RÚV

Orð um bækur

RÚV 2020 – umfjöllun um Manneskjusögu og Í senn dropi og haf
Orð um bækur (viðtal)

22.06.2020

Jórunn Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður

Skapandi líf einnar manneskju er alla jafna ekki eitt heldur mörg. Til eru höfundar sem jafnvel samtímis lifa ólíkum lífum undir ólíkum höfundarnöfnum. Steinunn Ásmundsdóttir hóf ung feril sinn sem ljóðskáld en svo hvarf hún af sjónarsviðinu. En kom síðan aftur og hefur á síðustu fjórum árum sent frá sér 3 ljóðabækur og eina skáldævisögu auk þess að opna vefsíðu með öllum skáldskaparlífum sínum.
Seint á síðasta ári (2019) kom út hjá bókaútgáfunni Dimmu sjötta ljóðabók Steinunnar sem auk þess sendi árið 2018 frá sér skáldævisöguna Manneskjusaga, sem þó ekki er sjálfsævisaga.

Fyrsta ljóðabók Steinunnar sem heitir því skemmtilega nafni Einleikur á regnboga kom út árið 1989. í kjölfarið fylgdu svo tvær ljóðabækur til viðbótar Dísyrði árið 1992 og Hús á heiðinni árið 1996. Og síðan ekki söguna meir í tuttugu ár en þá opnaði Steinunn ljóðvefinn yrkir.is og bauð þangað öllum sem vilja með hendingunni:

Ég er aftur komin
heim
til sjálfrar mín
þar sem angistin lúrir
en líka sælan og heiðríkjan.

,,Ég á mér nokkra lífskafla, fyrsti kaflinn minn var svona … Já, ég fór hratt yfir og fór víða um veröldina. Ég skrifaði mikið og var í stöðugri sálarangist og ljóðin mín bera svolítið þess merki. Svo kom að því að ég vildi festa rætur og eiga eitthvað sem ég hélt að væri venjulegt líf,“ sagði Steinunn í viðtali við þáttinn Orð um bækur í lok apríl.

Steinunn flutti til Egilsstaða árið 1996 og bjó þar næstu rúmlega tuttugu árin, stofnaði fjölskyldu og starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins á Austurlandi í hartnær áratug og sem ritstjóri héraðsfréttablaðsins Austurgluggans um skeið. Fyrir nokkrum árum dró hún sig í hlé frá fjölmiðlavinnu og gekkst skáldskapnum á hönd að nýju eftir tuttugu ára hlé. „Þetta er einhver þörf sem brennur í mér og ég gekk á hólm við sjálfan mig til að gá hvort ég gæti þetta ennþá. Og það var bara eins og að skrúfa frá krana,“ sagði Steinunn ennfremur. Þar með var nýr kafli hafinn.

Steinunn flutti til Reykjavíkur og sendi strax árið 2017 frá sér tvær ljóðabækur, Hin blíða angist sem inniheldur ljóð frá Mexíkó og Áratök tímans, einnig ljóðabók sem vakti talsverða athygli sem og skáldævisagan Manneskjusaga sem kom út árið 2018.

Manneskjusaga
Manneskjusaga segir frá lífshlaupi ógæfumanneskju, eins og útigangsfólk er oft kallað. „Þetta er saga um manneskju sem var mér tengd (…) Hún átti mjög harkalega ævi og samtíð hennar skildi hana engan veginn, gat ekki greint hennar vanda. Þetta er minnisvarði um konu sem allir gleymdu.“ Steinunn segist hafa fundið hjá sér þörf til að byrja nú að skrifa sögur og það hefði verið dagljóst að þessi saga yrði að koma fyrst.

Enn sem komið er þó ljóðið i fyrirrúmi í skáldskap Steinunnar. Ljóðabókin Í senn dropi og haf inniheldur 40 ljóð sem sum hver fjalla um afar hversdagslega hluti eins og Lada Sport, önnur um náttúruna en flest um ákveðna staði, flesta á Austurlandi. Bókin er ekki kaflaskipt en er haldið saman af stökum ljóðum í þrettán ljóða bálki sem einu og einu er smeygt inn í heildina og ber sá bálkur yfirskriftina „Fjörbrot“.

,,Þessi bók er kveðja mín til áranna fyrir austan. Hún fjallar um aðdragandann að því að skilja og flytja í burt. Ég er að skrifa ýmsar minningar og myndir, sem skiptu mig máli fyrir austan, oft tengt náttúrunni. (…) Það leita á mig minningar en líka einhvers konar veraldarhugsun. Ég held að ég sé að tengja brot úr mínu lífi við eitthvað stærra samhengi,“ segir Steinunn um leið og hún undirstrikar að bókin Í senn dropi og haf sé líklega hennar persónulegasta ljóðabók.

Ljóðspretta

Vaxtarsprotar kúra í jarðveginum,
um leið og dreypt er á þá vatni og ljósi
spretta upp hin margvíslegustu blóm
ólk að lit og lögun, misjafnlega þróttmikil
en öll hafa þau ilm og vilja lifa,
að lesandi ljái þeim vængi.


Á sumarvegi

2. júlí 2008, tónlistarþáttur og rabb


Góðir hlustendur, – velkomnir í þáttinn Á sumarvegi.
Það er eins og endranær, að sjaldan erum við Íslendingar borubrattari en í hásumrinu, þegar veðrið leikur við okkur og gróandinn, dýra- og mannlíf rís sem hæst.
Ég hef undanfarið náð nokkrum dýrindis sólarstundum í hengirúminu mínu heima í garði. Undir kátum fuglasöng og vatnsniði leitar hugurinn víða. Ég fór til dæmis að velta vöngum yfir mannlífinu í kringum mig, og þá einkum því fólki sem markað hefur hvað dýpst spor í mína eigin tilveru.
Mér flaug því til hugar að segja ykkur svolítið frá nokkrum litríkum karakterum sem varðað hafa veginn minn. Þetta voru konur, allar talsvert miklu eldri en ég þegar kynni okkar hófust og áttu sammerkt að vera hreint óviðjafnanlegar.

En áður en lengra er farið út í þá sálma heyrum við argentínsku valkyrjuna Mercedes Sosa flytja lagið Gracias a la vida.

Aðalheiður Hólm frænka mín fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð haustið nítján hundruð og fimmtán. Hugur hennar hneygðist snemma til réttindabaráttu, ekki síst kvenna. Hún tók virkan þátt í verkalýðsbaráttunni fyrir miðja síðustu öld og bar kjör fátækra verkakvenna mjög fyrir brjósti. Hún vann t.d. hjá Álafossi ung að árum og blöskraði þá mjög sú vinnuaðstaða sem konurnar höfðu við verksmiðjuvélarnar.
Einhvern daginn þusti hún á smekkbuxum inn til forstjórans og spurði hvort ætlunin væri að valda konunum fjörtjóni með því að skikka þær til að vera pilsklæddar ár og síð og alla tíð. Hvort þær mættu ekki ganga í buxum til vinnu sinnar, því það myndi stórminnka hættu á að föt þeirra flæktust í vélarnar með voðalegum afleiðingum. Eftir það máttu konurnar í Álafossi fyrst klæðast buxum.

Heiða var einn af stofnendum starfsstúlknafélagsins Sóknar árið nítján hundruð þrjátíu og fjögur, félags sem henni þótti alla tíð afar vænt um og fylgdist náið með, þó fjarri væri. Hún varð nefnilega ástfangin af hollenskum loftskeytamanni í stríðinu og flutti út til hans sumarið fjörtíu og sex. Sá hét Wugbolt Spans og starfaði lengstum við háskólann í Utrecht í Hollandi, þar sem þau bjuggu þorra ævi sinnar. Wugbolt, sem aldrei var kallaður annað en Holli, sendi mér mörg bréf gegnum tíðina, og þau voru öll skrifuð eins og loftskeyti; Heiða frænka þín á Ítalíu að skoða söfn STOP / Ég heima að skrifa sögur úr stríðinu STOP / Kalt veður í Utrecht STOP / Komum til Íslands í sumar STOP – og svo framvegis.
Ég man eftir mér sautján ára gamalli á járnbrautarpalli í Utrect árla morguns. Kona um sjötugt kom aðvífandi á svörtu reiðhjóli, skarpleit með arnarnef, breitt bros og skelmislegt augnaráð. Sagði: „Ert þú Steina frænka mín?“ og bauð mér að setjast á bögglaberann. Svo reiddi hún mig heim til sín, talsverða vegalengd, og blés ekki úr nös. Þannig hittumst við fyrst, að áeggjan föður míns sem hafði alltaf miklar mætur á þessari frænku sinni að vestan.

Í heimsóknum hjá Heiðu var ævinlega risið árla úr rekkju, snæddur staðgóður morgunverður og mikið drukkið af kaffi. Þá var betra að snúa heilakvörninni rösklega í gang, því umræðuefnin við kringlótta borðið í eldhúsinu voru ósjaldan heimspeki, hagfræði, stjórnmál og bókmenntir. Karlar eins og Spinoza, Kant og Nietze komu við sögu, heimsviðburðir og hermang sömuleiðis. Laxness og Kjarval voru fastagestir í morgunspjalli okkar. Svo var gjarnan hjólað út á markað eftir gladíólufangi, kaffi, rauðvíni og grænmeti.

Það var hreinasta þing að fá að vera samvistum við þetta fólk. Maður kom aldrei nokkurn tímann að tómum kofanum. Þetta var svona dálítið eins og að vera í háskóla með endalaust úrval af námsgreinum. Hún frænka mín var leiftrandi greind, hugði alla tíð grannt að mönnum og málefnum og hafði sterkar skoðanir á því öllu saman. Þekkingarþorstinn var magnaður. Hún fylgdist vel með listum og var sérlega vel heima í bókmenntum og myndlist. Enda áttu íslenskir námsmenn í Hollandi, sem gjarnan voru þar við listnám, alltaf athvarf í eldhúsinu hennar. Straumar og stefnur iðuðu ævinlega þar inni og höfðu örvandi og endurnýjandi áhrif á heilabúið.
Stundum lá við ofhitnun símalína þegar við spjölluðum milli landa, símtölin löng og djúp og spönnuðu heimskringluna. Skömmu áður en Heiða veiktist illa af Parkinsons brá hún sér til Sánkti Pétursborgar í Rússlandi, því þangað hafði hana alltaf langað. Þrátt fyrir háan aldur og tvo stafi sveimaði hún þar um borgarstræti og sýningarsali af eldmóði og spurði heimamenn frétta.

Ef einhver vill fræðast meira um þessa mögnuðu konu, má lesa um hana í ágætri viðtalsbók Þorvaldar Kristinssonar, Veistu ef vin þú átt, sem kom út árið nítjánhundruð níutíu og fjögur. Þessi góða frænka mín sem ég sakna mjög, sýndi mér fram á gildi þekkingar og menningar. Lífsþorsti hennar og þekkingarþrá smitaði mig og hún er að mörgu leyti mín helsta fyrirmynd.

Nú skulum við hlýða á Fangakórinn eftir Verdi, sem hefur allt frá frumflutningi í Mílanó árið 1842 verið nokkurs konar óopinber þjóðsöngur Ítala.
Fangakórinn / Va Pensiero úr Nabucco, Giuseppi Verdi.

Víkur nú sögunni til Ernu Sæmundsdóttur, dóttur Sæmundar í Frón, sem allir þekktu hér fyrr á tíð. Erna háði vonlausa baráttu við MND sjúkdóminn þegar við kynntumst laust eftir 1980, nýflutt frá Bandaríkjunum heim til Íslands með dóttur sína og bjó í miðborg Reykjavíkur. Þá var Erna á besta aldri og ég nýkomin í menntaskóla.

Þegar þarna var komið sögu þráði hún mest að geta dansað, en fæturnir báru hana ekki lengur. Tónlistin, gleðin, hláturinn og harmurinn, – eftirsjáin eftir því sem hefði getað orðið; allt markaði þetta líf hennar. Líka ástúð gagnvart fólki og dýrum í sinni tærustu mynd, varnarleysi gagnvart stigversnandi sjúkdómnum og þegar á leið – sú raun að horfast í augu við eigin dauða. Það gerði hún með fágætri reisn og æðruleysi, þrátt fyrir að ótti og dapurleiki sæktu stundum að.

Þær voru óteljandi stundirnar á fallega heimilinu hennar sem við veltumst um af hlátri, sungum hástöfum með til dæmis Fjórtán fóstrbræðrum og Frank Sinatra eða skældum yfir lasburða dýri eða manni, – og stundum yfir okkur sjálfum. Ég skildi aldrei hvernig hún, þessi fallega og gáfaða kona, nennti að eiga sálufélag við mig, – en slíkt var samband okkar. Meira að segja mamma mín sagði Ernu vera mína aðra móður. Orðið æðruleysi öðlaðist inntak þessi ár sem við áttum saman.

Ernu Sæm hefði líkað næsta lag vel, en það er gamli slagarinn They can‘t take that away from me eftir Georges og Ira Gershwin, sungið af gamla jálkinum Rod Stewart.

Konurnar mínar voru fleiri. Bíbí Jones til dæmis, en hún hét raunar Þorbjörg Jónsdóttir, var frá Akureyri, en bjó bæði í Englandi og seinna í Reykjavík. Við kynntumst þegar ég var á fjórtánda árinu, ég sendill á löggustöðinni í Reykjavík og hún geislandi skrifstofustarfsmaður þar og um fertugt.

Leiklistin var Þorbjörgu hjartfólgin sem og öll menning. Hún hafði háþróað fegurðarskyn og frábæra næmni gagnvart fólki. Að hlæja með henni var eins og lífs-elexír, að fá faðmlag frá henni dugði manni til gleði næstu daga og vikur, slíka hjartagæsku og hlýju veitti hún fólki í kringum sig í óhömdum skömmtum.
Yfirskilvitlegir hlutir voru henni daglegt brauð og ég held að bæði álfar og huldufólk hafi sest að í húsi hennar og eiginmannsins Þórarins – og búið þar í góðu yfirlæti. Þegar bænahringurinn þeirra kom saman í húsinu stóðu ljósbogar upp í gegnum þakið og hátt til himins og hefðu dugað til að lýsa alla borgina þegar svo bar undir.

Bíbí Jones var drottning og prímadonna og satt að segja stóðu allir og sátu eins og hún vildi, án þess að hún bæði um slíkt, – fáguð ljónynja og heimsborgari sem hún var. Fólk fór jafnan frá henni með gleði í hjarta og sterkari vissu um góða eiginleika sína. Meira að segja meðan hún barðist við krabbamein og laut í lægra haldi var hún með bros á vör og glens. Bíbí Jones sannaði satt að segja mátt kærleikans og gleðinnar fyrir mér.

Annar sterkur kvistur á lífstréinu var Uta Loose, listakona sem ég bjó hjá um skeið í Þýskalandi. Hún flýði Austur-Þýskaland í skottinu á brauðbíl föður síns rúmlega tvítug, undan harðýðgi og drunga og dansaði með kabaretthópum víða um Vestur Þýskaland, uns hún festi ráð sitt. Þá giftist hún háttsettum opinberum embættismanni og settist að skammt frá Hamborg, í húsi þar sem myndlist og tónlist réðu ríkjum, yndæl náttúra var utan dyra og hartnær fjörtíu íslensk hross í gerði skammt frá.

Við Uta settumst iðulega með hvítvínsglas út í trjálundinn við froskatjörnina og ræddum þjóðmálin og tilfinningalífið – og þá gjarnan undir villtum tónum frá Tom Waits eða Janis Joplin. Eða riðum saman út í skógunum dægrin löng. Ég man að sérstök virðing var borin fyrir máltíðum á heimili hennar. Alltaf var vandað vel til hráefna og meðhöndlunar og sérstök alúð lögð við eldamennskuna. Uta sagði að leggja þyrfti ástúð í matargerðina til að fæðan nýttist kroppnum rétt. Hún leit aldrei í kokkabók, heldur hugsaði um áferð og ilm hráefnanna og notaði þau eftir tilfinningu. Hjá henni fékk ég margar óviðjafnanlegar uppskriftir sem ég nota alltaf annað veifið. Líka legg ég mig fram um að láta tilfinninguna ráða í matargerðinni og það tekst bara stundum býsna vel.

Uta var ákaflega falleg kona sem klæddi sig óvenjulega og skar sig hvarvetna úr. Hún var stolt, mjög listræn og næm, leitaðist stöðugt við að mennta sig og þroska og ófeimin við að vera manneskja með tilfinningar. Það kom skýrast í ljós þegar Uta gekkst við kenndum sínum til kvenna og eignaðist þýska ástkonu. Sú var heimilisvinur og alltaf inni á gafli. Húsbóndinn lét sér þetta lynda þótt ótrúlegt megi virðast, enda átti hann sjálfur hjákonu í Hamborg, ógurlega ísdrottningu með uppsett aflitað hár, eldrauðan varalit og kulda í svipnum. Fjölskyldulífið gat orðið dálítið flókið á köflum vegna þessa, – og jafnvel hádramatískt.

Ég hreifst mjög af Utu vegna þess að hún var svo mikil manneskja og þorði að vera hún sjálf í hvívetna. Svo var hún firna-flínkur málari í þokkabót, hvort sem var í olíu eða vatnslitum, afbragðsgóður klæðskeri og hafði lag á hrossum.

Hér held ég að sé við hæfi að gera kúnst-pásu og fá hinn ráma Tom Waits til að syngja um Matthildu.
Tom Waits, Tom Traubert‘s Blues, Walzing Mathilda.

Elsa Velázquez var enskukennari í Mexíkó og mjög pólitísk. Við kynntumst nítján hundruð níutíu og þrjú í borginni Toluca og áttum mikil samskipti um hríð. Hún þráði að leggja sitt af mörkum til að bæta kjör almennings í þessu stóra, yndislega og galna landi og lagði nótt við dag í þeirri baráttu. Mér er sérstaklega minnisstætt þorp sem við heimsóttum, þar sem hvorki var rafmagn, né rennandi vatn og ekkert símasamband eða póstsamgöngur. Enginn vegur lá til þorpsins og það er hvergi skráð á landakorti. Þarna bjuggu um þrjú hundruð manns við sárustu fátækt. Við þurftum að hoppa af járnbraut og ganga langa leið gegnum skógarþykkni til að komast á staðinn.

Elsa sýndi mér hörkuna og misréttið sem þjóð hennar hefur svo lengi verið föst í – og bað mig um að bera skilaboðin áfram, ef vera kynni að það yrði til hjálpar. Þrautsegja, þjóðernisást og réttlætiskennd var henni í blóð borin og þó var hún svo mjúk og settleg, að ókunnuga hefði tæpast grunað hvað hún fékkst við utan enskukennslunnar. Hún hvarf í pólitískum hreinsunum stjórnvalda árið nítján hundruð nítíu og fimm og vinir hennar sögðu mér síðar að hún hefði aldrei snúið til baka og væri án efa látin.

Síðasta konan sem ég ætla að segja ykkur frá á Sumarvegi, er Kristbjörg Gestsdóttir frá Múla í Aðaldal. Hún bjó seinni árin á Egilsstöðum þar sem ég kynntist henni. Hún var hafsjór af sögum og ljóðum og sannur sagnaþulur. Fór með ljóðbrot eftir Guðmund Böðvarsson, Jóhannes úr Kötlum og Snorra Hjartarson og átti ljóðlínur við hvert tækifæri dagslegs lífs.
Hún var eina manneskjan sem ég hef þekkt sem tók iðulega upp símann til að segja mér andaktug, frá alveg sérlega vel skrifuðum setningum í bókum.

Henni sagðist alltaf svo skemmtilega frá, hvort sem voru sveitasögur úr Aðaldalnum eða af stjórnmálavafstri og jafnréttisbaráttu sem hún tók mikinn þátt í á árum áður, bæði á Akureyri og Egilsstöðum. Hún var málsvari lítilmagnans og hafði fyrir lífsmottó að láta aldrei börn eða málleysingja fara óbætt hjá garði. Hún hafði miklar áhyggjur af jafnréttismálum og ekki síst því að enn væri launamunur karla og kvenna mikill.

Kristbjörg, sem yfirleitt var kölluð Kibba, hafnaði lífsgæðakapphlaupinu algjörlega. Hún og maður hennar, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur, áttu sér einhvers konar tímalaus vé á Egilsstöðum, þar sem menning í sinni víðustu mynd, vísindi og heimspeki áttu griðland. Þangað streymdi jafnan merkisfólk af háum og lágum stigum, að ógleymdum álfum og huldufólki, og tíminn leið við skoðanaskipti, kaffidrykkju og reykingar. Menn sem máttu ekki reykja heima hjá sér komu til Kibbu til að fá sér vindil í friði og spekt – og fá hugljómanir. Svo varð ævinlega heilagt í húsinu þegar þátturinn Víðsjá hófst á Rás eitt.
Þessi kona kenndi mér umfram allt mannúð, samhyggð og bókaást.

Þær sex konur sem ég hef nú sagt ykkur örlítið frá eru allar látnar. Ég undrast heppni mína að hafa fengið að kynnast og læra af þeim. Þær eru kyndlar mínir á lífsveginum og enn tala ég til þeirra við ákveðin tækifæri.

Að maður er manns gaman er ekki ofmælt og í erli nútímasamfélagsins er vert að muna það. Stund með góðri manneskju er mikilvæg andleg næring og það sem situr eftir þegar hismið er skilið frá kjarnanum í leiðarlok.
Að svo mæltu kveð ég og þakka áheyrnina.

Nýdönsk, Horfðu til himins.

Lesandi vikunnar

12. janúar 2003
Bækur sem fjallað var um:

Konungs Skuggsjá – Speculum Regale

eitt örfárra norskra miðaldarita sem varðveist hefur

skrifað um 1250, höfundur óþekktur en hugsanlega Einar Gunnarsson smjörbakur frá Hálogalandi, sem var erkibiskup í Noregi

sonur spyr – faðir svarar, form algengt á hámiðöldum

Konungur segist muni ræða um kaupmennsku, konungshirðina, prestskap og bændur. Síðari tvo þættina vantar. Annað hvort ekki skrifaðir eða týndust einhvers staðar á þeim 750 árum sem liðin eru

  • ávöxtun fjár
  • veðurfar og árstíðir
  • sjávarföll, lögun jarðar
  • undarlegir og fáséðir hlutir
  • eldsgangur og landskjálftar á Íslandi (35)
  • skíðamenn
  • hvalir í Íslandshöfum
  • lýsing Írlands og Grænlands
  • norðurljós
  • húskarlar og hirð
  • vopn, orrustur á sjó og landi
  • dómar og strangleiki þeirra
  • dómar guðs og Gamla textamentið
  • andleg þjálfun konungs

(Magnús Már Lárusson byggir á þýðingum frá 1768 og 1920)

Austan um land
ljóð eftir Sigurð Óskar Pálsson, útgefin 2001 af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi

fæddur 1930 í Breiðuvík sunnan Borgarfjarðar eystri, ólst upp þar og í Geitavík

þekktur fyrir ritstörf, fræðimennsku og gamanljóð en hefur farið dult með alvarlegri ljóð sín.

Fyrsta bók hans, yrkir um frið, ást og náttúru átthaganna

lágvær og persónulegur tónn

Veistu ef vin þú átt, minningar Aðalheiðar Hólm Spans
Þorvaldur Kristinsson skráði
Forlagið 1994

f. 20. september 1915 á Eysteinseyri við Tálknafjörð. Muggur o.fl.

18 ára – starfsstúlknafélagið Sókn, fyrsti formaður.

verkalýðs og stjórnmálabaráttu kreppuáranna

1946 fluttist til Hollands með Wugboldt Spans

lífsviðhorf
eldhúsið í Utrecht, Holli, Spinoza

Séð og munað – ljóðaerindi
Christian Matras.
Gefin út í Færeyjum 1978, þýdd af Þorgeiri Þorgeirssyni 1987.
Þorgeir gaf mér bókina ásamt mörgum bóka Williams Heinesen árið 1989.

Christian Matras fæddur á Viðareiði, nyrstu byggð Færeyja árið 1900. Lést 1988.

Hann menntaði sig í Höfn, í návígi við William Heinesen og Jörgen Frantz Jacobsen.

Las norræn mál við Kaupmannahafnarháskóla ,varð doktor 1933 og kenndi við háskólann 1952. Forseti Færeyjadeildar hins nýstofnaða Fróðskaparseturs árið 1965.

Stærstu ritverk tengjast færeyskum bókmenntum, tungu og menningu. Einnig eitt fremsta ljóðskáld Færeyinga.

Enginn hefur ort um færeyska náttúru svo innilega sem hann.

Sókn mín til heimsskautanna
Roald Amundsen
Bókaútgáfan Edda Akureyri 1941

Roald Amundsen fæddur 1872 nálægt Osló.
Frægur heimskautafari.
Ætlaði að verða læknir, en hætti og fór á sjóinn innan við tvítugt.

Hann varð fyrstur til að sigla svokallaða norðvesturleið um Síberíu á skipi sínu Gjóu 1903-6.

Ætlaði norðurpól á Fram, skipi Nansens, en þegar fréttist að Peary hefði náð þangað, hætti hann við og fór á suðurskautið.

Fjórtánda desember 1911 stóð Amundsen við fjórða mann á Suðurpólnum, mánuði á undan Róbert Scott. Sautján mánuðir.

Flaug loftskipinu Norge með Ellsworth, frá Spitsbergen til Alaska yfir norðurpólinn.

Fórst.

Áramótaerindi

Erindi um áramótin 1999-2000

Hljóðneminn

Útvarpserindi 1997

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –