Ný ljóð

Ég lít á undirsíðuna Ný ljóð á Orðlist.is sem mínar persónulegu þvottasnúrur þar sem ég hengi splunkuný ljóð út til að þau taki sig og viðrist. Þau eru ófullgerð og fara síðar, eftir frekari úrvinnslu, annað hvort í safn óbirtra ljóða eða í ljóðahandrit, eftir atvikum.

°

Stríð

stríðin eru rekin
af karlmönnum

skelfilega útleikin
börn konur gamalmenni
sundurtætt í rústunum
ýmist dauð eða hálfdauð
brennimerkt ofbeldi
valdafýsn ofsatrú
og grimmd karlmanna

hvernig dirfist þið?
vogið ykkur
að ösla yfir
hnignandi jörð
með stríði
á hendur okkar
allra hinna?

ég er allar konur

börn mín eru öll börn

við erum þau öll

og þið eruð morðingjar
með saklaust blóð
á höndum ykkar

°

Tjaldurinn er kominn en ekki lóan

átökin milli vetrar og vors eru hafin
svartþröstur særir vorið fram
með dillandi söng frá dagrenningu
og skógurinn kliðar af kvöldljóðum
fram í myrkur þótt snjói rigni blási
moldarangan brýst fram
dagur smálengist
verður léttara yfir
vonin byltir sér í brjóstinu

°

Þinn tími

hversu frelsandi
er ekki hugmyndin
um að þú missir
aldrei af neinu

af því að tími þinn
og veruleiki
raungerist alls ekki
nema í því
sem þú upplifir
hverju sinni

þannig skapar þú
tíma þinn
tilveru þína
um leið og þú
gengur lífsveginn
tapar ekki af neinu
heldur eignast sífellt
þínar stundir
þínar upplifanir

annað er ekki til

°

Stjörnuhrap

Um nóttina
ökum við burt
frá borgarljósunum

nemum staðar
á niðdimmum sveitavegi
stígum út í döggvað lyngið
leggjumst í móann

lognvær haustnóttin þögul
dauft sólsetursblik
á vesturhimni

við greinum stjörnurnar
á íhvolfri festingunni
Venus skærust stjarna

brátt nema augu okkar
stjörnuhrap – og annað
og enn annað

þau teikna hraðar
hvítgeislandi línur
í myrkrið

við horfum hrifin á
loftsteinadrífuna

– Óríónítana
og óskum okkur

°

Saga úr búðinni
(eða úr helvíti)

Í búðinni
á bak við rekka
lemur lítill drengur
enn minni bróður sinn
sem rótar í hillum

öskrar á hann
að hætta
meðan móðirin
er á kassanum
að tína vörur á bandið

hann lemur barnið
aftur og aftur
og ströng augu
mín og annarra
líta hann ávítandi

spörkin og höggin
eru yfirþyrmandi

móðirin afskiptalaus
gegnsýrð hörkunni

og ég fæ ekki varist
þeirri hugsun
hver örlög hins
berjandi drengs séu
milli útkeyrðrar móður
og markalauss barnsins.

°

IMBHIR
(samrennsli vatns)

vatn fló
reis og hneig
til tungls

ítum hreinsun
landi velgjörð
lungu gaju

í straumnum
fugl í hvíld
og knerrir fífla
til heljar

°

Fugl

Kannski var ég fugl
í fyrra lífi,
farfugl
sem kom í íslenskan móa
til sumarásta.

Því hef ég sungið við lóur,
drukkið í mig raddir fuglanna
í hverju landi,
í hverju andartaki.

Hreiðrið mitt er fullt af fuglum,
á veggjum, borðum, gólfum
í lofti,
ég safna fjöðrum og fiðri,
stari til himins eftir fuglum á flugi,
á vetrum set ég grasgræna
skjámynd á tölvuna
og hlusta á upptökur
af fuglasöng
til að lifa af.

Síminn minn hringir lóusöng.

°

Austantjalds 1978

Við vorum fölleitur hópur,
ferðalangar úr votu íslensku vori,
sátum í andlausu biðrými
með bakið í vegginn
undir hríðskotabyssukjöftum
og hugsuðum hvort vegabréfin
myndu skila sér til baka

– við komast áfram
úr þessu milliverki helvítis.

Tempelhof austan járntjalds.

Svo leið og beið,
tekið á loft.
Næsta stopp Sofia
þar sem við vorum afgreidd
inn í landið við kertaljós
og gengum örna okkar í
myrkar gólfholur.

Í Varna var þess gætt
að við hittum ekki heimafólk.

Þetta var ferðalag
um tómarúm kommúnismans.

Rútan okkar liðaðist um auðar götur
fögur Svartahafsströndin eyðileg
Varnabúum bægt frá
og þeir sem við þó hittum
mállausir og daufir til augnanna.

Í rósagarði Rúmeníudrottningar
skaust dökkleitur maður undan runna
og hvíslaði:
Dollars sir, dollars please!

Kúgunin lá eins og blæja yfir öllu
í glitrandi sólskininu.
Meira að segja blómgróðurinn
hafði yfir sér einstæðingslegan blæ
og söngur fuglanna var hljómlaus.

Við, þessir fölleitu vorferðalangar,
úr landi tækifæranna (samanborið)
níddumst á fátæktinni og ófrelsinu,
sugum í okkur sól og kræsingar
af borði örbirgðar og örvæntingar.

Fórum svo heim með óbragð í munni.

°

Hiti í Sevilla

Hitinn er óbærilegur.
Á Constitución næstum enginn á ferli
í skerandi miðdegissólinni,
hvítleitar marmarastéttir aðalgötunnar
eins og ofnar í þykkri breyskjunni.
Fólkið hefur flúið niður til Guadalquivir
og fleygt sér í ána á grynningum.
Meira að segja í dómkirkju heilagrar Maríu,
stórri og kaldri ásýndum,
við kistu Kólumbusar þar sem
fjórir steinrunnir verðir hennar
Aragón, Castilía, León og Navarra
standa eilífan vörð,
er engan svala að hafa
né undir kirkjuturni Giralda,
þungum veggjum Alcázar.
Nei, sólin skín vonskulega
eltir hvern skugga uppi,
hvern rakadropa,
hún skín af hvítglóandi heift
þess sem engu eirir.
Leitum skjóls milli appelsínutrjánna.
Patio de los Naranjos er þyrrkingslegur,
hitinn hefur verpt græn laufin.
Vatnsbirgðir fara til fólksins,
ekki gróðursins,
í þessum bakarofni sögunnar
þar sem Don Júan, Don Quixote, Cervantes,
Velázques og Carmen
gerðu garðinn skínandi frægan.
Við ætlum að fara héðan
norður á bóginn,
eins fljótt og auðið verður.
Dumbungur og súld,
– ferskur vindur af hafi
er skyndilega
allt sem við þráum.

°



°

Kæri lesandi. Ný ljóðabók, Fuglamjólk, kom út hjá Dimmu í október 2023 og fékk ljómandi móttökur.

Í deiglunni er ritun ævisögu merks náttúruvísindamanns, til útgáfu 2024 hjá Skruddu.

Nú held ég áfram þaðan sem frá var horfið að birta hér nýborin og hálfköruð ljóð. Þau tínast á pappírinn hægt en örugglega, koma til mín fullsköpuð og setjast á skrifbókina eins og framandlegir fuglar, komnir langt að.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –