Hugleiðingar

Nína Björk Árnadóttir skáldkona og eitt hundsbit

Seint á níunda áratug tuttugustu aldar var ég boðin í heimsókn á Sólvallagötu 30, heimili Nínu Bjarkar Árnadóttur skáldkonu*1, eftir næturgölt með elsta syni hennar Ara Gísla Bragasyni og fleira fólki. Ekki ólíklega ljóðakvöld og svo ball á Borginni, eins og best gerðist í þá daga.

Ég sat í stofu og birtist þá hundurinn Sókrates, nokkuð aldurhniginn stór hundur og dökkleitur ef mig misminnir ekki. Mér varð á að standa upp og ganga áleiðis til hans í mestu rólegheitum og ætla að klappa honum. Horfði í augu hans eitt andartak og vissi þá ekki fyrr til en að hann endasentist að mér og beit mig í andlitið. Skóf illa þefjandi skolturinn mig frá vinstra auga niður að munnviki svo fossblæddi. Ég fór heim til mín í sjokki og með vasaklút við kinnina. Um morguninn var mér ekki stætt á öðru en að fara á neyðarmóttöku til að láta líta á andlit mitt því sárið var ljótt og hlaupin sýking í allt saman. Ég fékk umsvifalaust stífkrampasprautu og pencillin, tekin voru spor til að loka sári við nef og allt þrifið upp úr sótthreinsandi. Ég var svo heima hjá mér í felum með andlitið stokkbólgið og afmyndað í dagavís uns fór að hjaðna og gróa.

Hart var lagt að mér að kæra atvikið til lögreglu þannig að hundurinn yrði aflífaður og ekki fleirum að tjóni. Sagt var að hundur sem hefði einu sinni bitið myndi bíta aftur. Ég fékk á hinn bóginn innilega bón frá heimili Sókratesar um að hlífa honum, og þá einkanlega eiganda hans, og láta niður falla. Skáldkonan var í öngum sínum og leið vítiskvalir við tilhugsunina um að hennar kæri vinur yrði kannski burtkallaður og það með þessum hætti. Ég velti þessu mikið fyrir mér og á endanum ákvað ég að láta kyrrt liggja því ég gat ekki hugsað mér að hrekkja Nínu Björk, þetta viðkvæma og merkilega skáld, með því að láta aflífa Sókrates. Nóg hafði hún annað á sinni könnu.

Í þakklætisskyni bauð Nína Björk mér heim nokkru síðar, í málsverð ef mig misminnir ekki. Settist ég í sama stól og síðast og kom þá til stofu hundurinn Sókrates, hinum megin í herbergið og sat þar og hengdi haus nokkra stund. Ég þóttist ekki sjá hann, minnug þess hvernig síðast fór og fann til beigs, sem er kannski ekki skrítið. Þá bar svo við að hann lallaði ofurhægt yfir stofugólfið, með höfuð við gólf alla leið, og staðnæmdist fyrir framan mig án þess að líta upp. Ofurhægt leit hann svo upp og lagði því næst höfuðið á hné mitt og stóð þannig alveg kyrr drjúga stund. Hann var sumsé að biðjast afsökunar á framferði sínu. Ég man að ég fékk tár í augun, strauk honum um kollinn og sagði honum að allt væri í besta lagi. Ef hann fyrirgæfi mér glápið og framhleypnina þá fyrirgæfi ég honum að ráðast á mig. Skildum við svo mestu mátar og stundin með Nínu Björk var að vonum góð. Aldrei hef ég fundið til ótta við hunda eða nokkra skepnu síðan og þetta atvik er mér í fersku minni, svo einkennilegt var það og hrífandi.

Árum síðar átti ég eftir að hitta Nínu Björk í sumarbústað við Þingvallavatn, þangað sem hún kom endrum og sinnum til að skrifa. Þá var ég landvörður í Þingvallaþjóðgarði og hafði verið beðin um að líta til með henni, enda var hún ein í húsi og utan sumartímans. Hún var gífurlega þjökuð og leyndi sér ekki að hún glímdi við demóna og var fjarri ljósi. Við gengum stundum um hraunið, hún hélt dauðahaldi í mig. Stundum töluðum við og stundum þögðum við. Hún velti fyrir sér að láta staðar numið á þessum tíma. Þarna átti hún aðeins tæpan áratug ólifaðan en þó eftir að skrifa enn fleiri stórkostleg ljóð og leikrit á þeim tíma. Hún var meiriháttar skáld og ein af þessum manneskjum sem var of fíngerð fyrir veröldina, í það minnsta íslenskan veruleika eins og hann var í þá daga.

Nína Björk kom snemma inn í líf mitt, ég var farin að lesa verkin hennar fimmtán ára gömul. 1982 kom ljóðabók hennar Svartur hestur í myrkrinu út og ég man að ég gaf Ingu Þóreyju Jóhannsdóttur vinkonu minni hana í sextán ára afmælisgjöf eina blíða júnínótt í Húsafelli, þar sem vorlækir sitruðu um grjótvellina og allir steinar voru ýmist fagurbláir eða ljósbleikir uns dagur rann og þeir urðu aftur gráir. Svartur hestur í myrkrinu er ennþá ein af mínum uppáhalds ljóðabókum og ég á hana blessunarlega áritaða af höfundi. Nínu Björk hefur síðar brugðið fyrir í mínum ljóðum og líka svörtum hesti í myrkrinu. Sumt fylgir manni ævilangt.

Við Ari Gísli kynntumst líklega undir tvítugt, eða um 1986. Matthías Johannessen leiddi okkur saman í verkefni fyrir Morgunblaðið 1988, það var að fara um allt land og taka viðtöl við hvunndagshetjur sem hefðu sögu að segja (ég átti í kjölfarið eftir að vera viðloðandi Moggann næstu tuttugu árin). Við vorum einnig á sama vettvangi reykvískra ungskálda á þessum árum, að lesa upp á opinberum stöðum og fá ljóð okkar birt í Lesbók Mogga og bókmenntaritum. Svo áttum við sameiginlegan Sigurð frænda minn Arnarson, prest í Kópavogskirkju, en þeir Ari voru skólabræður. Ari Gísli fór eftir nokkurt nám að vinna með Braga pabba sínum í fornbókabúð fjölskyldunnar og tók svo seinna við rekstri hennar.

Ör hef ég dálítið eftir hundinn Sókrates, sem í minningargrein um Nínu Björk gengna árið 2000 var kallaður snillingshundur, en það kemur ekki að sök heldur minnir mig stundum á gassagang ungdómsáranna og að það sem virðist slæmt getur orðið gott.

(2021)

Nína Björk Árnadóttir fæddist á Þóreyjarnúpi, Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7. júní 1941. Foreldrar hennar voru hjónin Lára Hólmfreðsdóttir og Árni Sigurjónsson þar búandi. Þrettán mánaða gömul fór Nína í fóstur til ömmusystur sinnar Ragnheiðar Ólafsdóttur og manns hennar Gísla Sæmundssonar að Garðsstöðum við Ögur í Djúpi. Ólst hún upp hjá þeim og fluttust þau til Reykjavíkur árið 1946 og voru búsett í Reykjavík síðan.
Nína Björk var gagnfræðingur frá Núpi í Dýrafirði og lauk síðar námi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og stundaði um nokkurra missera skeið nám við leiklistarfræðadeild Kaupmannahafnarháskóla. Hún var skáld og húsfreyja í Reykjavík, á Eyrarbakka og í Kaupmannahöfn. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Ung ljóð, árið 1965 og síðan margar ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, leikrit og ævisögu Alfreðs Flóka. Ljóð hennar voru þýdd á fjölmörg erlend tungumál og leikrit hennar sýnd í öllum hefðbundnu leikhúsunum hérlendis og í sjónvörpum á Norðurlöndum. Hún fékk fjölmargar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarps og var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1989.
Nína Björk giftist 1. sept. 1966 Braga Kristjónssyni bókakaupmanni og eru synir þeirra: Ari Gísli Bragason, Valgarður og Ragnar Ísleifur.
(Minningargreinar í Morgunblaðinu, í apríl 2000).

Kristján frá Djúpalæk og ljóð eftir óþekktan höfund

Vorið 1992 var ég í nokkrar vikur í húsi Davíðs skálds Stefánssonar frá Fagraskógi við Bjarkarstíginn á Akureyri, við skriftir. Ég var þá að leggja síðustu hönd á ljóðabókina Dísyrði sem kom út seinna sama ár. Þarna átti ég góða daga og þáði meðal annars heimboð Jónasar Kristjáns Einarssonar *1, það er að segja Kristjáns skálds frá Djúpalæk, og Unnar Friðbjarnardóttur konu hans. Ég hlýt að hafa rekist á Kristján í bænum á einhverri samkomu og þetta heimboð orðið til þannig, því ég þekkti hann ekki áður. Ég var mjög spennt að fá að hitta hjónin, einkum þó skáldið og þótti fengur að heimboðinu.
Þegar ég kom til hjónanna var Unnur búin að baka pönnukökur og fylla með sultu og rjóma. Kaffið beið rjúkandi. Þetta færði hún okkur Kristjáni í setustofu þar sem hann sat 76 ára gamall og allbrattur í löngum sófa og ég fékk sæti í þægilegum stól gegnt honum. Á milli okkar var borð með bókastöflum, sem var auðvitað tilhlýðilegt. Unnur spjallaði aðeins en settist ekki niður og lét okkur svo ein.

Kristján vildi forvitnast um mig, hvaðan ég væri sprottin, hvað ég væri búin að skrifa og hvert ég stefndi. Ég færði honum ljóðabók sem þá var nýlega komin út eftir mig, Einleik á regnboga sem Almenna bókafélagið hafði gefið út þremur árum áður, eða 1989. Tók hann sér nokkra stund í að glugga í bókina, en varð svo allt í einu strangur mjög á svip og otaði að mér fremstu opnu bókarinnar þar sem ég hafði sett ákaflega fallegt lítið ljóð eftir óþekktan höfund. ,,Þetta er eftir mig! Ég skrifaði þetta! Og hér stendur „óþekktur höfundur“ undir! Þetta er ritstuldur,“ hrópaði Kristján upp úr sófanum og fórnaði höndum.
Nú fór heldur betur um mig og mesti glansinn var af heimsókninni. Ég var algjörlega gáttuð. Og nú sagði ég hinu góða skáldi, eldrjóð og skömmustuleg, hvernig því háttaði að ljóðkornið lenti í bókinni minni. Það var nefnilega þannig að Birgitta Jónsdóttir, vinkona mín og sálufélagi í þá tíð, hafði gefið mér síðurifrildi úr tímariti sem hún hafði fengið með sendingu frá Bergþóru Árnadóttur móður sinni sem þá bjó í Danmörku. Síðan var með fallegri óhlutbundinni mynd í mjúkum litum og svo þessu litla ljóði með sínum stóra boðskap og hljóðar svo: ,,Formæltu ekki steinvölunni/er særir il þína/göngumaður/kannski geymir hún/undir hrjúfri brá/það sem þú leitar/kannski er hún sjálfur/óskasteinninn.“ Og sem yfirskrift hafði ég sett „Um ljóðin“ og undir í sviga „óþekktur höfundur“. Þetta hafði mér fundist ægilega flott og þótt súmmera upp ljóðin í bókinni minni og því haft fremst til skrauts.
Kristján dreif fram stóra og mikla ljósmyndaljóðabók*2 frá árinu 1977 þar sem íslenskir steinar höfðu verið sagaðir í flísar og þær svo gegnumvarpaðar birtu og ljósmyndaðar í allri sinni dýrð, og hann svo samið ljóð sem birt voru við hverja mynd. Þetta var sannast sagna mjög falleg bók og í henni var einmitt þetta umrædda ljóð. Það var ekki um að villast.

Kristján kaus þó að trúa mér varðandi barnaskapinn og heimóttarháttinn (þetta var nota bene fyrir daga internetsins og leitarvélanna), að ég hefði talið mig í bestu vitund um að ljóðið væri ókennt nokkrum og ég mætti því að ósekju fá það lánað. Svo hlógum við dálítið að þessu öllu saman og refilstigum skáldskaparins og fór vel á með okkur. Ekki laust við að við hefðum bara náð einhverjum fallegum tengslum í gegnum þessi afglöp mín. Ég var þakklát Kristjáni fyrir að taka þessu ekki illa. Honum var enda lýst á eftirfarandi hátt í minningargrein: „Kristján frá Djúpalæk, en svo nefndi hann sig jafnan, var yfirlætislaus og hlýr maður í viðkynningu. Hann var eftirminnilegur í sjón og raun. Hár vexti og svipúðigur, augnaráðið oft ofurlítið glettið en hlýtt. Honum var haturlund fjarlæg, en umburðarlyndi huglægt.“ *3

Kristján sagði mér af sínum eigin skáldskap og samferðamönnum á ritvellinum og gaf mér góð ráð varðandi skriftir og sköpun. Þegar lækkað hafði allnokkuð á pönnukökufatinu og kaffið var orðið kalt bjó ég mig til brottfarar og Kristján stakk á mig nokkrum bókum að skilnaði. Þetta var eftirminnileg heimsókn og ég taldi mig lánsama að hafa fengið að kynnast Kristjáni agnarögn og feðra ljóðið atarna.
Kristján lést tveimur árum síðar.

Apríl 2021

(Marcel Duchamp)

Ég sé þig

Erum við manneskjur ekki til í eigin vitund fyrr en við höfum speglast í vitund annarra? Uns einhver hefur sagt: ,,Ég sé þig.“ Er viðnám annarra ígildi lífs? Að máta sig við aðra forsenda þess að vera heill og glutrast ekki niður? Svona eins og hornmátið til að útmæla sig.
Mikil einvera er ekki nema á fárra færi. Flestir í þeim sporum missa fótanna og spóla á veruleikanum – missa jarðtengingu og verða hjárænulegir, utangátta, skrítnir. Enginn er eyland, allt á sér stoð í öðru. Öll erum við börn þessa heims, hlutar af sömu orku.

,,Ég sé þig“.

Um uppreist æru

Í tilefni af orðræðu um uppreist æru til handa voðamenni
Ég man eftir þessum manni á menntaskólaárum mínum. Hann var tíður gestur á veitingahúsum miðborgarinnar og barst mikið á. Í mínum hópi var vitað að hann væri stórhættulegur og að við ungu stelpurnar þyrftum að gæta okkar alveg sérstaklega vel ef hann var í nánd. Stelpur sem höfðu lent í honum töluðu um stóru skrifstofuna hans í austurborginni, stóran partítrukk sem hann notaði á ,stelpuveiðum‘ og hús í Hveragerði þar sem misnotkun fór fram. Hann var illa þokkaður og undirförull hrægammur sem beitti fyrir sig peningum og hugbreytandi efnum til að fá það sem hann vildi.

Þetta dusilmenni var ekki hið eina sem lagði ljótar snörur sínar á þessum tíma en það er gömul saga og ný. Það er undarlegt og hræðilega dapurlegt til þess að hugsa að bernsku-, unglings- og snemmfullorðinsár íslenskra stúlkna skuli enn fara í að reyna að forðast allra hættulegustu rándýrin til að lifa af og reyna jafnframt stöðugt að verjast og herða sig upp gagnvart ofríki og yfirgangi karla í daglegu lífi. Eftir liggja mörg fórnarlömb í valnum. Ég vona sannast sagna að stúlkur dagsins í dag hafi vit á að læra að verja sig með samhjálp og samstöðu, sjálfsvarnarþekkingu og -tækjum, kjafti og klóm. Það er löngu komið nóg.

Ég bið fjölmiðla og allt velhugsandi fólk að láta ekki kyrrt liggja gagnvart því að íslensk yfirvöld hafi veitt manninum uppreist æru. Fyrir fólkið í þessu samfélagi er það í senn kjaftshögg, lítillækkandi og enn eitt alvarlegt brot á trausti.

Birt á Facebook 9. júlí 2017

17. júní 2018

Húslestur á hátíðarpalli 17. júní 2018 á Fljótsdalshéraði
Kæru hátíðargestir.
Síðast stóð ég hér á þjóðhátíðarpalli árið 2010 og minntist þá í hátíðarræðu á ömmu mína Guðlaugu Sigmundsdóttur frá Gunnhildargerði sem var mikil kjarnakona, fædd árið 1895. Hún giftist Pétri Sigurðssyni frá Hjartarstöðum sem var búnaðarskólagenginn og vann frumkvöðlastarf fyrir Búnaðafélag Austurlands við að kenna mönnum að nota plóg og herfi á bújörðum sínum. Þau fluttu suður til Reykjavíkur 1933 í kjölfar heilsubrests afa míns og höfðu þá líka tvívegis misst fjárstofn sinn að miklu leyti, fyrst í lungnaveiki og svo garnaveiki.

Að þessu sinni var ég beðin um húslestur og þá liggur eiginlega beint við að fara í endurminningar Guðlaugar. 1986, tveimur árum fyrir andlátið, var birt langt og ítarlegt viðtal við hana um bernsku hennar, unglings- og fullorðinsár. Þarna eru kynstrin öll af dýrmætum upplýsingum um búskaparhætti og heimilishald, matargerð, uppeldisaðferðir, vinnulag, samgöngur, afþreyingu, heilsufar og lífið almennt.
Ég gríp niður þar sem segir af kaupstaðarferð úr Hróarstungu fyrir svo sem eins og hundrað og tíu árum síðan, sem er í senn mjög langur og mjög stuttur tími, enda tíminn kúnstug skepna.

,,Það var siður að þeir söfnuðust saman bændurnir af þremur, fjórum bæjum og fóru venjulega í lestarferðir allir saman bæði haust og vor. Þeim þótti það léttara, þá var farið yfir Lagarfljót. Það var tíu mínútna gangur heiman frá mér og ofan að Lagarfljóti. Og þar hafði pabbi minn ferju og stundum voru þær tvær, því það svo mikið að ferja alla, önnur ferjan var þá höfð aftan í hinni. Hestarnir voru sundlaðir í fljótinu. Það var mjótt þar, kallaður Rimi og það var ferjað fyrst yfir með hestana og ull og stundum voru hestarnir hafðir aftan í ferjunum, þeir sem voru styggir.
Svo var farið á Seyðisfjörð, um Hjaltastaðarþing og Eiðaþinghá og upp á Vestdalsheiði. Þar tók við langur dalur sem heitir Gilsárdalur. Þar upp á háfjallinu er svonefnt Nikurvatn, stöðuvatn, ákaflega einkennilega fallegt. Í kringum vatnið eru svonefndar Hellur, það var háfjallið sem að farið var yfir. Svo var komið að voða brekkum og farið ofan í Seyðisfjörðinn. Fyrst um Bröttubrekku svonefnda en hún er nú skáskorin og þar er komið ofan í Vestdal ofan í kaupstaðinn.
Svo var ullin afhent og tekið á hestana. Það var alltaf 200 kg á hest, 100 punda poki á hvorum klakk. Þeir fluttu oft trjávið heim. Pabbi minn hann lagði aldrei undir veturinn öðruvísi en að hafa til borð sem að haft var til að smíða líkkistur úr. Eina eða tvær, því við var ekki hægt að nálgast á veturnar ef einhver féll frá. Og þetta var dregið á blessuðum skepnunum. Ef það kom fyrir að einhver dó og enginn borðviður var til heima þá var kannski fengið stórt tré utan af Húseyjarsandi til þess að saga og hefla.
Þegar heim átti að halda varð að leggja fyrst á þessar voða brekkur upp úr Seyðisfirðinum. Taka ofan á Hellum, því þá voru hestarnir uppgefnir. Og það var nú særingarlegt að það var oft haft með sér hey í pokunum til að gefa hestunum, því það var enginn gróður hvorki á Hellunum né í kringum Nikurvatnið. Svo er farið yfir Hellurnar og út Gilsárdalinn ofan undir Gilsárteig eða Hjartarstaði og þar varð enn að taka ofan af hestunum og hvíla þá og lofa þeim að taka í jörð. Síðan var farið út að Gerðisferju og ferjað þar yfir fljótið, tekið þar ofan og sett í ferjurnar af öllum þessum hestum. Þetta stóð svo lengi við að ferja yfir, svona margt og mikið. Úr kaupstaðarferðinni var komið heim með skreið, korn grjón, hveiti, smávöru sem maður segir eins og léreft í treyjurnar og svunturnar og svo bara allt annað sem þurfti að taka úr kaupstað.“

Svo mörg voru þau orð. Og það er svo magnað að við sem erum kannski miðaldra og eldra fólk um þessar mundir tengjum enn við þann veruleika sem forfeður okkar bjuggu við og lýst er meðal annars hér á undan. En unga kynslóðin hefur litlar sem engar forsendur til þess að skilja þessa liðnu tíma og er miklu fremur fólk framtíðar en fortíðar, sem er bara ágætt. En við hin skynjum líklega harla vel hversu lygilega miklar breytingar hafa orðið á tilveru Íslendingsins á örstuttum tíma. Ég segi þá bara: Veldur hver á heldur og bið ykkur öll vel að lifa.

Skríðum úr gamla hamnum

Glettingur, tímarit, 2012

Hugarflug á aðventu 2010

Hlustið nú vel, því ég ætla að bjóða ykkur í hugarflug, hátt yfir jörðinni, inn í skýin, út úr skýjunum, gegnum þrumur og eldingar, yfir svarblátt úthafið og endalausa skóga og sanda.

Lendum hugarflauginni okkar andartak í litlum bæ í Suður-Ameríku. Þarna stendur lítill drengur, á að giska sex ára gamall, einn á sólheitri moldargötu og hann er svo svangur að magaverkurinn ætlar að sprengja hann að innan. Hann horfir soltnum augum á götusala draga kerru með fuglakjöti í átt að markaðinum í hinum enda bæjarins, flugurnar elta vagninn og þeim finnst einnig við hæfi að tylla sér á horaðan búk drengsins. Þessi drengur er munaðarlaus, hann hefur aldrei vitað hverjir foreldrar hans eru eða hvar, moldargöturnar eru heimili hans og náttstaður og hann dregur fram lífið með matarbitum sem einhver getur séð af eða hefur fleygt í ruslið, og vatni úr þorpsbrunninum eða skítugum læk, þar sem hann baðar sig líka stundum.

Nú fljúgum við aftur upp og rennum okkur undir sól og mána, stjörnurnar þyrlast í kringum okkur. Og viti menn, nú staðnæmumst við úti á endalausum sléttum Ástralíu, þar sem næstum ekkert hefur rignt í átta ár. Bithagarnir fyrir búsmalann eru löngu visnaðir, tréin hanga lífvana og bein stórra skepna liggja hvít og vindsorfin á þurrsprunginni jörðinni. Þetta eru nautgripir sem hafa drepist úr þorsta og sulti. Þarna býr unglingsstúlka með foreldrum sínum, í hrörlegu húsi sem einu sinni var reisulegt. Þau fá enn svolítið vatn úr djúpa brunninum sínum til drykkjar fyrir sig og nokkrar kindur, en það verður ekki lengi. Það eina sem þrífst almennilega þarna eru snákar og þeir eru hættulegir.

Þetta er svo niðurdrepandi að við lyftum hugarflauginni á ný upp í himinhvolfið – hvert ættum við að fara? Jú við skulum dengja okkur niður í Rússlandi; þar er allt snjóhvítt og gaddfreðið, frostið er 33 gráður og allt fólkið sem við sjáum á strætinu í borginni er klætt í mörg lög af fötum svo varla sést nema í augun. Hér situr aldraður maður einn í lítilli íbúð, varla meiru en einu herbergi og litlu eldhúsi. Hann getur ekki borgað fyrir olíu til að brenna í hitaofninum í herberginu og þess vegna er honum kalt, svo óskaplega kalt að hann getur ekki lengur hreyft fingurnar og bráðum ekki einu sinni augnlokin. Hann veit að nú lýkur brátt hans langa og erfiða lífi, sem alltaf hefur snúist um baráttu fyrir brauði og olíu til að hita upp þegar fimbulkuldi vetrarins skellur á byggðinni.

Næstsíðasti áfangastaður okkar, hugarflugsfólksins, úr þessari kirkju austur á Íslandi, er risastór sandströnd við Indónesíu. Þar rignir svo óskaplega að regnið frussast aftur upp í loftið þegar það skellur ægiþungt niður á sandinn. Þarna er allt á tjá og tundri því margra metra há flóðbylgja hefur komið utan af endalausu hafinu og sópast langt inn í land, sópað öllum húsunum, kofunum, fólkinu, dýrunum og villtum hitabeltisgróðrinum upp og dreift eins og hráviði um landið. Og sjá, þarna standa á hæðinni fyrir ofan ströndina lítil systkin með foreldrum sínum, halda dauðahaldi í þau, þeim hafði auðnast að bjarga sér undan flóðinu með því að hlaupa upp í hæðirnar. En amma og afi, fólkið í þorpinu þeirra og vinirnir eru öll horfin; hafið hefur kannski tekið þau. Þessi litla fjölskylda hefur misst allt sitt; hús, skepnur og það sem varð börnunum að leik.

Á jörðinni, þessum dásamlega himinhnetti sem siglir í ómælisvíddum alheimsins, eru alls staðar börn, alls staðar fólk. Og við erum hér, í kirkjunni á Egilsstöðum, öll nokkuð vel haldin vonandi, þó okkur sé ljóst að meðal okkar eru börn sem eiga lítið, fullorðið fólk sem berst í bökkum og gamalt fólk sem veltir hverri krónu milli lúinna handa sér áður en henni er eytt. Þarna úti, í öðrum löndum, eru núna á þessu augnabliki óteljandi mörg börn sem hafa það líka gott og njóta öryggis og ástar eins og við hér. En einnig óteljandi mörg börn, strákar og stelpur eins og þið, sem eru svöng, óhrein, kannski veik, og örugglega afskaplega einmana. Þau eru á heitum stöðum og köldum stöðum, í þurrki eða bleytu, niðri við hafið eða uppi í fjöllum. Sum eru fórnarlömb í ljótu stríði grimmra manna, önnur hafa orðið fyrir hamförum náttúruafla. Þessi börn horfa upp til stjarnanna, sömu stjarna og við horfum oft upp til, og þau óska þess heitast að eitthvað verði þeim til hjálpar.

Nú höfum við náð síðasta áfangastaðnum okkar í þessari flugferð ímyndunaraflsins; við lendum með hvissi og gný í okkur sjálfum, á kirkjubekknum í Egilsstaðakirkju, inni í hjartanu okkar rauða, og finnum að við vitum af þessum strákum og stelpum um alla jörðina og að við viljum hjálpa þeim eins og við getum. Af því að við gætum svo auðveldlega verið þar, verið þau, – en ekki hér. Við erum líklega mjög heppin að vera hérna og mega brátt fagna jólum.

Í hjartanu býr það ævintýr að þegar við hjálpum öðrum fyllumst við djúpri gleði og hamingju. Þá fylgjum við englunum. Við skulum geyma vitneskjuna um börn þessa heims, bræður okkar og systur um víða veröld, í hjörtum okkar og alltaf þegar við
mögulega getum hjálpað annarri manneskju, einhverri lifandi veru, hvar sem við erum, hvað sem við gerum, hvert sem við förum, skulum við gera okkar allra besta til að verða henni að liði. Allt heimsins súkkulaði, sætindi og dót kemst ekki
einu sinni nálægt því að gefa okkur þá hamingju og gleði í hjartað sem það að hjálpa og gleðja aðra gefur.

Flutt á aðventustund í Egilsstaðakirkju þriðja sunnudag í aðventu 2010.

17. júní 2010

Hátíðarræða á 17. júní 2010

Háttvirtir íbúar og gestir Fljótsdalshéraðs!

Lýðveldið Ísland á sextíu og sex ára afmæli í dag. Það er roskið í mannárum en bernskt í þroska, vill lengra og meira en það hefur burði til, líkt og barn sem fetar sín fyrstu skref. Lýðveldið okkar er lauslega samanhrærður jafningur úr torfbæjum, tví- og áttæringum, drykkfelldum prestum og skáldum og örsnauðum kotungum og leiguliðum. Út í jafninginn hellt þjóðerniskennd og sjálfstæðisþrá, dálítilli verkalýðs- og jafnréttisbaráttu, háskólamenntun, höfðingjasleikjum og heildsalaveldum, ameríska draumnum og evrópskri menningu, stríði og friði, Sameinuðu þjóðunum og Nató og nú síðast stertimennum fjárglæfranna hátt og lágt og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn flýtur ofan á öllu saman, meðan landið marar í skuldafeninu. Í dag munu svo aðildarríki Evrópusambandsins væntanlega taka ákvörðun um hvort efnt skuli til viðræðna um aðild Íslands.

Okkur er nokkur vorkunn.

En þó ekki svo mjög, því við, í öldudal efnahagslægðar, höfum það samt svo miklu miklu betra en margar aðrar þjóðir heims. Og við erum órjúfanlegur hluti af þeirri heild, samfélagi jarðarbúa, en ekki bara stakstæð og ein, nyrst í heimskautabirtunni. Hér geysa ekki stríð, hér þarf fólk ekki að leita matar á öskuhaugum eða fela sig fyrir ofríki og ofbeldi brjálaðra stjórnarherra eða aftökusveitum bandítta. Og þó náttúran sé okkur stundum óþægur ljár í þúfu líkt og eldgos ársins sýna, er hún fyrst og fremst gjöful og nærandi. Það höfum við einnig fram yfir þær þjóðir sem búa í vaxandi mæli við banvæna þurrka, sem standa jafnvel svo árum skiptir.

Stundum hefur mér virst sem við séum bundin meiri átthagafjötrum en fólk annarra þjóða. Kannski er það einmitt heimskautaljósið og litur grassins, hafið umhverfis, eða niður aldanna í gömlum sögnum Íslendinga. Það er áskorun að skilja að heimurinn allur liggur fyrir fótum, ef maður aðeins kýs svo, en jafnframt að grasið er sjaldnast grænna hinu megin – að hafa yfirsýn en líka rótfestu. Einmitt það er risavaxið og ögrandi verkefni hinna ungu og komandi kynslóða í sundruðum heimi, og sömuleiðis að finna lausnir á því hvernig mannkynið getur komist af á jörðinni til lengri tíma, en eins og við þekkjum öll eru blikur á lofti þar um.

Hvað efnahagsþrengingar áhrærir höfum við áður strögglað og miklu meira en nú. Það eru sjötíu og sjö ár síðan móðir mín flutti af Héraði til Reykjavíkur með fjölskyldu sinni og meðan amma mín baslaði við að koma upp prjónastofu, með afa minn veikan, áttu þau fátt og mamma mín svaf samanhnipruð í kommóðuskúffu og var stundum svöng. Svo vænkaðist hagur Strympu.
Níu árum áður en amma mín fæddist í Gunnhildargerði, var ljósaperan fundin upp og hún var sex ára þegar rafmagn var fyrst framleitt á Íslandi. Það er sem sagt ekki langt síðan við bjuggum við hlóðaeld og tólgarlýsingu, við sem núna streymum straujuð og fín, með greiðslukortin okkar um verslanahallir veraldar.

Og við, hinn íslenski lýður, eigum lýðveldið Ísland, þar sem ríkir lýðræði og frelsi til orða og athafna, innan ramma þeirra laga og regluverks sem við höfum sjálf sett okkur að fylgja. Okkur er stjórnað af þeim sem við höfum sjálf kosið að skyldu stjórna. Við lifum í því kerfi og við þær aðstæður sem við höfum sjálf skapað. Allt er bundið orsök og afleiðingu og lýðfrelsið og lýðræðið þar á meðal. Það er ábyrgðarhluti hvernig með það er farið og þarfnast stöðugrar endurskoðunar, líkt og nú er að gerast, þegar Íslendingar endurmeta öll sín gildi og viðhorf.

Fljótsdalshérað er nafli alheimsins, en hann er auðvitað alltaf þar sem maður er staddur í það skiptið. Hér er okkar varnarþing, skjól í óvissum heimi. Á jörðinni allri eru sjö milljarðar manna, þar af þrjúhundruð og fimmtán þúsund þeirra á Íslandi og á Héraði búa þrjú þúsund og fimm hundruð sálir. Svo við erum hér fá, með mikið landrými og jarðargæði, góða menntunar- og þroskamöguleika, þó nokkuð af atvinnutækifærum og ýmsa efnilega vaxtarsprota. Hér eigum við bæði kjarna fólks, sem lengi hefur búið við þessar krossgötur, sem og hressandi nýliða sem staldra við um skemmri tíma og færa ferskan blæ í mannlífið. Í slíku samfélagi verður ekki stöðnun, að sönnu nokkurt rót á köflum, en ekki kyrrstaða. Ég kaus mér þennan stað af öllum stöðum veraldar til búsetu og hef ekki séð eftir því eitt augnablik. Það er fyrst og fremst vegna þess að hér dafnar fjölskylda mín vel og að á þessum slóðum er mikið mannval og fögur og stórbrotin náttúra.

Sagt var um afmælisbarn þessa dags, Jón Sigurðsson, að hann væri sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, þegar reið á að standa styrkur þó mótdrægt væri að vinna Íslandi sjálfstæði. Þó tvær aldir verði liðnar frá fæðingu hans á næsta ári, lifir minning hans með þjóðinni og endurspeglast í einbeittum vilja okkar til framfara og því að fara stundum töluvert fram úr sjálfum okkur. Hvert og eitt okkar er sómi Íslands, sendiherra landsins og svæðisins sem við komum frá, sverð þess og skjöldur – hver einstök manneskja er ómetanleg og sérstök eins og sjaldgæft villiblóm í garði guðs. Virðum lífsgjafir okkar og umgöngumst þær af þakklæti og heilindum.

Gleðilega þjóðhátíð.

Á sumarvegi, 2008, RÚV

2. júlí 2008
Góðir hlustendur, – velkomnir í þáttinn Á sumarvegi.
Það er eins og endranær, að sjaldan erum við Íslendingar borubrattari en í hásumrinu, þegar veðrið leikur við okkur og gróandinn, dýra- og mannlíf rís sem hæst.
Ég hef undanfarið náð nokkrum dýrindis sólarstundum í hengirúminu mínu heima í garði. Undir kátum fuglasöng og vatnsniði leitar hugurinn víða. Ég fór til dæmis að velta vöngum yfir mannlífinu í kringum mig, og þá einkum því fólki sem markað hefur hvað dýpst spor í mína eigin tilveru.
Mér flaug því til hugar að segja ykkur svolítið frá nokkrum litríkum karakterum sem varðað hafa veginn minn. Þetta voru konur, allar talsvert miklu eldri en ég þegar kynni okkar hófust og áttu sammerkt að vera hreint óviðjafnanlegar.

En áður en lengra er farið út í þá sálma heyrum við argentínsku valkyrjuna Mercedes Sosa flytja lagið Gracias a la vida.

Aðalheiður Hólm frænka mín fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð haustið nítján hundruð og fimmtán. Hugur hennar hneygðist snemma til réttindabaráttu, ekki síst kvenna. Hún tók virkan þátt í verkalýðsbaráttunni fyrir miðja síðustu öld og bar kjör fátækra verkakvenna mjög fyrir brjósti. Hún vann t.d. hjá Álafossi ung að árum og blöskraði þá mjög sú vinnuaðstaða sem konurnar höfðu við verksmiðjuvélarnar.
Einhvern daginn þusti hún á smekkbuxum inn til forstjórans og spurði hvort ætlunin væri að valda konunum fjörtjóni með því að skikka þær til að vera pilsklæddar ár og síð og alla tíð. Hvort þær mættu ekki ganga í buxum til vinnu sinnar, því það myndi stórminnka hættu á að föt þeirra flæktust í vélarnar með voðalegum afleiðingum. Eftir það máttu konurnar í Álafossi fyrst klæðast buxum.

Heiða var einn af stofnendum starfsstúlknafélagsins Sóknar árið nítján hundruð þrjátíu og fjögur, félags sem henni þótti alla tíð afar vænt um og fylgdist náið með, þó fjarri væri. Hún varð nefnilega ástfangin af hollenskum loftskeytamanni í stríðinu og flutti út til hans sumarið fjörtíu og sex. Sá hét Wugbolt Spans og starfaði lengstum við háskólann í Utrecht í Hollandi, þar sem þau bjuggu þorra ævi sinnar. Wugbolt, sem aldrei var kallaður annað en Holli, sendi mér mörg bréf gegnum tíðina, og þau voru öll skrifuð eins og loftskeyti; Heiða frænka þín á Ítalíu að skoða söfn STOP / Ég heima að skrifa sögur úr stríðinu STOP / Kalt veður í Utrecht STOP / Komum til Íslands í sumar STOP – og svo framvegis.
Ég man eftir mér sautján ára gamalli á járnbrautarpalli í Utrect árla morguns. Kona um sjötugt kom aðvífandi á svörtu reiðhjóli, skarpleit með arnarnef, breitt bros og skelmislegt augnaráð. Sagði: „Ert þú Steina frænka mín?“ og bauð mér að setjast á bögglaberann. Svo reiddi hún mig heim til sín, talsverða vegalengd, og blés ekki úr nös. Þannig hittumst við fyrst, að áeggjan föður míns sem hafði alltaf miklar mætur á þessari frænku sinni að vestan.

Í heimsóknum hjá Heiðu var ævinlega risið árla úr rekkju, snæddur staðgóður morgunverður og mikið drukkið af kaffi. Þá var betra að snúa heilakvörninni rösklega í gang, því umræðuefnin við kringlótta borðið í eldhúsinu voru ósjaldan heimspeki, hagfræði, stjórnmál og bókmenntir. Karlar eins og Spinoza, Kant og Nietze komu við sögu, heimsviðburðir og hermang sömuleiðis. Laxness og Kjarval voru fastagestir í morgunspjalli okkar. Svo var gjarnan hjólað út á markað eftir gladíólufangi, kaffi, rauðvíni og grænmeti.

Það var hreinasta þing að fá að vera samvistum við þetta fólk. Maður kom aldrei nokkurn tímann að tómum kofanum. Þetta var svona dálítið eins og að vera í háskóla með endalaust úrval af námsgreinum. Hún frænka mín var leiftrandi greind, hugði alla tíð grannt að mönnum og málefnum og hafði sterkar skoðanir á því öllu saman. Þekkingarþorstinn var magnaður. Hún fylgdist vel með listum og var sérlega vel heima í bókmenntum og myndlist. Enda áttu íslenskir námsmenn í Hollandi, sem gjarnan voru þar við listnám, alltaf athvarf í eldhúsinu hennar. Straumar og stefnur iðuðu ævinlega þar inni og höfðu örvandi og endurnýjandi áhrif á heilabúið.
Stundum lá við ofhitnun símalína þegar við spjölluðum milli landa, símtölin löng og djúp og spönnuðu heimskringluna. Skömmu áður en Heiða veiktist illa af Parkinsons brá hún sér til Sánkti Pétursborgar í Rússlandi, því þangað hafði hana alltaf langað. Þrátt fyrir háan aldur og tvo stafi sveimaði hún þar um borgarstræti og sýningarsali af eldmóði og spurði heimamenn frétta.

Ef einhver vill fræðast meira um þessa mögnuðu konu, má lesa um hana í ágætri viðtalsbók Þorvaldar Kristinssonar, Veistu ef vin þú átt, sem kom út árið nítjánhundruð níutíu og fjögur. Þessi góða frænka mín sem ég sakna mjög, sýndi mér fram á gildi þekkingar og menningar. Lífsþorsti hennar og þekkingarþrá smitaði mig og hún er að mörgu leyti mín helsta fyrirmynd.

Nú skulum við hlýða á Fangakórinn eftir Verdi, sem hefur allt frá frumflutningi í Mílanó árið 1842 verið nokkurs konar óopinber þjóðsöngur Ítala.
Fangakórinn / Va Pensiero úr Nabucco, Giuseppi Verdi.

Víkur nú sögunni til Ernu Sæmundsdóttur, dóttur Sæmundar í Frón, sem allir þekktu hér fyrr á tíð. Erna háði vonlausa baráttu við MND sjúkdóminn þegar við kynntumst laust eftir 1980, nýflutt frá Bandaríkjunum heim til Íslands með dóttur sína og bjó í miðborg Reykjavíkur. Þá var Erna á besta aldri og ég nýkomin í menntaskóla.

Þegar þarna var komið sögu þráði hún mest að geta dansað, en fæturnir báru hana ekki lengur. Tónlistin, gleðin, hláturinn og harmurinn, – eftirsjáin eftir því sem hefði getað orðið; allt markaði þetta líf hennar. Líka ástúð gagnvart fólki og dýrum í sinni tærustu mynd, varnarleysi gagnvart stigversnandi sjúkdómnum og þegar á leið – sú raun að horfast í augu við eigin dauða. Það gerði hún með fágætri reisn og æðruleysi, þrátt fyrir að ótti og dapurleiki sæktu stundum að.

Þær voru óteljandi stundirnar á fallega heimilinu hennar sem við veltumst um af hlátri, sungum hástöfum með til dæmis Fjórtán fóstrbræðrum og Frank Sinatra eða skældum yfir lasburða dýri eða manni, – og stundum yfir okkur sjálfum. Ég skildi aldrei hvernig hún, þessi fallega og gáfaða kona, nennti að eiga sálufélag við mig, – en slíkt var samband okkar. Meira að segja mamma mín sagði Ernu vera mína aðra móður. Orðið æðruleysi öðlaðist inntak þessi ár sem við áttum saman.

Ernu Sæm hefði líkað næsta lag vel, en það er gamli slagarinn They can‘t take that away from me eftir Georges og Ira Gershwin, sungið af gamla jálkinum Rod Stewart.

Konurnar mínar voru fleiri. Bíbí Jones til dæmis, en hún hét raunar Þorbjörg Jónsdóttir, var frá Akureyri, en bjó bæði í Englandi og seinna í Reykjavík. Við kynntumst þegar ég var á fjórtánda árinu, ég sendill á löggustöðinni í Reykjavík og hún geislandi skrifstofustarfsmaður þar og um fertugt.

Leiklistin var Þorbjörgu hjartfólgin sem og öll menning. Hún hafði háþróað fegurðarskyn og frábæra næmni gagnvart fólki. Að hlæja með henni var eins og lífs-elexír, að fá faðmlag frá henni dugði manni til gleði næstu daga og vikur, slíka hjartagæsku og hlýju veitti hún fólki í kringum sig í óhömdum skömmtum.
Yfirskilvitlegir hlutir voru henni daglegt brauð og ég held að bæði álfar og huldufólk hafi sest að í húsi hennar og eiginmannsins Þórarins – og búið þar í góðu yfirlæti. Þegar bænahringurinn þeirra kom saman í húsinu stóðu ljósbogar upp í gegnum þakið og hátt til himins og hefðu dugað til að lýsa alla borgina þegar svo bar undir.

Bíbí Jones var drottning og prímadonna og satt að segja stóðu allir og sátu eins og hún vildi, án þess að hún bæði um slíkt, – fáguð ljónynja og heimsborgari sem hún var. Fólk fór jafnan frá henni með gleði í hjarta og sterkari vissu um góða eiginleika sína. Meira að segja meðan hún barðist við krabbamein og laut í lægra haldi var hún með bros á vör og glens. Bíbí Jones sannaði satt að segja mátt kærleikans og gleðinnar fyrir mér.

Annar sterkur kvistur á lífstréinu var Uta Loose, listakona sem ég bjó hjá um skeið í Þýskalandi. Hún flýði Austur-Þýskaland í skottinu á brauðbíl föður síns rúmlega tvítug, undan harðýðgi og drunga og dansaði með kabaretthópum víða um Vestur Þýskaland, uns hún festi ráð sitt. Þá giftist hún háttsettum opinberum embættismanni og settist að skammt frá Hamborg, í húsi þar sem myndlist og tónlist réðu ríkjum, yndæl náttúra var utan dyra og hartnær fjörtíu íslensk hross í gerði skammt frá.

Við Uta settumst iðulega með hvítvínsglas út í trjálundinn við froskatjörnina og ræddum þjóðmálin og tilfinningalífið – og þá gjarnan undir villtum tónum frá Tom Waits eða Janis Joplin. Eða riðum saman út í skógunum dægrin löng. Ég man að sérstök virðing var borin fyrir máltíðum á heimili hennar. Alltaf var vandað vel til hráefna og meðhöndlunar og sérstök alúð lögð við eldamennskuna. Uta sagði að leggja þyrfti ástúð í matargerðina til að fæðan nýttist kroppnum rétt. Hún leit aldrei í kokkabók, heldur hugsaði um áferð og ilm hráefnanna og notaði þau eftir tilfinningu. Hjá henni fékk ég margar óviðjafnanlegar uppskriftir sem ég nota alltaf annað veifið. Líka legg ég mig fram um að láta tilfinninguna ráða í matargerðinni og það tekst bara stundum býsna vel.

Uta var ákaflega falleg kona sem klæddi sig óvenjulega og skar sig hvarvetna úr. Hún var stolt, mjög listræn og næm, leitaðist stöðugt við að mennta sig og þroska og ófeimin við að vera manneskja með tilfinningar. Það kom skýrast í ljós þegar Uta gekkst við kenndum sínum til kvenna og eignaðist þýska ástkonu. Sú var heimilisvinur og alltaf inni á gafli. Húsbóndinn lét sér þetta lynda þótt ótrúlegt megi virðast, enda átti hann sjálfur hjákonu í Hamborg, ógurlega ísdrottningu með uppsett aflitað hár, eldrauðan varalit og kulda í svipnum. Fjölskyldulífið gat orðið dálítið flókið á köflum vegna þessa, – og jafnvel hádramatískt.

Ég hreifst mjög af Utu vegna þess að hún var svo mikil manneskja og þorði að vera hún sjálf í hvívetna. Svo var hún firna-flínkur málari í þokkabót, hvort sem var í olíu eða vatnslitum, afbragðsgóður klæðskeri og hafði lag á hrossum.

Hér held ég að sé við hæfi að gera kúnst-pásu og fá hinn ráma Tom Waits til að syngja um Matthildu.
Tom Waits, Tom Traubert‘s Blues, Walzing Mathilda.

Elsa Velázquez var enskukennari í Mexíkó og mjög pólitísk. Við kynntumst nítján hundruð níutíu og þrjú í borginni Toluca og áttum mikil samskipti um hríð. Hún þráði að leggja sitt af mörkum til að bæta kjör almennings í þessu stóra, yndislega og galna landi og lagði nótt við dag í þeirri baráttu. Mér er sérstaklega minnisstætt þorp sem við heimsóttum, þar sem hvorki var rafmagn, né rennandi vatn og ekkert símasamband eða póstsamgöngur. Enginn vegur lá til þorpsins og það er hvergi skráð á landakorti. Þarna bjuggu um þrjú hundruð manns við sárustu fátækt. Við þurftum að hoppa af járnbraut og ganga langa leið gegnum skógarþykkni til að komast á staðinn.

Elsa sýndi mér hörkuna og misréttið sem þjóð hennar hefur svo lengi verið föst í – og bað mig um að bera skilaboðin áfram, ef vera kynni að það yrði til hjálpar. Þrautsegja, þjóðernisást og réttlætiskennd var henni í blóð borin og þó var hún svo mjúk og settleg, að ókunnuga hefði tæpast grunað hvað hún fékkst við utan enskukennslunnar. Hún hvarf í pólitískum hreinsunum stjórnvalda árið nítján hundruð nítíu og fimm og vinir hennar sögðu mér síðar að hún hefði aldrei snúið til baka og væri án efa látin.

Síðasta konan sem ég ætla að segja ykkur frá á Sumarvegi, er Kristbjörg Gestsdóttir frá Múla í Aðaldal. Hún bjó seinni árin á Egilsstöðum þar sem ég kynntist henni. Hún var hafsjór af sögum og ljóðum og sannur sagnaþulur. Fór með ljóðbrot eftir Guðmund Böðvarsson, Jóhannes úr Kötlum og Snorra Hjartarson og átti ljóðlínur við hvert tækifæri dagslegs lífs.
Hún var eina manneskjan sem ég hef þekkt sem tók iðulega upp símann til að segja mér andaktug, frá alveg sérlega vel skrifuðum setningum í bókum.

Henni sagðist alltaf svo skemmtilega frá, hvort sem voru sveitasögur úr Aðaldalnum eða af stjórnmálavafstri og jafnréttisbaráttu sem hún tók mikinn þátt í á árum áður, bæði á Akureyri og Egilsstöðum. Hún var málsvari lítilmagnans og hafði fyrir lífsmottó að láta aldrei börn eða málleysingja fara óbætt hjá garði. Hún hafði miklar áhyggjur af jafnréttismálum og ekki síst því að enn væri launamunur karla og kvenna mikill.

Kristbjörg, sem yfirleitt var kölluð Kibba, hafnaði lífsgæðakapphlaupinu algjörlega. Hún og maður hennar, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur, áttu sér einhvers konar tímalaus vé á Egilsstöðum, þar sem menning í sinni víðustu mynd, vísindi og heimspeki áttu griðland. Þangað streymdi jafnan merkisfólk af háum og lágum stigum, að ógleymdum álfum og huldufólki, og tíminn leið við skoðanaskipti, kaffidrykkju og reykingar. Menn sem máttu ekki reykja heima hjá sér komu til Kibbu til að fá sér vindil í friði og spekt – og fá hugljómanir. Svo varð ævinlega heilagt í húsinu þegar þátturinn Víðsjá hófst á Rás eitt.
Þessi kona kenndi mér umfram allt mannúð, samhyggð og bókaást.

Þær sex konur sem ég hef nú sagt ykkur örlítið frá eru allar látnar. Ég undrast heppni mína að hafa fengið að kynnast og læra af þeim. Þær eru kyndlar mínir á lífsveginum og enn tala ég til þeirra við ákveðin tækifæri.

Að maður er manns gaman er ekki ofmælt og í erli nútímasamfélagsins er vert að muna það. Stund með góðri manneskju er mikilvæg andleg næring og það sem situr eftir þegar hismið er skilið frá kjarnanum í leiðarlok.
Að svo mæltu kveð ég og þakka áheyrnina.
Nýdönsk, Horfðu til himins.

Lesandi vikunnar, 2003, RÚV

12. janúar 2003.

Bækur sem fjallað var um:

Konungs Skuggsjá – Speculum Regale

eitt örfárra norskra miðaldarita sem varðveist hefur

skrifað um 1250, höfundur óþekktur en hugsanlega Einar Gunnarsson smjörbakur frá Hálogalandi, sem var erkibiskup í Noregi

sonur spyr – faðir svarar, form algengt á hámiðöldum

Konungur segist muni ræða um kaupmennsku, konungshirðina, prestskap og bændur. Síðari tvo þættina vantar. Annað hvort ekki skrifaðir eða týndust einhvers staðar á þeim 750 árum sem liðin eru

  • ávöxtun fjár
  • veðurfar og árstíðir
  • sjávarföll, lögun jarðar
  • undarlegir og fáséðir hlutir
  • eldsgangur og landskjálftar á Íslandi (35)
  • skíðamenn
  • hvalir í Íslandshöfum
  • lýsing Írlands og Grænlands
  • norðurljós
  • húskarlar og hirð
  • vopn, orrustur á sjó og landi
  • dómar og strangleiki þeirra
  • dómar guðs og Gamla textamentið
  • andleg þjálfun konungs

(Magnús Már Lárusson byggir á þýðingum frá 1768 og 1920)

Austan um land
ljóð eftir Sigurð Óskar Pálsson, útgefin 2001 af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi

fæddur 1930 í Breiðuvík sunnan Borgarfjarðar eystri, ólst upp þar og í Geitavík

þekktur fyrir ritstörf, fræðimennsku og gamanljóð en hefur farið dult með alvarlegri ljóð sín.

Fyrsta bók hans, yrkir um frið, ást og náttúru átthaganna

lágvær og persónulegur tónn

Veistu ef vin þú átt, minningar Aðalheiðar Hólm Spans
Þorvaldur Kristinsson skráði
Forlagið 1994, endurútgefin 2022.

f. 20. september 1915 á Eysteinseyri við Tálknafjörð. Muggur o.fl.

18 ára – starfsstúlknafélagið Sókn, fyrsti formaður.

verkalýðs- og stjórnmálabaráttu kreppuáranna

1946 fluttist til Hollands með Wugboldt Spans

lífsviðhorf
eldhúsið í Utrecht, Holli, Spinoza

Séð og munað – ljóðaerindi
Christian Matras.
Gefin út í Færeyjum 1978, þýdd af Þorgeiri Þorgeirssyni 1987.
Þorgeir gaf mér bókina ásamt mörgum bóka Williams Heinesen árið 1989.

Christian Matras fæddur á Viðareiði, nyrstu byggð Færeyja árið 1900. Lést 1988.

Hann menntaði sig í Höfn, í návígi við William Heinesen og Jörgen Frantz Jacobsen.

Las norræn mál við Kaupmannahafnarháskóla ,varð doktor 1933 og kenndi við háskólann 1952. Forseti Færeyjadeildar hins nýstofnaða Fróðskaparseturs árið 1965.

Stærstu ritverk tengjast færeyskum bókmenntum, tungu og menningu. Einnig eitt fremsta ljóðskáld Færeyinga.

Enginn hefur ort um færeyska náttúru svo innilega sem hann.

Sókn mín til heimsskautanna
Roald Amundsen
Bókaútgáfan Edda Akureyri 1941

Roald Amundsen fæddur 1872 nálægt Osló.
Frægur heimskautafari.
Ætlaði að verða læknir, en hætti og fór á sjóinn innan við tvítugt.

Hann varð fyrstur til að sigla svokallaða norðvesturleið um Síberíu á skipi sínu Gjóu 1903-6.

Ætlaði Norðurpól á Fram, skipi Nansens, en þegar fréttist að Peary hefði náð þangað, hætti hann við og fór á Suðurskautið. Hinn 14. desember 1911 stóð Amundsen við fjórða mann á Suðurpólnum, mánuði á undan Róbert Scott. Sautján mánuðir.

Flaug loftskipinu Norge með Ellsworth, frá Spitsbergen til Alaska yfir Norðurpólinn.

Fórst.

Lífsgátufélagið

Uppskrift að stofnun heimspekifélags;
vitrænni, tilfinningalegri og heimspekilegri samræðu.

Tilurð félagsins
Lífsgátufélagið var stofnað 4. nóvember árið 2001 á Fljótsdalshéraði. Stofnfélagar voru tveir og kom hugmyndin að félaginu til vegna knýjandi þarfar á samræðu sem næði nær kjarna viðfangsefna en dagleg umræða gefur tilefni til.

Send voru í upphafi bréf ásamt upplýsingum um starfsemi og tilgang félagsins til sjö aðila, sem stofnendum sýndust geta átt heima í slíkum félagsskap. Flestir tóku áskoruninni og mættu til fundar, öðrum var á seinni stigum boðin þátttaka og voru mest 14 í félaginu. Frá upphafi samanstóð hópurinn á Fljótsdalshéraði af konum eingöngu, en ekkert er því til fyrirstöðu að hafa blandaðan hóp.
Ástæða þess að sett var fram uppskrift að Lífsgátufélaginu er sú staðreynd að þáverandi hópur gat ekki tekið inn öllu fleiri félagsmenn, en utanaðkomandi áhugi á starfseminni var mikill. Því var ákveðið að gefa út uppskrift að félaginu, sem dafnaði einkar vel frá upphafi og veitti meðlimum mikla ánægju og margvíslegan fróðleik. Reglur félagsins eru einfaldar og dugðu til að halda hópnum saman án vandkvæða allt fram til ársins 2009 en þá var starfsemi lögð niður enda ber að hætta hverjum leik þá hæst hann stendur. Síðan hefur verið stofnað Lífsgátufélag á Fáskrúðsfirði og það starfað í nokkur ár.

Tilgangur
Lífsgátufélagið er umræðuhópur um lífsgátuna; óformlegur spjallhópur um hvað eina sem viðkemur mannlegri tilveru. Leitast er við að nálgast ólík viðfangsefni frá sem flestum hliðum og rannsaka þau og ræða frá vitrænum, tilfinningalegum og heimspekilegum forsendum eftir mætti.

Starfsemi
Hópurinn starfar í megindráttum þannig að einn aðili í senn stjórnar fundi. Sá aðili er valinn af fundinum þar á undan.
Stjórnandi leggur út af umræðuefni fundarins í byrjun og gefur svo orðið laust til næsta manns.
Hver þátttakandi tjáir hug sinn um umþóttunarefnið í tiltekinn tíma, sem verður að vera innan óþægindamarka. Heimilt er að þegja ef mönnum hentar betur.
Viðurlög eru við því að grípa fram í fyrir mælanda og ákveður fundurinn þau viðurlög.
Þegar allir í hópnum hafa látið ljós sitt skína er orðið gefið laust og upphefjast þá opin skoðanaskipti án sérstakrar stjórnunar.
Trúnaðar er æskt af fundarmönnum.

Umgjörð
Æskilegt er að fundarhúsnæði sé á hlutlausum vettvangi, þ.e. ekki heima hjá félagsmönnum.
Félagsgjöld eru engin, utan ca 100 króna í félagssjóð.
Hópurinn hittist tvisvar í mánuði, ef þykir henta.
Þátttakendafjöldi hvers hóps er takmarkaður við 12 til 14 einstaklinga. Ekki er mætingarskylda, en æskilegt er að 5 til 8 manns komi á hvern fund.
Mæti félagi ekki fjóra fundi í röð, án haldbærra skýringa, fellur hann af félagaskrá.
Umfjöllunarefni eru ákveðin af fundarmönnum og reifuð í sérstaka fundarbók.
Inntaka nýrra félaga skal samþykkt af öllum félagsmönnum.
Félagar koma með eitthvert munngæti til að gæða sér á meðan á fundi stendur.
Uppskeruhóf félagsins er haldið að vori ár hvert.
Fundir leggjast af yfir sumartímann.

Bréf sem send voru út ásamt upplýsingum um félagið hljóðuðu svo:

Kæri viðtakandi,
Okkur hefur orðið hugsað til þín í tengslum við heimspekifélag sem við stofnuðum í nóvember 2001 og lifir góðu lífi. Við stofnuðum Lífsgátufélagið fyrir fólk sem þráir líkt og við að eiga skoðanaskipti sem gefa ferskum hugsunum byr og vekja áleitnar spurningar um lífið og tilveruna. Við sáum okkur knúnar til að mynda einhverslags vettvang fyrir þröngan, en knáan hóp fólks (kvenna til að byrja með, eða uns hópurinn ákveður annað) sem getur þjónað sem pallborð hugsana og vangavelta um hvaðeina sem leitar á.
Hér meðfylgjandi er lýsing á fyrrnefndu pallborði. Fyrir eru í hópnum rúmur tugur kvenna sem við teljum að hafi þann kraft, greind og víðsýni hugans sem þarf til að knýja hraustlega á hin rammgerðu hlið lífsgátunnar.
Við bjóðum þér að koma með okkur til fundar xxx. Umþóttunarefni fundarins að þessu sinni er xxx.
Sjáir þú þér ekki fært að koma þá, en hefðir áhuga á að vera með í framhaldinu, vildum við gjarnan að þú hefðir samband.
Vinsamlega farðu með þetta sem trúnaðarmál að sinni.
(sign)

Stofnendur og höfundar Lífsgátufélagsins eru Steinunn Ásmundsdóttir og Unnur Sveinsdóttir.

Þess má til gamans geta að þetta félag starfið í 8 ár samfleytt og var þá sett í hvíld. Endurreist á Fáskrúðsfirði og starfaði um nokkurra ára skeið þar.

Hugleiðing um áramót 1999-2000, RÚV

Hljóðneminn, 1997, RÚV

Bréf til vinkonu, 1994

Hjartans vinur (S.E.).
Við mættumst á brúnni og um stund horfðum við saman á straumharða elfi lífsins. Reyndum að muna hvar finna mætti lygnan straum, en við vitum það ekki. Ekki enn. Brátt verðum við ekki lengur saman á brúnni heldur stöndum við sinn hvorn enda hennar og köllumst á. En við munum hittast aftur. Mætumst þá og horfum saman í deiglu tímans.
Hafðu ástúðlegar þakkir fyrir að koma vandræðabarni til hjálpar þá er það ráfaði vegalaust um ókunna heima.
Ég hef séð þig í margbrotnum lífsspeglinum, sé í honum hafið stóra og fjarlægðir en einnig nálægð vinarins.
Vertu öllum góðum vættum falin.

Predikun í Þingvallakirkju, 1994

Jólavaka 1987

Jólavaka flutt í Egilsstaðakirkju á aðventu 1987.
Ég tek þig með mér burt frá stórkostlegri hringiðu hversdagsleikans og býð þér sæti á áhorfendabekk, í fremstu röð.
Við horfum á margvíslegt fólkið gusast til og frá eftir votri hellulögninni, í óða önn að kaupa sér tíma og jólagjafir.
Já – furðar þú þig ekki á að enn eitt skiptið eru að koma jól? Þau virðast koma í röðum og hverfa út í loftið jafn skyndilega og þau komu. Sjáðu til, þetta þreytta fólk hér fyrir framan okkur hefur jólin utan á sér en ekki svo mjög innan í sér. Það er hálfpartinn búið að gleyma því að jólin séu annað en svallveisla stórkaupmannsins, man það kannski í ógreinilegri hendingu þegar það hringast máttvana ofan í sófana eftir allsherjarhreingerningar og ofát.
Við hér á áhorfendabekknum, ég og þú, finnum kannski til þess að værum við lítil börn, leitandi og skæreygð, fyndum við í gömlum sálum okkar hvað jólin eru. Ég spyr þig hvort þú vitir hvað ég meina og þú segist halda að þetta geti verið einhver svona tilfinning, bæði í hjartanu og maganum á þér. Við samþykkjum að þetta sé eitthvað skylt friði og mannelsku sem eigi að vera innan í höfðum okkar, ekki í innkaupapokum á hraðferð í jólaljósum Bankastrætisins. Svo náttúrulega vitum við að fólkið þarna hefur þetta líka í höfðinu, það má bara ekki vera að því að hleypa þessari tilfinningu inn um eyrun og út um augun og munninn.
Við brosum bara góðlátlega og okkur hefur tekist að draga gluggatjöld sálarinnar frá, þessa stund sem við dvöldum hérna. Við ákveðum að hittast aftur, því annars munum við gleyma að við höfum enn tækifæri til að heimsækja þennan lífsins áhorfendabekk af og til. Við kveðjumst með hlýlegum jólaóskum, fullum af kærleika og þjótum inn á meðal fólksins.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –