2024

NÝTT ÁR FER Í HÖND / nú þarf að æfa sig / á nýja ártalinu / yfirskrifa vöðvaminnið / hafa nýtt ár í huga / uns það verður ósjálfrátt / og smám saman hluti / af núliðinni framtíð / – og fortíð / er heldur ekki / lengur viss um að / taka beri / áramót / svo hátíðlega / sem kaflaskilum / jafnvel nýju upphafi / þetta er jú samfella / línuleg hliðræna / út í ginnungagapið / ártöl aðeins lítilsigldur / mælikvarði mannsins / í tilraun hans til að / hemja fallið

. . .

Ég kveð gamla árið með þakklæti í hjarta. Ljóðabókin Fuglamjólk kom út hjá Dimmu og var vel úr garði gerð eins og allt sem forleggjarinn þar á bæ snertir á. Mér sýnist hún hafa gengið þokkalega í sölu og ratað til sinna.

Ný ljóð birtast mér, koma alsköpuð eins og fuglar úr bláum himni ímyndunaraflsins og setjast á pappírinn. Þau bíða síns tíma; verða yfirfarin og endurbætt eins og gengur og kannski lenda þau einhvern tímann í bók. Það verður þá áttunda ljóðabókin sem ég sendi frá mér.
En nú ætla ég að vera róleg og safna í sarpinn. Önnur ritstörf eru í forgrunni að svo stöddu, ritun bókar um merkan náttúrufræðing og þar handan við skrif nýrrar skáldsögu, þeirrar þriðju.
Blaðamennskan tekur svo auðvitað sitt rými í sköpunarkraftinum.

Það lítur út fyrir að ég hafi orðið gervigreindarþýðingu að bráð. Dani nokkur þræddi sig gegnum Forlagið og til mín sl. haust og upplýsti að hann væri búinn að grófþýða Ástarsögu á dönsku. Þegar ég fékk að sjá hráskjal fyrstu umferðar þýðingarinnar brá mér nokkuð í brún og leitaði til afburða vandaðs þýðanda hér heima, Sigurlaugar Gunnarsdóttur sem m.a. hefur komið að forlaginu Bókstaf. Eftir lauslega skoðun lítur út fyrir að danskurinn hafi keyrt bókina gegnum gervigreindarþýðingu, þýðingarvitleysurnar eru svo augljósar.
Þetta er heldur leiðinlegt og ég bíð átekta um hvað gerist næst og mun leita lögfræðiaðstoðar hjá Rithöfundasambandinu ef slík þýðing fer í útgáfuferli. Meiri vitleysan!
Hafi aðrir lent í viðlíka mættu þeir senda mér línu á steinunnasm(hjá)gmail.com og lýsa reynslu sinni af slíku og lyktum þess.

!
Í veftrénu efst t.v. finnur þú bækur höfundar, óprentað efni, greinar, viðtöl ofl.

Færðu inn athugasemd