Einleikur á regnboga

Byrja ungskáld ekki alltaf á því að moka innan úr sér sjálfum áður en þau geta skrifað um veröldina umhverfis? Mér var í það minnsta þannig farið. Mig rekur minni til að hafa legið mikið á hjarta og lifað í töluverðum gauragangi. Það var annað hvort að skrifa ellegar tortímast.

Mér þykir vænt um þessa bók því hún er bernskubrek skriftaáráttu minnar og góð sem slík. Ég er líka afskaplega skotin í myndinni sem Inga Þórey Jóhannsdóttir, myndlistarmaður og fornvinkona mín, málaði fyrir mig til að hafa á bókarkápu. Önnur góð vinkona og myndlistarmaður, Inga Lísa Middleton, vann 5 ljósmyndir fyrir bókina.

Einleikur á regnboga:

Olíumálverk á forsíðu; Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Ljósmyndir Ingu Lísu Middleton:

Mynd 1


Mynd 2


Mynd 3


Mynd 4


Mynd 5

Vefur Ingu Lísu

Um Ingu Þóreyju

Sex ljóð úr Einleik á regnboga í enskri þýðingur Martin Regal:


Morgunblaðið 16. desember 1989

VEGGUR Í EINSKISMANNSLANDI

Talað við Steinunni Ásmundsdóttur um ljóðabók hennar


„Eins og sjúkur maður er tregur til líkamsvinnu, þannig er hinum heilbrigða óljúft að hugsa. Hvort tveggja er andstætt lögmáli náttúrunnar. Hugsunin er sjúkleiksmerki eða að minnsta kosti ávöxtur ójafnvægis og truflunar.“ Þannig kemst Martin Andesen Nexö að orði í formála fyrir fyrsta bindi endurminninga sinna, Tötrinu litla. Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til þessara orða Nexö þegar ég las ljóðabók Steinunnar Ásmundsdóttur, Einleikur á regnboga. Steinunn er aðeins 23 ára gömul en samt yrkir hún um þjáninguna eins og gamla leiksystur. „Ég þekkist á gráum pels“, hafði hún sagt, en svo var hún komin úr pelsinum og sat með hann við hlið sér við kringlótt borð og skrifaði. Ung skáld verða að nota hverja stund til að skrifa. Þannig þroskast þau og verða hagvön í landi skáldskaparins. Þetta hugsa ég og sest á móti hinu skrifandi ungskáldi. „Ég er sannfærð um að ég myndi veslast upp og deyja ef ég fengi ekki að skrifa,“ segir hún þegar hún verður mín vör. Fljótlega stöndum við upp til þess að ná okkur í hressingu og komum okkur því næst aftur að hinu út kjörna borði. Hún hafði sagt mér að kaffihúsið Tíu dropar væri rólegur staður. Mér finnst það öðru nær þessa stundina, helst er svo að sjá sem allar gönguþreyttar húsmæður bæjarins haldi þarna þing. Í kliðnum frá málþinginu tökum við Steinunn upp tveggja manna tal.
Steinunn er Reykvíkingur, alin upp við Háaleitisbrautina en segist samt ekki vera borgarbarn hið innra. „Ég er náttúrubarn og stundum fer ég að gráta úti í náttúrunni af því hún er svo fögur. Borgin þrúgar mig,“ segir hún og brosir svo nettar og þéttar tennur speglast í gljáandi kaffibollanum. Hún hrærir í bollanum með stórri teskeið og leggur hana svo frá sér. Fingur hennar eru langir og grannir – píanófingur? Mikið rétt hún lærði á hljóðfæri í tíu ár. Ætlaði meira að segja um tíma að verða jassisti en komst að því að hún hafði ekki lengur í sér að impróvisera (spinna laglínu) eftir hið klassíska nám. „Undarlegt að þú skulir þá yrkja,“ segi ég. Hárið meðfram öðrum vanganum er miklu lengra en í hinum og virðist enn lengra þegar hún hallar undir flatt og hugsar um orð mín. „Hefði ég ekki komist í eins konar lífsháska væru þessi ljóð ekki til og án þeirra væri ég ekki eins og ég er í dag. Þessi ljóð eru kafli úr lífi mínu sem er liðinn en er mér samt alveg ómissandi.“ Hún segist líta á lífið einsog skóla þar sem menn verða að þreyta alls kyns prófraunir, stundum falla menn og þá verða þeir að taka upp námsefnið á ný. En eru þá kvæðin hennar einhverskonar prófverkefni? Jú, hún samsinnir þessari hugmynd. „Ljóð mín eru tilfinningalegs eðlis. Ég hef lengi hugsað of mikið, þegar hugsanirnar urðu of yfirþyrmandi þá féllu þær í farveg ljóðsins, það gerði lífsháskinn. Ég gæti aldrei ort svona ljóð aftur. En þó reynslan sem þau spruttu af væri mér dýrkeypt þá myndi ég engu breyta þó ég gæti. Stundum sakna ég meira að segja dramatíkurinnar sem áður ríkti í lífi mínu þó ég að öðru leyti sé fegin að komast úr myrkrinu og ganga nú brautina í ljósi.“

I

Ég hef stritað
með líkama mínum
sál minni.
Hlaðið þennan múrvegg
stein fyrir stein.
Vegg sársaukans.
Ég hef grátið
kastað mér á jörðina
beðið um miskunn.
En blóðrisa hendur mínar
halda áfram verkinu

endalausu.

II 

Svo komst þú óvænt
utan úr blámanum
og blést niður vegginn
svo auðveldlega
Ég hafði haldið
að þjáningin
festi saman skörðótta steinana
og þyldi vind veðranna
en svo var ekki.

Ég byrja á nýjan leik
biturleiki styrkir von mína.
Hann skal rísa
ég falla.

Veggur í einskismannslandi.

Ljóð ungra skálda eru forvitnileg af því að þar kveður stundum við nýjan tón. Þegar einhver nýr kveður sér hljóðs á þessum vettvangi þá sperra menn eyrun. Hvernig gengur þessum tiltekna einstaklingi að koma í búning hugsunum sínum og tilfinningu? Eftir að hafa kvatt Steinunni og haldið út í rökkvaðan desember daginn velti ég fyrir mér þeirri stóru spurningu hvenær menn séu skáld og hvenær ekki. Enn leita ég í smiðju Nexö: Einnig mætti segja að allir menn væru skáld í misjafnlega ríkri merkingu. Sorg og gleði, von og örvænting, draumur og hugsjón, allt er þetta hvers manns eign, að því leyti sem hann megnar að lifa það með sjálfum sér. Að vísu er ekki öllum gefið að færa það í skáldlegan búning, þó að flestir reyni það jafnvel á stundum. Milli skáldsins og hinna er vissulega ekkert djúp staðfest, – ekki einusinni grunn göturenna. Það er einmitt skýring þess, að þeir geta notið verka hans. Ekkert skáld getur gefið lesanda sínum meira en hann er fær um að veita viðtöku.“

Guðrún Guðlaugsdóttir

Morgunblaðið 17. nóvember 1989

Í DJÚPUNUM

Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson


Í ljóðinu Gljáandi heimar yrkir Steinunn Ásmundsdóttir: Hér í djúpunum/ erum við meira fyrir þjáninguna. Þetta gæti verið sameiginleg stefnuyfirlýsing þeirra Steinunnar Ásmundsdóttur og Birgittu Jónsdóttur. Það er þó þyngra yfir Einleik á regnboga eftir Steinunni en Frostdinglum Birgittu. Angist hjartans, grimm holskefla ranghverfra strauma, farg áranna, undanhald, blómsveigur haturs, hengiflug sannleikans eru dæmi um yrkisefni Steinunnar. Í Vængjaslætti líkir hún sér við dúfu með lítið óttaslegið hjarta og smáa kraftlausa vængi. Hún bíður þess að verða stór og flögrar um á meðan. Lokaerindið er uggvænlegt og gefur í skyn myrka reynslu: Stundum finnst mér/ að það sé hjartað/ sem vill ekki fljúga/ fremur en vængir mínir./ Ég held/ að ef ég reyndi,/ flygi ég afturábak/ með vænghaf fortíðarinnar/ á móti mér.

Nægtir er ljóð sem fegrar ekki heimsmynd samtímans, en tónn þess finnst mér ekki vonlaus heldur ögrandi:

Sortnar fyrir augum
af þreytu
yfir brothættri gleði.
Brosi
á bak niðurbældra orða
ósagðra.
Hvers er krafist
í heimi
annars en að brotna ekki
of auðveldlega
heldur gráta ísmolum
framan við hlæjandi tjöldin?

… Steinunn og Birgitta eiga báðar margt eftir ólært í ljóðagerð. Mál beitingin er stundum viðvaningsleg, ögun skortir og þeim hættir til að endurtaka sig. Þær eru byrjendur sem hafa ýmislegt að segja og þurfa að læra mikið áður en þær senda næst frá sér bækur.

Morgunblaðið, 1. nóvember 1989

Almenna bókafélagið:
ÞRJÁR ljóðabækur ungra skálda eru komnar út hjá Almenna bókafélaginu, þeirra Steinunnar Ásmundsdóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Birgittu Jónsdóttur. Útgáfan er liður í átaki félagsins til eflingar íslenskri ljóðlist. Ljóðabók Sigmundar Ernis Rúnarssonar fréttamanns nefnist Stundir úr lífi stafrófsins og er þetta þriðja ljóðabókin sem hann sendir frá sér. Í frétt frá Almenna bókafélaginu segir, að ljóðin séu þrauthugsuð enda hafi bókin verið árum saman í smíðum. Annað skáldið er Steinunn Ásmundsdóttir og er Einleikur á regnboga fyrsta ljóðabók hennar. Bókin er sprottin úr reynslu henn ar af dekkri hliðum lífsins. Í henni eru ljósmyndir eftir Ingu Lisu Middleton. Fyrsta ljóðabók Birgittu Jónsdóttur nefnist Frostdinglar og myndskreytir hún einnig bók sína. Fram kemur að ljóðin séu persónuleg og áleitin.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –