Á sprekamó

Afmælisrit tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum. Útg. 2005

Lóuþræll

Ég hef elt lóur alla mína ævi. Einu sinni elti ég fallega unga lóu í Hrísey í margar klukkustundir. Talaði við hana á fuglamáli, reyndi að líkja eftir hljóðum hennar, hoppaði milli þúfna eins og hún. Við fórum vítt og breitt um eyna þennan dag og hún lét sig hafa það að ég elti hana. Hefur sjálfsagt þótt ég furðufugl sem vert væri að gaumgæfa. Eða óvenjuleg afþreying í straumi tímans. Ég var margs vísari um lóur eftir þennan dag.

Ég sat fyrir löngu síðan við hlið konu í kennslustund og leiddist fjarskalega mikið. Tók til við að horfa út um glugga og einblíndi út í innrammað vorið, sem var þá í einni hendingu brotið upp af fjórum lóum sem sáu matarvon í grasflákanum utan gluggans. Hnippti í lagskonu mína og benti henni á blessaða vorboðana að háma í sig væna maðka. ,,Jah, líta lóur virkilega svona út,“ sagði hún dræmt og lýsti því yfir að hún hefði hvorki fyrr né síðar haft áhuga á lóum eða öðrum fyglum af nokkurri tegund. Þetta varð mér töluvert áfall, því að ég hélt sannast sagna að ekki væri hægt að vera Íslendingur, hvorki ungur né gamall, án þess að vita gjörla hvernig lóur líta út. Svona er maður vitlaus. Upp úr þessu fór mig að gruna að ég hefði einhverja sérkennilega og jafnvel vafasama lóuáráttu.

Svo var ég eitt sinn að ganga upp á Egilsstaðakollinn snemmvors í blíðu veðri eftir langvarandi hret. Þegar örfáir metrar voru eftir upp á blákollinn heyrði ég þyt, eða öllu heldur djúpan súg og í sama mund flugu svo sem eins og hundrað lóur í þéttum sverm yfir höfuð mitt og einhentu sér niður á túnbleðil við blágrænt Lagarfljótið. Vindurinn undan vængjum þeirra feyktist í andlit mitt og ég fann af þeim nýstárlega lykt sem einkenndist af mold og heitu, blautu fiðri. Á þessu andartaki gekk mitt vor í garð og ég var djúpt snortin.

Það var um nótt í Þingvallasveit að ég sá lítinn fugl hnipra sig saman á miðjum veginum. Hann stóð þarna stjarfur á miðlínunni, upplýstur af flóðljósum bifreiðar minnar og þóttist vera dauður eins og fugla er oft háttur við slíkar aðstæður. Ég sté út og nálgaðist hann varfærnislega. Þetta reyndist þá vera lóuungi, svo agnarlítill að hann hvarf næstum í greip mína þegar ég tók hann ofurvarlega upp. Hann skeit í lófann á mér og hjarta hans barðist svo ótt að ég hélt það myndi springa af áreynslu. Nú hefði ég átt að setja ungakrílið út fyrir veg og leggja að honum dálítinn mosa til hlýinda uns hann jafnaði sig. En nei, ég ákvað samstundist að gerast hinn mikli bjargvættur málleysingja og tók ungann með mér heim. Lagði hann i litla körfu með mosa og grasi og setti hjá honum vatnsskál og brauðmola. Vaktaði krílið svo það sem eftir lifði nætur og hafði þungar áhyggjur, því hann virtist trauðla ætla að jafna sig. Hann dó í dagrenningu og ég hneigist til að halda að ég hafi drepið hann úr umhyggjusemi.

Ein af mínum mestu hamingjustundum var þegar ég fann fyrsta lóuhreiðrið. Ungarnir voru nýskriðnir úr eggjum og voru óttalega pasturslitlir. Vantaði samt ekki ákefðina í ætið. Lífsviljinn fer ekki eftir stærð. Það var sérkennilegt og fagurt að horfa á fiður og fjaðrir í einni allsherjar ringulreið, fíngerðir litirnir farnir að láta á sér kræla og ungarnir allir úfnir og væskilslegir. Og áttu eftir að axla þá hrikaþungu ábyrgð að verða glæstir vorboðar heillar þjóðar, klæðast fagurfiðraðri kápu sinni og komast í hádegisfréttirnar að ári. Greyin litlu. Það er ekki lítil ábyrgð að fæðast til svo göfugs hlutverks. Skyldi þetta vera einhverslags vorboðaduld sem fær mig til að leggja lag mitt við lóur?

Enn skima ég um eftir lóum og legg eyru við hljóð þeirra. Enn tekur hjarta mitt aukaslag af geðshræringu og fögnuði þegar fyrstu lóurnar koma til landsins að vori. Enn fyllist ég óskilgreindri hamingju og værð þegar ég geng móana og heyri lóusöng vefjast í þá íslensku, einstöku sumarsinfóníu sem ekkert, nei ekki neitt á þessari jörð okkar, fær jafnast á við.

Lóur

Heiðlóur hópa sig um haust
í hraunhella að hvíla þar um langan vetur.
Með lauf í nefi leita þær sér griða
og sofa þungt er kaldir vindar næða.

Raskaðu ekki ró þeirra á hraunsvæflum,
þá rofnar líf og dafnar ekki framar.
Við vetrarlok bærast vængir glóðfiðraðir
og vorboðar bera okkur ljúfa tíð.

Birt í ritinu Á sprekamó, tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum. Útg. 2005.

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –