Í senn dropi og haf

Ljóðabókin Í senn dropi og haf eftir Steinunni Ásmundsdóttur kom út hjá Dimmu haustið 2019.

Þessi sjötta ljóðabók höfundar hefur að geyma fjörutíu ljóð sem lýsa straumi tíma og atburða í nánd og firrð, umbreytingum, sorg og hugrekki manneskjunnar.
Ljóðin eru ferðalag konu sem brýtur sig lausa úr viðjum og hugsar á þeirri vegferð meðal annars til örlaga annarra kvenna. Rennsli vatns og tíma er alltumlykjandi og fuglar ljá frelsisþránni vængi.

Bókin fæst í forlagsbúð Dimmu og hjá höfundi.


,,Ljóðabókin er heillegt verk með sterkan ramma, þung örlög og hið óumflýjanlega skapa hinn kyrrláta, ógnandi grunntón en fundvísi á hugblikin sem vara stutt en skipta þó sköpum til að ferðinni sé framhaldið er eftirtektarverður eiginleiki sem höfundur býr yfir. Titillinn Í senn dropi og haf er í raun lýsandi fyrir þá kosti sem lesandinn fær upp í hendurnar með ljóðunum enda í þeim innbyggður sjónauki sem sýnir ýmist vítt og breitt eða stutt og nákvæmlega.“ (Eva María Jónsdóttir/SÓN)

Umfjöllun

Orð um bækur – RÚV

Orð um bækur 25.05.2020. (24:30-41.58)

22.06.2020, Jórunn Sigurðardóttir:

,,Skapandi líf einnar manneskju er alla jafna ekki eitt heldur mörg. Til eru höfundar sem jafnvel samtímis lifa ólíkum lífum undir ólíkum höfundarnöfnum. Steinunn Ásmundsdóttir hóf ung feril sinn sem ljóðskáld en svo hvarf hún af sjónarsviðinu. En kom síðan aftur og hefur á síðustu fjórum árum sent frá sér 3 ljóðabækur og eina skáldævisögu auk þess að opna vefsíðu með öllum skáldskaparlífum sínum.
Seint á síðasta ári (2019) kom út hjá bókaútgáfunni Dimmu sjötta ljóðabók Steinunnar sem auk þess sendi árið 2018 frá sér skáldævisöguna Manneskjusaga, sem þó ekki er sjálfsævisaga.

Fyrsta ljóðabók Steinunnar sem heitir því skemmtilega nafni Einleikur á regnboga kom út árið 1989. í kjölfarið fylgdu svo tvær ljóðabækur til viðbótar Dísyrði árið 1992 og Hús á heiðinni árið 1996. Og síðan ekki söguna meir í tuttugu ár en þá opnaði Steinunn ljóðvefinn yrkir.is og bauð þangað öllum sem vilja með hendingunni:

Ég er aftur komin
heim
til sjálfrar mín
þar sem angistin lúrir
en líka sælan og heiðríkjan.

,,Ég á mér nokkra lífskafla, fyrsti kaflinn minn var svona … Já, ég fór hratt yfir og fór víða um veröldina. Ég skrifaði mikið og var í stöðugri sálarangist og ljóðin mín bera svolítið þess merki. Svo kom að því að ég vildi festa rætur og eiga eitthvað sem ég hélt að væri venjulegt líf,“ sagði Steinunn í viðtali við þáttinn Orð um bækur í lok apríl.

Steinunn flutti til Egilsstaða árið 1996 og bjó þar næstu rúmlega tuttugu árin, stofnaði fjölskyldu og starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins á Austurlandi í hartnær áratug og sem ritstjóri héraðsfréttablaðsins Austurgluggans um skeið. Fyrir nokkrum árum dró hún sig í hlé frá fjölmiðlavinnu og gekkst skáldskapnum á hönd að nýju eftir tuttugu ára hlé. „Þetta er einhver þörf sem brennur í mér og ég gekk á hólm við sjálfan mig til að gá hvort ég gæti þetta enn þá. Og það var bara eins og að skrúfa frá krana,“ sagði Steinunn enn fremur. Þar með var nýr kafli hafinn.

Steinunn flutti til Reykjavíkur og sendi strax árið 2017 frá sér tvær ljóðabækur, Hin blíða angist sem inniheldur ljóð frá Mexíkó og Áratök tímans, einnig ljóðabók sem vakti talsverða athygli sem og skáldævisagan Manneskjusaga sem kom út árið 2018.

Manneskjusaga
Manneskjusaga segir frá lífshlaupi ógæfumanneskju, eins og útigangsfólk er oft kallað. „Þetta er saga um manneskju sem var mér tengd (…) Hún átti mjög harkalega ævi og samtíð hennar skildi hana engan veginn, gat ekki greint hennar vanda. Þetta er minnisvarði um konu sem allir gleymdu.“ Steinunn segist hafa fundið hjá sér þörf til að byrja nú að skrifa sögur og það hefði verið dagljóst að þessi saga yrði að koma fyrst.

Enn sem komið er þó ljóðið i fyrirrúmi í skáldskap Steinunnar. Ljóðabókin Í senn dropi og haf inniheldur 40 ljóð sem sum hver fjalla um afar hversdagslega hluti eins og Lada Sport, önnur um náttúruna en flest um ákveðna staði, flesta á Austurlandi. Bókin er ekki kaflaskipt en er haldið saman af stökum ljóðum í þrettán ljóða bálki sem einu og einu er smeygt inn í heildina og ber sá bálkur yfirskriftina „Fjörbrot“.

,,Þessi bók er kveðja mín til áranna fyrir austan. Hún fjallar um aðdragandann að því að skilja og flytja í burt. Ég er að skrifa ýmsar minningar og myndir, sem skiptu mig máli fyrir austan, oft tengt náttúrunni. (…) Það leita á mig minningar en líka einhvers konar veraldarhugsun. Ég held að ég sé að tengja brot úr mínu lífi við eitthvað stærra samhengi,“ segir Steinunn um leið og hún undirstrikar að bókin Í senn dropi og haf sé líklega hennar persónulegasta ljóðabók.

Ljóðspretta

Vaxtarsprotar kúra í jarðveginum,
um leið og dreypt er á þá vatni og ljósi
spretta upp hin margvíslegustu blóm
ólík að lit og lögun, misjafnlega þróttmikil
en öll hafa þau ilm og vilja lifa,
að lesandi ljái þeim vængi.“

SÓN – Tímarit um óðfræði

,,Um þessar mundir eru þrjátíu ár síðan Steinunn Ásmundsdóttir sendi frá sér sína fyrstu bók, Einleikur á regnboga, ljóð (1989). Fljótlega eftir frumraunina bættust tvær ljóðabækur við útgefin verk skáldsins. Eftir um tuttugu ára hlé frá útgáfu ljóða kom svo aftur út ljóðabók eftir Steinunni árið 2017 og árlega síðan. Í fyrra sendi hún að auki frá sér bókina Manneskjusaga, skáldævisaga sem beinir sjónum að þeim sem eru á skjön og passa ekki inn í samfélagið.
Í nýrri ljóðabók Steinunnar er yfirvegaður tónn og myndmál sem vísar í senn til smæðar mannsins gagnvart náttúrunni og stærðar mannlegra örlaga. Myndir af smæstu atriðum náttúrunnar sem megna að lækna djúp sár manna sitja í huganum eftir lesturinn. Verkið er rammað inn af ljóðum sem bera titilinn FJÖRBROT I-XIII. Yfirskriftin ber með sér hættuástand og því vofir yfir öllu verkinu hið óumflýjanlega og erfiða, einhverskonar endalok sem þó eru aðeins byrjunin á annarri óvissuferð (bls. 52):

Klukkunum hefur verið hringt
hljómur þeirra svo þungur
að undirstaðan nötrar.
….

Önnur ljóð bókarinnar taka óhjákvæmilega lit af þunganum sem dunar undir þó þau séu ærslafull og létt yfirbragðs (bls. 10):

Í miðri Evrópu
á rússnesku diskóteki
dansaði ég kósakkadans
eins og ég hefði aldrei gert annað
svo tímunum skipti….

Ljóðskáldið dregur náttúruleg fyrirbæri fram sem hliðstæður við ýmislegt sem gerist á milli fólks, í samböndum, í hugskoti einstaklings. Mörg ljóðanna ná að fanga gæðastundir, sem koma fram sem leiftur en hverfa skjótt inn í svarthol óvissu og varnarleysis. Þetta er vel gert. Eftirtektarvert er hvernig höfundur framkallar kveðjustundir, staldrar við það sem á að yfirgefa, án dóma, með yfirsýn (bls. 24):

Ég geng um húsið og kveð
strýk fingrum yfir hluti
legg lófa að þykkum vegg
sem hefur áður skýlt mér
en er mér nú kæfandi múr….

Ljóðabókin er heillegt verk með sterkan ramma, þung örlög og hið óumflýjanlega skapa hinn kyrrláta, ógnandi grunntón en fundvísi á hugblikin sem vara stutt en skipta þó sköpum til að ferðinni sé framhaldið er eftirtektarverður eiginleiki sem höfundur býr yfir. Titillinn Í senn dropi og haf er í raun lýsandi fyrir þá kosti sem lesandinn fær upp í hendurnar með ljóðunum enda í þeim innbyggður sjónauki sem sýnir ýmist vítt og breitt eða stutt og nákvæmlega.“ (SÓN Tímarit um óðfræði, 17/2019, EMJ)


– Steinunn Ásmundsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld –