Ljóð rekur á fjörur

Þar sem ég gramsa í gömlum pappírum, 10 cm háum stafla af sendibréfum frá gömlum og mætum vini mínum, fann ég í handriti spænska þýðingu ljóðsins Herðubreið. Það er einmitt ljóð sem mér þykir alltaf fjarskalega vænt um og birtist í ljóðabók minni Dísyrðum árið 1992. Þetta var óvæntur fundur.

Ég hef sem sé sent vini mínum þetta í bréfi frá Mexíkó meðan ég bjó þar en ekki geymt þýðinguna sjálf. Þess ber að geta að síðast þegar ég átti stórafmæli skenkti þessi gamli góði vinur minn mér í afmælisgjöf öll bréf sem ég hafði sent honum gegnum tíðina, taldi þau best komin hjá mér, en geymdi að vísu ljósrit fyrir sjálfan sig. Ferðalagið sem felst í því að lesa sjálfa sig tugi ára til baka er furðulegt og dýrmætt.

Birti hér til gamans þýðinguna, hún var unnin af góðri konu sem ég kynntist í Mexíkó en sú hvarf í pólitískum hreinsunum, eins og svo margir aðrir.

Herðubreið

Un poema sobre la reina de 
la montaña islandesa Herðubreid



Herðubreið - Tu estas todavia ahi
vestidas de nubes
alredeor de tus hombros
ondea la niebla de luces y colores

viejo y sabio

hueco por dentro
y los dioses viven en el pico
gigantes al pie de la montaña
eres un director
destino del agua y los vientos
fuego y hielo

el que tiene el coraje de escalar tu cara
con soga y hacha
un grano tan pequeño
del polvo del universo.

III

Þegar maður er á miðjum aldri gerist það skrítna: unnt er að horfa bæði fram á veginn og aftur á bak til fortíðar og hægt að láta sér dveljast beggja vegna. Þetta er ljómandi skemmtilegt og margt að hugsa.

Var að gramsa í myndum og rakst á þessar frá útgáfuhófi ljóðabókarinnar Dísyrða árið 1992, það var haldið í Djúpinu (nema hvað) með góðum gestum. Charles Egill Hirt heitinn tók myndirnar og Dan Cassidy var svo elskulegur að spila á fiðluna sína í veislunni. Svo voru alls konar ræður og upplestrar, m.a. stigu á stokk skáldið góða Jón frá Pálmholti, Gísli Sigurðsson Lesbókarstjóri og Brynjar Viborg útgefandi.

Hér eru nokkrar mynda Kalla úr partíinu:

.

Blessuð sumarblíða

Sumarið leikur mismunandi við landshlutana, eins og gengur. Þannig var Austurlandið fagra sumarhýrt og hlýtt í júní en suðvesturhornið heldur kalt og vindbarið, svo skipti um í júlí. Vonandi jafnast þetta svo meira út þegar líður á sumarið og allir fá sól og hita, líka Vestfirðirnir góðu sem geyma fæðingarþorp föður míns, Patreksfjörð.

Um lágnættið steig þrunginn gróðurilmur úr skóginum, ilmur sem aðeins finnst eftir vel heitan dag og er því sjaldgæfur hér um slóðir. Í ljóðabókinni sem kemur brátt út reyni ég einmitt að gera atlögu að því að lýsa mismunandi ilmi skógarins eftir aðstæðum og árstíðum.

Í þeirri sömu bók verður einnig minningarljóð um Gjábakka sem stóð á brún Hrafnagjár á Þingvöllum en varð eldi að bráð. Ég á margar minningar úr því húsi frá þeim tíma er ég var landvörður í þjóðgarðinum. Ég gekk þar um grundir í gær og naut gróskunnar við vatnið og fossinn. Óðinshanarnir indælu léku við hverja sína fjöður af sumarkæti og krían kankaðist á við önugan hettumáv, eins og gengur.

II

Ætli það hafi ekki verið Jón Kalman sem sagði að skáldskapurinn væri eins og uppistöðulón; stundum tæmdist það alveg en byrjaði svo hægt og rólega að fyllast aftur. Þetta er auðvitað einmitt þannig. Nú er orðalónið mitt tæmt eftir Ástarsögu og ljóðabókina sem er á leið í prentvélar á vegum Dimmu. En ég finn hvernig seytlar örhægt í það, dropar inn, og þegar ég er komin eitthvað á veg með ævisögu vísindamannsins þá fer ég að leggja grunn að nýrri skáldsögu. Og haustið mun kalla á ný ljóð.

Góðar stundir.

Skemmtilegir viðmælendur

birt í Bændablaðinu

Valdimar Andersen:

Hann stendur með landinu

Stephan Stephensen, ljósmyndari, myndlistar- og tónlistarmaður

og Ófeigur Sigurðsson rithöfundur:

Vinnur með englanna urt

Inga Lísa Middleton, myndlistar- og kvikmyndagerðarmaður:

Hafið á öld mannsins

Kristín og María Marta Einarsdætur:

Erfið en yndisleg iðja

Páll Þórðarson frá Refsstað:

Bóndasonur frá Refsstað rannsakar byltingarkennd fræði RNA í Ástralíu

I

Ég endurræsti höfundarferil minn 2016, opnaði ORÐLIST.is og fór aftur að skrifa bækur eftir 20 ára hlé. Síðan hafa komið út 5 bækur og ein á leið í prentvélar til útgáfu í sumar. 6 bækur á 7 árum – ég má vel við una. Þá verða bækur mínar orðnar 9 talsins, 7 ljóðabækur og 2 skáldsögur. Mér finnst ég rétt vera að byrja. Næst ætla ég að ritstýra, og að hluta til skrifa, bók um merkan íslenskan vísindamann, það er sumarverkefnið og svo áfram uns verkefnið er í höfn. Á haustdögum fer ég að huga að nýrri skáldsögu.

Þakklæti mitt er mikið fyrir að fá að sitja að þessum brunni sagna og ljóða, gleðin yfir að skrifa og tjá er ósvikin og ásamt því að vera móðir er þetta kjarni lífs míns.

Vonandi nennir svo einhver að lesa eitthvað af því sem ég skrifa. Auðvitað er búið að skrifa allt undir sólinni og allir (í það minnsta Íslendingar) skrifandi og/eða í ritlistaráföngum svo það mæðir orðið verulega á blessuðum lesendunum.

Sumt verður ekki umflúið og þannig er því farið með mig og skrif – raison d’être!

Í burðarliðnum

Fyrir skáld er í senn óhemju spennandi og mjög ógnvekjandi þegar ný bók er í burðarliðnum. Þannig er mér farið. Bók ljóða er nú í umbroti og kápugerð og kemur út hjá forlaginu Dimmu í sumar. Ég gæti ekki hugsað mér betri og vandaðri bókaútgáfu til að fóstra þessa nýju ljóðabók, en Dimma gaf einnig út síðustu ljóðabókina mína, Í senn dropi og haf, árið 2019.

Meira síðar …

Velkomin!

Verið velkomin á vef minn ORÐLIST.is. Ég stofnaði til hans árið 2016 og nýti til að halda utan um og birta talsvert af höfundarverki mínu. Það innifelur einkum ljóð, sögur, langar og stuttar, ýmsar greinar, hugleiðingar og jafnvel drauma …

Info er alls konar upplýsingar: um höfundinn, hvað er á döfinni hjá mér og hitt og þetta annað.

Ljóð eru hér í hundraðavís, flokkuð eftir prentuðum bókum og efnistökum, birt eru óprentuð ljóð, þýðingar þeirra og þýðingar mínar á ljóðum annarra, auk nýskapaðra og alveg hrárra ljóða sem ég hef gaman af að hengja út á þvottasnúru alheimsins og láta aðeins taka sig áður en þau fara í frekara snikk.

Sögur eru skáldsögur og sannsögur (creative nonfiction), smásögur og frásögur, ýmist prentaðar eða óprentaðar, sem hljóðbækur (audio) eða rafbækur (e-book).

Undir Media er umfjöllun fjölmiðla um bækur mínar og auk þess eru þar hugleiðingar ýmsar og skrif mín í fjölmiðla, tímarit og bækur gegnum tíðina, bæði úr blaðamennskutíð og persónulega.

Í Safnrit setti ég ljóð mín sem birst hafa í safnritum ýmsum.

Ég opna hjarta mitt,
þetta innmúraða búr ljóða minna
og sendi þau eins og fugla
út meðal fólksins -
veit að sum þeirra
eiga í vök að verjast
eins og snjótittlingarnir
í hvítu kófi janúarbyljanna.
Önnur skipta sér niður á bæina
eins og hrafninn.


Matthías Johannessen, Sálmar á atómöld, 1966



Tibi ipsi estu fideles!

Halló!

Nú hef ég lokið því ætlunarverki mínu að flytja ORÐLIST.is (áður yrkir.is) um set úr Joomla yfir í WordPress-umhverfi. Ég notaði tækifærið og tók til í vefnum og hann ætti því að vera þokkalegur, en auðvitað áfram í vinnslu.

Sem fyrr er ORÐLIST.is birtingarvettvangur skáldskapar míns og ýmissa greina úr blöðum og tímaritum, þátta úr útvarpi o.fl.

ORÐLIST hefur einnig tekist það hlutverk á hendur að vera hugverkaútgáfa, gaf til dæmis út ljóðakverið Hin blíða angist, ljóð frá Mexíkó árið 2017 (þá Yrkir) og skáldsöguna Ástarsögu í prent-, hljóð- og rafbókarformi (þá Yrkir).

Kíkið á efnisyfirlitið og finnið ykkur þar eitthvað bitastætt að skoða!