Óprentuð eldri ljóð

Á barnum

Einn er hann í þögninni,
svartri og leyndardómsfullri.
Á öldurhúsum borgarinnar
eru staupin barmafyllt gleymsku.
Hann er einfaldur og tvöfaldur
sem sitja saman við barinn
með yfirlýstan heimsborgarasvip
og eru á öndverðum meiði,
þó að jafnaði fylgist þeir að
og líkist einum manni.

Einn er hann í þögn
sem bergmálar af hávaða,
þegar einfaldur og tvöfaldur
gráta báðir saman í einu.

.
.
.
.

Að jaðri lyginnar

Kattargul augun
hlæja hástöfum
því ég fylgi þeim
að jaðri lyginnar.

Svo dökkna þau
af grimmd
senda mig á brott
syrgja mig ekki.

En ég læri fljótt.
Hlæ því með
af öllum kröftum
sýg ég í mig
sorgir annarra.

1988

.
.
.
.

Afi Matthías

Ljúfur maður
lifði um stund
inni á milli
hárra fjalla
og dala.
Hann gekk
sinn veg,
með íhygli
og umburðarlyndi
hafði hann lífið
með sér
á sinn hæga máta.

Hann þótti góður,
heiðarlegur
og trygglyndur.
Börn hans uxu úr grasi,
bak hans bognaði,
lágreist byggðin
átti hjarta hans.

Hann hvílir friðsæll
í minningu barna sinna.
Þau muna föður
með dapurt en hlýtt hjarta,
góð augu og
vinnulúnar hendur,
í skuggsjá liðins tíma.

Í tilefni 100 ára afmælis Matthíasar Guðmundssonar, í febrúar 1988.

.
.
.
.

Andrá

Andarsteggir með fjólublá
og grænglitrandi höfuð
vappa stoltir við tjörnina í dag.
Allir hafa þeir eignast fagurbrúnar
og hnarreistar æðarkollur
fyrir förunauta út í sumarið

skríkja af sælu
andarsteggir kátlegir
í hamingju augnabliksins.

1988

.
.
.
.

Andvaka

Kvöl nístir brjóstið
ég engist
í margar nætur
ekki fundið frið
til að hvílast.
Þrekið dvínar
áþreifanlega.

Hangi uppi
af gömlum vana
fyrir aðra.
Langar mest
að fleygja mér niður
í hlýja moldina
og loka augunum.

1988

.
.
.
.

Ást

Blikandi úthaf draumsins
um volduga bylgju lífsþorsta og ástríðna.

Viðkvæmur gróandi vonar
eftir tilgangi og vernd.

Margsaga eilífðaralda sem brimar við
sendna strönd veruleikans.

Snemmsprottinn söngur hjartans
þráir einingu tvístraðra anda.

Svo umlykjandi og trú sjálfri sér
í óstýrilæti sínu og hamsleysi.

Brothætt í ólgandi röst tímans
þar sem mannsbörnin velkjast.

Ástin.

(2017) Endurgerð Brúðkaupsljóðs

.
.
.
.

Blekug dægur

Penninn ákvað að skrifa
svona allt í einu
eftir orðlausan vetur
og napran kulda.
Það stoðar greinilega lítt
að ætla að krefja penna sagna,
þvermóðskan verður bara meiri.

En nú er mér ekki lengur
undankomu auðið
frá blekugum dægrum.

Kaupmannahöfn, 1992

.
.
.
.

Djassmenn

Blása djassmenn
villtu lífi
blóðs og svita,
í æsingshita
strita

næturgalnir
í tónþokum.

1988

.
.
.
.

Eftirsjá

Ég reyndi að sjá þig.
gegnum társtokkin augu,
brosið – varnir þínar.
Kom ofurlaust við strengi
í sál þinni,
heyrði aðeins bergmál
gamalla tóna
– hljóðnaðra.

Ég hef glatað þér
elsku vinurinn minn.

1990

.
.
.
.

Ég skal dansa

ég brenn upp í andleysi – athafnaleysi
þoli ekki við því sólin er blindandi
máninn slokknaður og
allt að visna innra með mér.

áður fyllti máninn mig
unaðslegri tunglsýki um nætur og
ég gat öskrað af sársauka
án þess að skammast mín

bý í öngstræti

ég ætla að dansa á gröf þinni, tími!
dansa svo tryllt að þú vaknir og
komir úr dauðanum vaknir af dvalanum
hreyfist og skekist og þá get ég lifað á ný

hrapa ofan í framtíðarpyttinn
í æðisgengnum fögnuði

Svíþjóð 1990

.
.
.
.

Faðir

Faðir,
hvar ertu?
Ég sakna þín,
sakna leiðsagnar þinnar.
Ertu hjá mér faðir?
Vertu hjá mér,
ég þarfnast þess að finna
kærleikann,
muna kærleikann
í faðmlagi þínu
faðir.

1994

.
.
.
.

Gamlar ástir

Gamlar ástir
kunna að fyrnast
en kjarninn situr eftir
í sálinni
eins og steinn,
skarður svartur demantur
og það er sárt.

1990

Gamlárskvöld 1987

Tchaikowsky dansar léttfættur
inn á milli kertaljóss og matarilms,
hátíðleikans og glettninnar.
Hugsanir mínar þjóta með músíkinni
langsum eftir gamlárinu
og hver um aðra þvera.

Ég heyri að þetta ár
hafi verið lengt um eina sekúndu,
það gefur aukinn tíma til eftirsjár.

.
.
.
.

Gangstéttirnar hvískra

… og tíminn líður og bíður ekki
verður bókvitið í askana látið
getur þú lánað mér hundraðkall fyrir brauði?

einn á rölti um bæinn
það er rökkur og vorið er að fara að sofa á milli trjánna
– undir vængjum þrasta
enn á rölti um bæinn og gangstéttarnar hvískra
leyndarmáli um auðnarlega gráa liti og einmanaleika
hann hvíslar á móti að þær skuli þegja
því hann ætli ekki að hugsa neitt
og allra síst um einmanaleika
sest svo á tóman bekk framan við runna
með sofandi vori í og fer að gráta
og er bara aleinn í hugsanaleysi sínu með ekkert
í farteskinu nema magnvana angist
þess sem fær ekki sofið um nætur
heldur eigrar um flatneskjuna
og bíður þess að vorið læðist fram undan þrastarvængjum
og fylli morgunbirtuna hlýju

hann býr í ferhyrndu húsi og veggirnir anda köldu
gagnsæjar rúður boða vetur vor sumar eða haust eftir atvikum
loftið er lágt og gólfið ber vott um hversdagsleika
hann þykir innilokaður í hugsun og atferli
er það nokkur furða sé tekið tillit til aðstæðna?
um nætur dreymir hann um ímyndunarafl
og að hann búi í víðáttunni
en það er náttúrulega aðeins draumur
röddin svo langt í burtu en samt inni í honum í iðrunum

1990

.
.
.
.

Harold Pinter

Heimkoman.

Ískaldur biturleiki
hlátur
í hárbeittum skopleik
leiksvið fullt af hatri.

Kulblátt vatn
umlykur mig
í raunveruleik
nýliðins tímaleysis.

1988

.
.
.
.

Hol

Tár mín streyma
niður kinnarnar
sársaukinn
brýtur sér leið.

Finnst ég vera
enginn.

Til tortímingar
sigli ég
óðfluga.

1988

.
.
.
.

Í Hrútey

Sæl geng ég blómstíga sumars
heitsætur ilmur lyngsins
lausfingruð gola leikur við húðina
blóðberg milt á tungu
sætukoppar mjúkbitrir
hnyklaðar rætur varða veginn

það ilmar – allt ilmar
veröldin ilmar í dag!

Stend þungt á sterku bjargi
skagar fram yfir ána
læt óttann drjúpa fram af
út í árstrauminn
sem ber hann strítt til hafs

straumurinn tekur
tekur óttann
tekur leiðann
einmanakenndina

Sólin fyllir líkama og anda
lífshlýju og þökk
sól og ilmur fylla
kviðinn og sálina

ilmurinn og vonin.

Ég geng blómgötur
stíginn til hafsins
og kæli þreytta fætur
í rótlausri haföldu
hins mjúka svarta sands
þar sem fljót mætir hafi

á straummótum
nýtt upphaf.

2019

.
.
.
.

Í húsi Carls von Linné í Uppsölum

Tíminn sefur á máðu þrepi.
Allt er þögult og kyrrt.
Þó sem fortíðin andi köldu
mót okkur sem ekki skiljum
hvað gekk á í þessu húsi,
hvaða hugsanir og þrár
bjuggu í þeim sem stigann gengu
aftur og aftur
til móts við örlög sín og dauða.

Þar brann eldur þess
sem krafðist inngöngu um bakdyr lífsins,

– leitaði, fann, týndi
og tapaði öllu.

Gömul þrep segja sögur
og veggirnir hvísla orðum.

Við göngum um húsið

– segjum ,,skemmtilegt safn!“
því við heyrum ekki óminn …

og haustið vakir
á okkar nýhöggnu þrepum.

Svíþjóð, 1990

.
.
.
.

Klausturorð

Jólaljós bregða hvikulli birtu
á þungbúið hundraðáraafmæli
húkandi í skugga ógeðfelldra orða
sem reynast munu mönnum dýr.

Þó nokkrar konur krefjast afsökunarbeiðni og iðrunar.
Þúsund konur krefjast nýrrar stjórnarskrár.
Allar konur krefjast réttlætis
— að kúgun, sora og ofbeldinu linni.

Getið þið karlar ekki verið til friðs?
Manni dettur í hug mengi sem leitast við að
útrýma sjálfu sér — innan frá.

Mikið er þetta aumt.
Mikið er þetta hættulegt.
Mikið er ég þreytt á þessu.

2018

.
.
.
.

Kúla

Bý í kúlu
afmarkaðs lífs
meðan aðrir hnettir
annarra tækifæra
og lífsforma
þjóta hjá

sit þá af mér
í tímaleysi
sem þjakar mig.

1990

.
.
.
.

Leikslok

Spegilmynd glassins
í augum hans.
Ölvun liðinna tíma
hvolfist yfir
og gullinn fljótandi heimur
sest að í höfðinu
líkt og lygi.

Situr á gömlum stað
við háværa götu
í skyndilega ókunnri borg.
Hjartað lemst í brjóstinu
og blóðið sýður í æðum.
Leiftur minninga endasendast
um höfuðið.

Ljósin renna saman í móðu,
leikslok í myrkrinu.

1988

.
.
.
.

Lou Reed

Nótt með Lady Day
á regnvotum strætum.
Þú glampar í pollunum
sem skuggi þinn svo gárar.
Nótt í Berlín.

Gráar slæður hylja þig,
sinnið dapurt, – dofið,
óraunverulegur kvíði
fyrir raunveruleika
sem þú vilt helst ekki sjá.
Hjarta þitt er eyðimörk
sem hrópar á ást
eða kannski sársauka,
svo þú vitir með vissu
að þú ert enn til
en ekki bara skuggi.

Nótt með Lady Day,
tregablandnir tónar
eirðarleysis og óvissu.

Nótt í Berlín.

1984

.
.
.
.

Mercedes Sosa

Tónar
gamlir
togaðir
eins og úr
gömlu bíóorgeli
lamaðir af rafhlöðuþorsta
ylja mér
í ókunnu landi
í pínulitla
,,mínum heiminum“
halda þeir
utan um mig
og veita öryggi.

Þýskaland 1995

.
.
.
.

Mynd

Ég ramma sjálfa mig inn í aðstæður.
Myndin í rammanum
er af hamingjusamri konu.
Aftan á rammanum er spegill sjö vondra ára
sem endurkastar efasemdum mínum
út í ónýtta möguleikana.

.
.
.
.

Námuhestar

Við erum margvafin í kjaftæði.
Leggjum lífið í sölurnar
við að hringsnúast um ekki neitt.
Þykjumst ákaflega mikilvæg,
þó í reynd séum við hjákátlegt
og án merkingar.

Margþvæld í vef ránmaura
sem hafa byggt yfir okkur
völundarhús tilgangsleysis,
þar sem við puðum
daginn út og daginn inn
eins og námuhestar.

Kannski klappar okkur
einhver á öxlina
áður en við líðum út af,
í þakklætisskyni fyrir að
hafa fórnað árum okkar
á altari tilbúnings.

Ég vildi heldur sitja ein á háu fjalli
fjarri fánýti heimsins
og njóta þagnar
við sólarupprás,
en að tortíma anda mínum
við kulnaða elda.

2017

.
.
.
.

Óratoría

Tryllandi ómstrítt
frá kjallara upp í rjáfur

tekst á loft
tignarleg hvolfþök
æða um hlustir
hjartað sveiflast
í hraðtakti
hver tónn
smýgur inn um vitin
skilur eftir þrá
hávaðasama þögn
ólgu í hjartanu

blindgötu augnabliksins.

.
.
.
.

Rauðklædda konan

Rauðklædd kona
gekk framhjá
á sandströnd
við Húnaflóa
þar sem ég sat
berfætt á steini
og skrifaði í bók

gekk aftur framhjá
á bakaleiðinni
hún hélt á myndavél
horfði einkennilega á mig
eins og hana langaði eitthvað

er ég hafði tekið saman
föggur mínar og gekk upp á
brimvarnargarðinn sat hún
á bekk við bílastæðið
eins og hún væri að bíða

ég leiddi hjólið hægt burt
það var ekki laust við
að mig langaði
langaði að nema staðar
veifa til þessarar konu
sem líklega var að
bíða eftir sjálfri sér.

2019

.
.
.
.

Fyrsta ljóðið

Skóhlífaljóð

Morguninn skín eins og nýburstaðar skóhlífar,
maðurinn kemur heim og fer úr skóhlífunum.
Trjákróna slæst við gluggann
og gefur umhverfinu undarlegan svip.
Húsið tómlegt og illa hirt,
engin börn að leik,
ekki hinn ómissandi lífsandi.
Aðeins maður
og gljáandi skóhlífar.

Það líður á daginn,
myrkrið læðist hljóðlega
eftir þröngum götum og skúmaskotum.
Værð sígur á borgina
en brátt mun hún lifna á ný
og glansa og skína
sem nýburstaðar skóhlífar.

1980

.
.
.
.

Sonur

I

Lítið barn sefur,
hjúfrar sig í skjóli rökkurs.
Úti bíður veröld
full af ljósum og litum lífsins.
Hin ósnortna sál
krýnist ástinni
og voninni

II

Hann réttir fram lófann
að höndla birtu lífsins
nýkominn til veraldar
fegurðar og ljótleika
brosir hann
mót foreldrum sínum
lofar þeim gleði
með eilífðarblik í augum.

Dýrmætust gjöf
þessa fallvalta lífs
sonur
borinn til ástar.

1988 – skrifað um Frímann, son kærra vina.

.
.
.
.

Sumargalsi

Sumarið er komið
sem sést best á því
að ungir menn
íklæðast pálmaskyrtum
og byrja að stara
á eftir leggjalöngum konum
í Austurstrætinu.
Tapa svo reisn sinni
í djúpum hyl
vínglasanna á barnum.

Svona munu þeir vera
uns sumarið fer burt
af einskærri blygðun
yfir heiminum.

.
.
.
.

Tár

Hvert fór ég?
spurði gráklæddur maður.

Á vit mánans
svaraði ég.
Ég sá þig þar
sem rigningarský
særðan og tunglsjúkan
með uppgjafarsvip
og blikandi tár á hvörmum.

Hvert fer ég?
spurði maðurinn dapur
en þó með forvitni.

Til stjarnanna
að blika sem tár þín forðum.

Ekki verður feigum forðað
né ófeigum í hel komið.

1988

.
.
.
.

Tími

Fuglinn flýgur
þversum á tímann
og er alltaf nýr
en maðurinn ferðast langsum
til tímanlegra endaloka.

1990

.
.
.
.

Tjaldhælar helvítis

Veltu fyrir þér hvers vegna.
Til hvers eiginlega.
Að sitja undir því sama aftur og aftur.
Vesenast við að trúa einhverju
sem maður veit að er haugalygi.
Haldandi eitthvað
sem er byggt á sandi.
Vera þar sem engu máli skiptir.
Sálin slapandi,
ófær um að taka til sín
nokkuð nema ruður.
Manni hefur svo sem
dottið í hug að segja upp.
Taka flugið yfir lífslygina
og njóta útsýnisins.
Ef ekki væri fyrir tjaldhæla helvítis,
blessaða samferðarmennina.

2017

.
.
.
.

Undrun

Það var eitt kvöldið
að þú komst til mín
og augun þín
— þau voru

já — þau voru öðruvísi.

Óendanlega mild,
svo djúp og ástúðleg,
ég fékk verk í hjartað
af því ég sá svo skýrt
ást þína á mér.

Og ég er alltaf jafnundrandi,
því ég taldi víst
að mig gæti enginn elskað.

1990

.
.
.
.

Unnarbyr

Lagðir á djúpið.
Væri ei vindur í segl
var lífsfley knúið
afli breytinga
uns byr fengist.
Í þessu hafi
sigldir þú
innan um sæskrímsl,
holskeflur og hákarla,
en líka fínlega sæhesta,
lognöldu og laxfiska.

Hvass og ákveðinn
varð byr þinn
þá er hann kom.
Þeytti þér á ölduföldum!
Undiraldan djúp
og víðfeðm;
vilji þinn og vit,
endurlausn þín.
Andinn upplyftur,
skilningurinn skær,
sálin frjáls.

Þú gerð úr efni
sem þolir átak,
en um leið fínleg
sem þráður silkis.

Vináttan
heiðríkja,
byggð á kærleika
og þekkingarþrá.
Þolir fjarlægð,
þroskast í
tímanum.

17.11.´17.

Til Unnar Sveinsdóttur
fimmtugrar 24.11.2017.

.
.
.
.

Útvegur

Ég er fiskur í búri,
sé ekki út í veröldina,
en ef þú horfir á mig
frá réttu sjónarhorni
sérðu gegnum augu mín.

Spegilmynd mín riðlast
í ljósbrotum hins matta glers.
Reyni að brjótast úr viðjum
en vatnskenndar hugsanir
hafa mig í neti sínu.

Vonir mínar eru loftbólur
sem stíga hljóðlega upp á við.

Ég er fiskur í búri
og ef ég aðeins gæti brotið glerið
sem umlykur mig
þeyttist ég með flaumnum út í lífið.

1984

.
.
.
.

Verndari

Ég er ekki ein.

Óttinn
er alltaf hjá mér
og verndar mig
fyrir hinu góða.

1988
Frumgerð ljóðs sem síðar birtist í ljóðabókinni Dísyrðum.

.
.
.
.

Von

Heimur á heljarþröm.
Furðulegt að vonin skuli enn þrífast
í vonskubáli mannsandans.
Von, sem eins og þrjóskur fífill í vegkanti
lifir í ódæðum okkar.

1990

.
.
.
.

White angel

It was as an white angel had flown by

a precious moment of knowledge,
clear curiosity and motions
meeting of two wandering spirits
always on their slow but steady way to infinite wisdom

that angel
left shimmering footprints on my path
and will be remembered with love

the feeling is as it never came because it never left
it simply is forever
in everything, everywhere.

1990, frumort á ensku

.
.
.
.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –