Hús á heiðinni


Ég var um nokkurt skeið landvörður á Þingvöllum og naut þeirra forréttinda að kynnast náttúrufari og sögu svæðisins vel og umgangangast heimafólk, sem allt var hið yndislegasta. Á þessum tíma bjó ég, stundum ein en oftar ásamt fleiri landvörðum þjóðgarðsins, í húsi ofan við Hrafnagjá handan sigdældarinnar heimsþekktu. Húsið nefndist Gjábakki og var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Það var sannarlega hús með sál en nú er það brunnið. Í frístundum mínum skrifaði ég handritið að Húsi á heiðinni við eldhúsborðið í Gjábakka og vann það svo í kjölfarið til hlítar vetrarlangt í Þýskalandi.

Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður og vinkona mín ljáði mér aftur yndisfallegt olíumálverk fyrir forsíðuna og teiknaði aukinheldur baksíðuna líka.

Bókin er fáanleg hjá höfundi og vonandi einnig í Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Inga Þórey Jóhannsdóttir

Cold was that beauty – safn íslenskra náttúruljóða í þýðingu Bernard Scudder.

Umfjöllun

Morgunblaðið, júlí 1996 | Bókmenntir |
Óður til náttúrunnar

Ljóð HÚS Á HEIÐINNI – LJÓÐ FRÁ ÞINGVÖLLUM eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Prentuð í Prentsmiðjunni Hjá GuðjónÓ. 45 bls. Útgefandi er Andblær 1996.

,,Ljóð frá Þingvöllum er undirtitill ljóðabókar Steinunnar Ásmundsdóttur, Hús á heiðinni. Staðsetningin kveikir strax hugsanir um náttúru og sögu í huga lesandans en þetta eru einmitt tvö meginþemu bókarinnar. Í eftirmála hennar segir höfundur að ljóð hennar séu ávextir dvalar hennar sem landvarðar á Þingvöllum í nokkur sumur. Bókina mætti reyndar lesa sem dýrðaróð til náttúrunnar. Í síðasta ljóðinu má lesa þessa lofgjörð:

Megir þú alltaf vera

vaxandi náttúra,

vaxandi uppspretta,

sjálfri þér nóg

um vöxt þinn

og fegurð þína.

Í bókinni eru dregnar upp margvíslegar myndir af lífi bæði manna, dýra og náttúrufyrirbæra á Þingvöllum. Ljóðin lýsa náttúruferlinu; vetur, vor, sumar, haust. Í fyrsta ljóðinu, Öxarárfoss I, er tónninn gefinn þar sem náttúran og tíminn mynda saman sinn órofa vef: „Hvílir/ í böndum// ísfoss// fjötraður/ af fallþunga/ tímans.“ Þetta er vetur en brátt kemur vorið og leysir ísa: „Veröldin umhverfis/ að bráðna saman/ í nýtt upphaf“ (Vorið). Síðan kemur fiskiflugan og „suðar sumarið á gluggann“ (Fiskifluga). En í fyrstu næturfrostum verður allt öðruvísi: „Ármannsfellið fjólublátt,/ söngur fuglanna hljóðlátari/ og ilmur andvarans/ var ilmur haustsins.// Brátt breiða sig logandi litir/ um laufið og svörðinn/ og náttúran sofnar“ (Fyrstu næturfrost).

Sagan er á margan hátt einnig tengd náttúrunni í ljóðum Steinunnar. Lögberg sjálft getur sagt langa sögu lítillar þjóðar: „Segðu mér sögu/ um tilurð þjóðar,/ lítillar þjóðar/ er skóp sig/ í viðjum þínum,// með von um réttlæti/ og farsæld“ (Saga þjóðar). Sagan er einnig nálæg í ljóði um Ölkofra sem sagt er frá í Ölkofra sögu: „Þú varst nú meiri/ ólánsauminginn Ölkofri,/ að brenna skóginn goðanna/ fyrir ofurlítinn lúr/ á miðjum degi kolagerðar“, segir meðal annars í ljóðinu Ölkofradalur.

Ef staðsetja ætti kveðskap Steinunnar væri réttast að segja að hún orti sig inn í hina rómantísku hefð; náttúrudýrkunin og áherslan á söguna eru ekki aðeins til merkis um það heldur einnig stílblærinn sem er eilítið gamall í sér, ljóðrænn og svolítið upphafinn á köflum: „Við svartblikandi/ fjaðrahaminn/ liggur vængstýfð sorg/ augna þinna.“ (Krummaljóð)

Það er annars augljóst að höfundur hefur vandað til þessarar þriðju bókar sinnar sem er ánægjuleg útgáfa á fremur þunnu bókmenntasumri.“

Þröstur Helgason

– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –