fjórða ljóðabók Steinunnar Ásmundsdóttur. Hinar eru Einleikur á regnboga (1989), Dísyrði (1992) og Hús á heiðinni (1996).

Fyrsta ljóð bókarinnar er ,,Orðfuglar“ (7):

Sturlaðir smáfuglar
þyrlast um í brjóstinu
og éta mig að innan,
berja vængjum og
berja, vitfirrtir
af innilokun.

Þetta er tilfinning sem flest ljóðskáld ef ekki öll hafa upplifað; það er eitthvað að gerjast innra sem vill út en finnur sér ekki farveg.

En orðin finna sér leið út. Eftir langa ferð ljóðmælanda um framandi lönd lýsir ljóðið ,,Endurlausn“ (74) heimkomu ,,heim til sjálfrar mín“ og ljóðmælandi er

Búin að endurraða,
endurskapa.
Innviðirnir traustir,
þykkri, þolnari.

Orðafuglar þyrlast frjálsir
um fagra veröld.

Hér mætum við orðunum frjálsum – en hömlulausum. Þriðja ljóðið um orðin er ,,Orð“ (79). Orðin eru frelsinu fegin og ráða sér ekki fyrir fögnuði rétt eins og lítil börn. Ljóðmælandi verður að taka í taumana:

Þau sneru algjörlega við blaðinu
og fóru út eftir áralanga innistöðu.
Klifruðu í trjánum,
eltust við norðurljósin
og létu beinlínis öllum illum látum
uns ég skipaði þeim harðri hendi

að koma og setjast prúð niður á pappírinn
– steinhalda sér saman þangað til
annað yrði gefið út.

Skáldkonan víkur einnig að orðunum í ljóðinu Glímuskjálfti (75). Þar er hún innilokuð í húsi meðan óveður geisar. Það er einnig óveður í konunni enda stendur hún í orustu við orðin sem heimta að fara út í óveðrið og hyggjast rata til sinna. Skáldið lætur það eftir þeim.

Þessi átök skáldsins við orðin óstýrilátu eru afar skemmtileg og lýsa vel þeirri glímu sem flestir höfundar heyja við efnivið sinn.

Áratök tímans skiptast í þrjá hluta, Heimaland, Útland og Innland. Í Heimalandi virðast ýmsar myndir úr lífi skáldsins rifjast upp, sumar gamlar eins og ljóðið ,,Kökukefli og hamar“ (8) þar sem þau verkfæri draga fram staðreyndir um lífsbaráttu genginna kynslóða. Aðrar sýnast nær okkur í tíma eins og ljóðið ,,Nálgun“ (15) sem lýsir því hvað gerist er fólk losnar við ytra byrði sitt og kemur upp um það sem innra býr með manninum. Viðskotaillur jarðfræðingur og gjaldkeri, sem engum sýndi velvild, skipta um ham þegar hugurinn beinist að bókmenntaarfi þjóðarinnar.

Í kaflanum Útland er lýst ferðum skáldsins um erlenda staði. þar eru dregnar upp eftirminnilegar myndir af mannlífi framandi slóða. Þar er ljóðmælandi misnálægur, stundum áhorfandi, en stundum þátttakandi. Í ljóðinu ,,Frjáls“ (46) er lýst dvöl skáldkonunnar í Mexíkó. Konurnar forvitnast um hana og frelsið sem hún býr við og eignast drauma um sams konar líf. Þessi heimsókn skáldkonunnar er ógnun við karlmennina í þorpinu sem eru því fegnastir að sjá á eftir henni úr þorpinu.

Í kaflanum Innland eru dregnar upp myndir úr ýmsum áttum, flestar þeirra dökkar, tengjast eyðingu, hausti og dauða, en inn á milli leynist líf, til dæmis fæðing nýs lífs, og einnig eins konar sátt: ,,Ég er aftur komin / heim til sjálfrar mín / þar sem öskrið býr og / angistin lúrir / en líka sælan og /heiðríkjan.“ (74).

Í þessum kafla staldra ég við ljóðið ,,Ársuppgjör“ (82). Þar stendur ljóðmælandi í stafni skips sem vart er sjófært, fúið og lekt. Þar stígur hann ölduna og þráir landsýn. Þessa mynd er unnt að túlka á ýmsa vegu. Ef til vill er þetta mynd okkar allra í heimi sem kominn er í þrot.

Þessi bók Steinunnar er vel heppnuð og myndir hennar eru áhrifamiklar og eiga erindi við alla.“

Umfjöllun SÓN – tímarits um óðfræði (bls. 176/2019)

Fjögur sýnisljóð úr Áratökum tímans:

Kveðja

Ég var á rölti um heiðarlandið í góðu veðri
þegar maður kom hlaupandi eftir slóðinni,
kallaði og benti mér að koma,
faðir minn væri látinn.
Svo langur stígurinn,
seinfarinn vegurinn
og þybbin kona á hvítum slopp sagði nei,
ég gæti því miður ekki fengið að kveðja,
hann væri kominn í líkhúsið,
biði krufningar vegna hjartastærðar.

Ég vissi það vel að hann hafði stórt hjarta.
Fyrir það langaði mig að kveðja hann.

Tuttugu þúsund bláar flísar
(Konstantínópel, Tyrkland)

Sjö mínarettur bláu moskunnar
hafa vakað yfir bænum fólks
í fjögur hundruð ár.
Bænakallið frá þeim endurkastast
áleitið en heillandi
um stræti borgarinnar.
Þeir sem heyra
hverfa frá daglegri iðju í tilbeiðslu.
Voldugt himinhvolfið
flýtur yfir líkömum á teppabreiðu.
Hver bæn jafnmikilvæg,
hver blá flís jafnmikilvæg.
Litríkt skótauið utan hvelfinganna
eins og hafsjór af vonum.
Minnir á fjölbreytni mannlífsins,
að hver gengur sína leið.

Brestir
(Qaqortoq, Grænland)

Þær eru knáar þessar lágvöxnu konur
sem bera mennina sína á öxlinni heim af barnum
eftir hráskinnaleik nútíðar í landinu gamla.
Þeir gubba fram af svölunum þar sem
veiðibráð og skinn hanga til þerris innan um þvottinn.
Hundarnir gelta órólega í gerðinu
og það brestur ónotalega í ísnum á voginum.
Nýr tími násker gamlan merg.
Allt undir fargi óvissu, þjóð og land
og ævagömul jarðbinding að trosna.

Steinbarn

Fór á barinn til að losa öskrið,
athuga hvort ég næði gegnum skelfinguna
til hjartans.

Veinið heima hræddi börnin.
Það rann langdregið út í nóttina,
úr skerandi kolsvartri botnlausri holu.

Um morguninn lygndi og hljóðnaði
eftir því sem birtan jókst.
Unnt að rísa upp og opna dyrnar fram.

Minning um smáan líkama,
steinbarnið,
vafið í klæði og kistulagt.

Öskur; að moldu skaltu verða.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –